03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2854 í B-deild Alþingistíðinda. (2606)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg hafði ekki ætlað mjer að fara í neinar deilur við hæstv. dómsmrh. út úr þessu nauðaómerkilega frv., en það verður þó ekki komist hjá því að minna hann á, að það er dálítið undarleg rökfærsla, sem hann notar. Hann er að tala um dóm, sem gengið hafi í skaðabótamáli, sem einstaklingur höfðaði gegn ritstjóra vegna atvinnuspillandi blaðaskrifa, en jeg held, að þessu frv. sje ekki einu sinni ætlað að gera neina breytingu á aðstöðu einstaklinga um þetta. Mjer hefir skilist, að meining hæstv. dómsmrh. sje — og það kemur eiginlega fram sá skilningur hjá hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar — að tryggja það, að fjelög og fyrirtæki fái sömu eða betri aðstöðu um þetta eins og einstaklingar hafa nú. (Dómsmrh. JJ: Greinarnar eru tvær í frv.). Já, þær eru tvær, en þetta hefir áður af hæstv. dómsmrh. og hv. frsm. meiri hl. verið talinn tilgangur frv., og þetta er það eina, sem þeir hafa haldið fram, að verið væri að gera til breytingar á núverandi ástandi, svo að jeg varð þess vegna ákaflega hissa á þessu tali hæstv. ráðh. um dóma, sem hafa ekki snúist um fjelög eða stofnanir, heldur um skaðabótakröfur einstaklinga.

Jeg geri ráð fyrir, hvað snertir þennan dóm um skaðabótakröfu Garðars Gíslasonar heildsala, sem hæstv. ráðh. nefndi og sagði langa sögu af, að þá hafi það verið talsvert einhliða framsetning. Mjer heyrðist hæstv. ráðherra tala líkast því, sem maður mundi hafa heyrt óánægðan málaflutningsmann tala, þegar hann hefir fengið dómstólinn á móti sjer; en jeg tek þetta aðeins fram af því, að jeg hefi engan kunnugleika á þessu máli, til þess að geta leiðrjett neinar getsakir, sem hæstv. dómsmrh. kann að hafa sett hjer fram, nje fylt í eyður, sem hann kann að hafa skilið eftir og þörf er á að útfylla, til að fá rjettan skilning á málinu. Og þótt hæstv. ráðh. komi svo einhverntíma seinna og segi, að jeg hafi orðið að þegja við þessu eða hafi samþykt það með þögninni, þá hefi jeg nú gefið skýringu á því.

Hæstv. dómsmrh. hafði það mjög rangt eftir, sem jeg sagði viðvíkjandi ummælum úr dómsmálaráðherrasætinu. Hæstv. ráðh. hafði það eftir mjer, að jeg hefði sagt, að það kæmi sjer illa fyrir hæstarjett, að dómar hans væru vjefengdir, en jeg sagði, að það væri kannske til þess að veikja virðingu þjóðfjelagsins, þegar það getur átt sjer stað, að dómsmrh. leyfir sjer, og það úr ráðherrasæti sínu á þingi, að gefa yfirlýsingu um það, að hann saki hæstarjett landsins um hlutdrægni og rangdæmi, og það aðeins af því, að þessi hæstirjettur hefir áður fyr dæmt einhvern dóm, sem þessum manni, sem nú er dómsmrh., þá mislíkaði, vegna þess að hann var að einhverju leyti aðili. (Dómsmrh. JJ: Jeg sannaði ósamræmið). Já, málafærslumenn sanna altaf mál sitt, en þeir, sem standa fyrir utan, vita, að sönnunin er ekki rjett nema hjá öðrum, og það, sem hæstv. ráðh. kom með, var náttúrlega ein af þessum sönnunum, sem menn eru vanir að sjá málsaðilja og málaflutningsmenn bera fram og dómstólarnir verða að meta, venjulega þannig, að þeir fallast á annan helminginn, en hafna hinum. Í hvorum hluta sannleikur hæstv. ráðh. liggur, það er ekki hans að dæma um, því að hann var þarna að tala um mál, sem hann sjálfur hefir að nokkru verið aðili í.

Hæstv. ráðh. á nú svo erfitt með að komast að því í sínum mörgu og löngu ræðum, hvaða skilning hann sjálfur vill leggja í ákvæði frv., að jeg er ekki ennþá öldungis viss um, hvort tilgangur hans er sá, að innleiða í íslenska löggjöf strangari sannanir fyrir kröfum til skaðabóta en verið hefir áður. ( Dómsmrh. JJ: Er ekki hv. þm. læs?). Jú, hann er að vísu læs, en hæstv. dómsmrh. er ekki gefið að geta orðað hugsanir sínar, þegar hann er að semja lagagreinar, svo að ekki sje alt tvírætt. Og hæstv. ráðh. hefir sjálfur fyrir sjer dæmið um það, að lagadeildin hefir skilið hann svo, og gefið yfirlýsingu um það, að dómstólarnir muni skilja hans orðalag alveg gagnstætt því, sem hann virðist meina. (Dómsmrh. JJ: Jeg hefi sagt, hvers vegna lagadeildin hefir flaskað á þessu). Nei, hæstv. ráðh. hefir ekki þá einlægni að segja það, sem satt er, að honum sjálfum mistókst að finna þau rjettu orð fyrir sína hugsun; honum tókst ekki að segja það, sem hann meinti.