24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2741 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

15. mál, strandferðaskip

Hákon Kristófersson:

* Jeg hafði ekki búist við að lenda í stælum nú út af einhverju, sem mjer hafði hrotið af munni við 2. umr. þessa máls. En svo hefir nú samt farið.

Háttv. þm. V.-Húnv. sagði, að jeg hefði verið nokkuð nærgöngull þá við röksemdafærslu eins blaðs hjer í bænum. Jeg man nú ekki eftir, að hann hafi hagað sínum orðum svo þá. Hann var að tala um að trolla í landhelgi. (HJ: Er það ekki það sama?). Ef hv. þm. vill orða þetta svona, þá var jeg að trolla í hans eigin hugsanagangi. Jeg hafði skjal fyrir framan mig eftir þm., sem mjer virtist fara í bága við það, sem hann hafði skrifað undir í nál. minni hl. samgmn. Jeg ætlaði ekki að reita þennan hv. þm. til reiði og las aðeins upp úr skjali, sem hann hafði skrifað undir, og datt ekki í hug, að hann mundi ekki kannast við það: annars hefði jeg verið grandvar við að minnast á þetta.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði verið að dylgja með eitthvað í hans garð. Eru það dylgjur, þegar skírskotað er til merkilegra heimildarrita? Jeg hafði ekki í huga viðskifti hans við hv. 2. þm. G.-K. (HJ: Jeg skora á þm. að skýra frá því, við hvað hann átti). Það eru til þeir menn, sem jeg hirði ekki að tala tillit til áskorana frá, en úr því að hv. þm. neyðir mig til þess, vil jeg minna á það, að hann hefir ýmislegt sagt um mig í ræðum sínum, og vil jeg benda honum á að skoða þær. Nú er hann að þvo sjer, en það verður sennilega þessi nafnkunni þvottur, sem þveginn var fyrir mörgum öldum. Jeg sje ekki ástæðu til að svara þessum hv. þm. fleiru og held, að þessi orð mín hafi ekki gefið tilefni til áframhaldandi árása á mig, nema ef tilhneigingin til að kasta hnútum að andstæðingunum er svo rík hjá hv. þm., að hann ræður ekki við hana, sem jeg vona, að ekki sje. Jeg vænti þess, að hv. þm. láti sjer þetta nægja, enda vissi jeg ekki betur en að hann væri fullkomlega ánægður með þau ummæli, sem jeg beindi til hans fyrir skömmu, auk þess sem þessi árás er óvanalega tilefnislaus, því að hv. þm. gat svarað mjer strax, þegar jeg sagði þetta, sem hann álítur æruskerðingu fyrir sig. (HJ: Jeg hafði ekki tækifæri til þess þá). Jeg vil ekki skerða æru nokkurs manns viljandi, hvorki hans nje annars, og vona, að hv. þm. komist að sömu niðurstöðu um sjálfan sig.

Það kemur ekki málinu við, hvort þessar ferðir, sem við höfum talað um, eru nauðsynlegar eða ekki. Það er ekki hægt að hreinsa þá úr, sem hafa lítið erindi, og því er rangt að leggja skatt á þá menn, sem fara í brýnum erindum, fyrir þá, sem fara að þarfleysu. Vitanlega slitnar vegurinn af mikilli umferð. Hv. þm. sjer sjer kannske fært að koma fram með till. í þá átt, að menn sjeu skyldugir að greiða gjald fyrir að fara um vegi landsins. Með því móti mætti afla töluverðrar fjárhæðar. (HJ: Þetta er ekki á dagskrá!). Hv. þm. segir, að þetta sje ekki á dagskrá. Hann ljet sjer samt sæma að fara inn á það og hefir þar með gefið mjer tilefni til andsvara. Er ekki einmitt frv. til laga um smíði og rekstur strandferðaskips á dagskrá? Og mjer skilst það vera það, sem við erum að deila um.

Ef hv. þm. er óánægður við mig, vona jeg, að hann sje svo sáttgjarn maður, að hann láti sakir niður falla og eigi ekki í frekari erjum við mig. Jeg er þannig gerður, að jeg vil umfram alt frið við alla menn.

(* Ræðuhandr. óyfirlesið.)