04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Þorláksson:

Jeg hefi nú ekki mikið að segja, en vil aðeins taka það fram viðvíkjandi till. um að veita Geir T. Zo?ga rektor full laun, ef hann lætur af embætti, að hún er alls ekki sambærileg við það, sem hæstv. dómsmrh. tók til samanburðar. Jeg á þar við fjárveitinguna til Ögmundar Sigurðssonar skólastjóra í Flensborg. Þar var um venjuleg eftirlaun að ræða, sem sett voru í 18. gr. fjárl. Hitt er aftur á móti hættulegt fordæmi, ef á að innleiða það með atkvgr. við eina umr. í annari þingdeildinni, að það megi, ef svo vill verkast, kaupa embættismenn burt úr embættum sínum, með því að setja ákvæði um það, að þeir skuli halda óskertum launum sínum. Jeg vil nú ekki segja, að um slíkt sje að ræða í þessu tilfelli, því þessi maður er nú kominn á þann aldur, að ekki er nema eðlilegt, að hann fari að segja af sjer; en það eru líka ákaflega margir embættismenn úti um alt land, er, sem betur fer, hafa staðið svo vel í stöðu sinni, að þeir þola samanburð við hvern þann, er áður hefði fengið svo góða meðferð sem nú á að sýna þessum manni. Þetta er því mjög varhugavert fordæmi, þó það sje minna en margt annað, sem nú er uppi á Alþingi í lagaformi, þar sem farið er fram á, að starfsmönnum í fullu fjöri og með fullum starfskröftum sje kipt úr embætti og þeir settir á biðlaun í 5 ár.

Jeg skal svo ekki segja fleira nú, því það er ekki skylda mín sjerstaklega að benda á það, sem varhugavert kann að vera í því, sem núverandi stjórn fer fram á.