03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2848 í B-deild Alþingistíðinda. (2604)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Hæstv. dómsmrh. var að vanda mikið niðri fyrir. Hann fór að tala um byggingarefnaverslun ríkisins, sem aldrei hefir verið til, og að taka dæmi af slíku er sama sem að vísa í reynslu, sem aldrei hefir átt sjer stað.

Jeg verð nú að segja, að jeg veit ekki neitt teljandi um þessa tvo dóma, sem hæstv. ráðh. talaði um. Jeg veit heldur ekki til, að það liggi fyrir hjer að setja lög um dæmda dóma. Hæstv. ráðh. virtist vera mjög óánægður með þessa dóma, ekki sem dómsmrh., heldur vegna fyrri aðstöðu sinnar gagnvart umræddu atvinnufyrirtæki. Það er nú í sjálfu sjer ekki neitt óalgengt, að menn sjeu óánægðir með dóma. Það er altaf svo um þá, sem kallað er, að verði undir, að þeir eru meira og minna óánægðir með úrslitin. En það haggar ekki neitt því trausti, sem almenningur ber til rjettdæmis dómstólanna. Það er aðeins hugarburður hans sjálfs, að almenningur hugsi nokkuð slíkt.

Þá vildi hæstv. ráðh. gera lítið úr áliti lagadeildar háskólans, af því að allir prófessorarnir hafi verið riðnir við dóma um mál, sem mundu heyra undir þetta frv. Jeg fæ nú ekki sjeð, að þessir menn hafi verri aðstöðu til að geta gefið þingnefnd skýrslu um mál af þeirri ástæðu, að þeir hafa haft tækifæri til að kynna sjer það alveg sjerstaklega vel. Mjer sýnist þetta einmitt meiri trygging fyrir því, að svarið geti verið vel grundað.

Þá skildist mjer hæstv. ráðh. greina á við prófessorana um það, hvað felist í orðum frv. um það, að bætur skuli miðast við það tjón, sem færðar eru sönnur á, að orðið hafi. Mjer skildist hæstv. ráðh. álíta, að þetta ætti að merkja sama og að tjónið væri sannað, en það meina prófessorarnir ekki. Þeir segja: „„Að færa sönnur á“ mundi væntanlega um þessi efni verða skilið svo af dómstólunum, að líkur nægðu, og greinin því engar breytingar gera á gildandi lögum“. Það getur vel verið, að hæstv. dómsmrh. hafi einnig hugsað sjer það, að tjónið skyldi vera sannað, og jeg skýt því til hans í vinsemd, að hann taki þá svo mikið tillit til orða prófessoranna, að hann beri fram brtt. við 3. umr. um þetta atriði, svo að hans hugsun sje ljós. En ef hann er ánægður með að frv. fari í gegnum þingið með þeirri skýringu prófessoranna, sem hjer liggur fyrir, þá verð jeg að álíta það rjett, að það geri enga breytingu á gildandi lögum.

Það sýnist ekki standa mjer næst að halda hjer uppi vörn fyrir hæstarjett, en jeg vil skjóta því til flokksbræðra hæstv. dómsmrh., hvort þeim finnist ekki óviðfeldið og særandi að heyra æðsta dómstóli vorum brugðið um ranglæti og hlutdrægni úr sæti dómsmálaráðherrans.