13.04.1928
Efri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

15. mál, strandferðaskip

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það er rjett hjá hv. 3. landsk., að við höfum áður staðið á öndverðum meiði í þessu máli. T. d. held jeg, að við höfum báðir skrifað um málið, þegar Esja var bygð, og þá vildi hv. þm., að hún yrði aðallega bygð til þess að annast vöruflutninga, en síður fyrir farþegaflutninga. Jeg vildi, að Esja yrði aðallega bygð sem farþegaskip, og það varð ofan á. Mín skoðun var sú, að eftir því, sem hægt væri, ætti að skilja að vöruflutninga og mannflutninga. Hinsvegar taldi jeg rjett, að skip eins og Esja gæti einnig tekið vörur milli stærri hafna, þar sem ekki stendur á afgreiðslu. En mjer fanst hv. 3. landsk. ekki ljóst, að það verður fyrst og fremst að miða slíkt skip við lifandi fólk, en ekki við peninga. Þegar Esja var bygð, voru til menn, sem vildu hafa hana með svipaðri gerð og fyrri strandferðaskip hjer við land höfðu verið, þar sem var sæmilegt fyrsta farrými, mjög ömurlegt annað farrými og afarilt þriðja farrými. Ef Esja væri í þessu ástandi, þá er víst, að við hefðu haldist lestarflutningar á fólki, en þeir eru einhver svartasti blettur á þjóðlífi okkar. Í þessu sambandi vil jeg minna á ástandið á Hólum og Skálholti í gamla daga. Jeg man eftir því, að jeg ferðaðist einu sinni með Hólum austur um land og var á 2. farrými, sem var að vísu ljelegt. en þó miklu betra en að vera í lest. Á Austfjörðum komu um 300 manns í lestina. Var þar í fjöldi kvenna og barna. Fólkið hafði þarna logandi olíuvjelar, en karlmenn voru flestir drukknir og flæktust innan um veikar konur og börn, sem lágu í sængurfötum á gólfinu. Síðan hefir mjer verið það ljóst, að það er hið mesta menningar- og mannúðarmál að vinna á móti lestarflutningunum.

Öllum þeim, sem ferðast hafa erlendis við sæmileg skilyrði, hlýtur að vera það hrygðarefni, að hjer skuli menn vera fluttir með þeim skilyrðum, sem ekki eru boðleg skepnum. Jeg held, að það hafi sýnt sig, að jeg hafi sjeð betur en hv. 3. landsk., að það, sem veldur því, að erlendu gufuskipafjelögin moka að sjer peningunum, er það, að þau mæta þeirri þörf fólksins, sem Esja og Eimskipafjelagið bæta ekki úr. Því nær, sem við komum því marki að fullnægja þessari þörf, því betur stöndum við að vígi til þess að banna útlendingum algerlega að flytja hjer fólk með ströndum fram. En það mark, sem við verðum að keppa að, er, að við getum annast þessar ferðir einir. Viðvíkjandi því, sem hv. 3. landsk. sagði, að hallinn á Esju væri meiri en viðhald veganna, þá held jeg, að þetta tvent sje alveg hliðstætt. Strandferðirnar eru lífæð, sem ekki verður komist af án. Jeg held, að hv. þm. voni, að bygð verði járnbraut milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, en þó dettur engum í hug að trúa því, að hún muni bera sig. Segjum sem svo, að við tökum 6 milj. kr. lán til þess að bæta úr þessari þörf fyrir Suðurlandsundirlendið. Þá geta bændur að norðan, vestan og austan komið og sagt: Við vitum, að það er miklu meiri halli á járnbrautinni en á strandferðaskipinu, sem okkur var neitað um um árið. Þm. A.-Sk. gæti þá enn komið og bent á, að ekki væri enn bætt úr þörfum hans kjördæmis. Jeg nefni þetta til þess að sýna, að í samgöngumálum dugir ekki að metningur sje milli einstakra hjeraða, þannig að eitt hjeraðið telji eftir öðru, t. d. að Rangæingar segðu, þegar þeir væru búnir að fá sínum kröfum fullnægt, að nú varðaði sig ekkert um þá þarna fyrir vestan eða austan eða norðan. Jeg álít, að samgöngumálin verði að leysa með hag alls landsins fyrir augum, og verður að dæma eftir því, en engin hreppapólitík má komast þar að.

Að lokum get jeg fullvissað hv. 3. landsk. um það, að þó að þetta mál verði drepið hjer á hv. Alþingi jafnoft og „rakarafrv.“ fræga, þá verður áreiðanlega ekki hætt að bera það fram fyrr en það nær fram að ganga.