30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2887 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Sigurður Eggerz:

Það er tvent, sem gera verður mjög strangan mismun á; það er, hvernig dómstólarnir eru og hvernig lögin eru. Þessu má ekki blanda saman, en það mun aldrei vera hægt að gera lögin þannig úr garði, að ekki komi fram ýms tvíræð skýringarspursmál. Annars vil jeg geta þess um þá tvo dóma, er hæstv. dómsmrh. nefndi, að ef jeg ætlaði að koma með yfirlýsingu um það, hvort samræmi væri á milli þeirra eða ekki, yrði jeg að framkvæma mjög ítarlega rannsókn á þeim.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að hæstirjettur hefði dæmt tvo dóma, er væru algerlega ósamræmanlegir. Jeg hefi jafnan borið hið besta traust til hæstarjettar, en þar sem jeg hefi ekki rannsakað þessa tvo dóma, get jeg ekki rætt þá. En þó svo væri, sem hæstv. ráðh. sagði, að hæstirjettur hefði dæmt tvo dóma, er væru í stríði hvor við annan, og þó hæstirjettur væri öðruvísi en hann ætti að vera, þá er ekki hægt að lækna þau mein með slíkum breytingum á löggjöfinni og hjer er farið fram á. Sannleikurinn er sá, að það er varla hægt að gera lögin svo skýr, að ekki komi ótal ágreiningsmál, þegar dæma á eftir þeim. Nú segir lagadeild háskólans, að alt það sje í gildandi lögum, sem í frv. stendur. Ef um viss vafaatriði væri að ræða, þá mætti auðvitað gera þau skýrari, en auðvitað verða lög aldrei gerð svo úr garði, að ekki geti út af þeim risið ýms vafamál, sem dómstólarnir verði að skera úr. Það verður að gjalda varhuga við að kasta þungum steini á dómstólana, þótt dómur þeirra sje oss ekki ætíð að skapi, því að mörg mál eru svo tvíræð í eðli sínu. Eins og jeg hefi áður sagt, þarf oft mjög mikla skarpskygni til þess að draga það út úr lögunum, sem rjettast er, og því er það, að þeir, er ekki eru löglærðir, eiga oft erfitt með að átta sig á ýmsum dómum.

Nú hefir lagadeild háskólans, eins og jeg tók fram, látið í ljós skoðun sína á frv. segir svo í áliti hennar, að um þrjár leiðir sje að velja um það, hvernig dæma skuli bætur fyrir slík ummæli, og verði löggjafinn að gera sjer það ljóst, hver þeirra reglna eigi að gilda framvegis. 1. reglan er svo (með leyfi hæstv. forseta): „Dæma bætur ávalt, er ummælunum er svo háttað, að þau gætu hafa valdið tjóni“. En svo bætir deildin hví við, að af því mundi leiða, að bætur yrðu stundum dæmdar, þó ekkert tjón hefði orðið, og ræður deildin frá að fylgja þeirri reglu.

Þá er 2. regla: „Dæma bætur aðeins fyrir tjón, er sannað væri“. Og loks 3. reglan, að dæma bætur fyrir tjón, þó ekki sjeu sannanir fyrir því, að tjónið hafi stafað af ummælunum, ef hægt er að færa líkur að því.

Nú vil jeg spyrja hæstv. dómsmrh., hvort það frv., er stj. ber fram, sje bygt á grundvallarreglu 2.

Í frv. stj. segir svo: „Nú telur einhver þeirra aðilja, sem getur í 1. gr., sjer fjárhagslegt tjón gert með slíkum ummælum, og skulu þá bætur þær, er honum kunna að verða gerðar, miðast við það tjón, er hann færir sönnur á“. — Er það þá hugsun stj., að frv. hvíli á reglu 2, og aðeins skuli greiða bætur fyrir tjón, sem sannað er?

Nú segir háskólinn, að afleiðing þessa yrði sú, að oft fengjust ekki bætur fyrir orðið tjón, af því að fulla sönnun brestur, og væri þá með þeirri reglu sköpuð betri aðstaða fyrir þá, er ekki kunna að haga svo orðum sínum, sem leyfilegt er.

Þá er 3. reglan. Segir háskólinn, að hún sje í gildandi lögum, og gengur út frá, að frv. stj. hvíli einnig á þeirri reglu, því að orðin „að færa sönnur á“ myndu oftast skilin svo, að líkur nægðu. Því vil jeg endurtaka spurningu mína til hæstv. dómsmrh.: Byggist frv. stj. á 2. eða 3. reglu? Sje það bygt á 3. reglu, er enginn ágreiningur milli háskólans og stjórnarinnar.

Jeg vona, að það, sem jeg hefi tekið fram hjer, nægi til þess að sýna, að þessu máli, sem snertir borgarana mjög og er mjög almenns eðlis, megi ekki ráða til lykta án ítarlegrar athugunar í nefnd.

Allir eru sammála um 1. gr. Auðvitað eiga þar greind fjelög að njóta sömu verndar og einstakir menn. Háskólinn segir, að sú sje og reglan í gildandi lögum. Þó þessi regla væri að nýju undirstrikuð með þessari lagasetningu, þá sje jeg enga ástæðu til að amast við því.

Jeg læt nú numið hjer staðar, en vænti þess, að hæstv. dómsmrh. svari fyrirspurn minni um það, á hvaða reglu hann hafi ætlað að byggja frv. sitt.