14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2625 í B-deild Alþingistíðinda. (2470)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil ekki láta hjá líða að mótmæla orðum hv. 2. þm. Reykv. um bönnin, sem enn gilda. Þau bönn eru í gildi eingöngu til þess að hindra, að veikin berist hingað, og þau eru rjettmæt, af því að dýralæknir og hlutaðeigandi starfsmaður Búnaðarfjelags Íslands lögðu til, að svona langt væri gengið. Ásökun hv. þm. um aðrar hvatir er því gersamlega röng. Ef henni væri ómótmælt, gæti hún orðið til að skaða landið ákaflega mikið.

Jeg mun að öðru leyti ekki blanda mjer í umræður málsins í þessari háttv. deild. Í hv. Ed. talaði jeg og hjelt þar fast á stjfrv. óbreyttu. En nú horfir málið sjerstaklega við. Því miður er það alveg víst, að ekki er unt að koma hinum harðari ákvæðum, er í stjfrv. voru og nú liggja fyrir brtt. um, gegnum þingið. Hjer er um það að velja að stíga það spor í áttina, sem frv. fer fram á, eða gera ekki neitt. Jeg hefi orðið að beygja mig fyrir meiri hl. hv. Ed., en jeg geri það ekki með glöðu geði. Jeg álít rjett að hafa harðari innflutningsbönn en nú eru í frv., en þar fyrir dettur mjer ekki í hug að berja höfðinu við steininn, svo að engu verði framgengt. Jeg kýs heldur að beygja mig nú og hefja heldur nýja sókn á næsta þingi. Að lokum vil jeg þakka bæði hv. landbn. og þeim fimmmenningum fyrir brtt. sínar, sem sýna, að sterkur vilji er á bak við þau bönn, er gilda.