16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3152 í B-deild Alþingistíðinda. (2856)

57. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Jón Þorláksson):

Eins og nál. ber með sjer, mælir nefndin með því, að 1. gr. frv. verði samþ.; hún telur það sjálfsagða breytingu á þingsköpunum.

En ákvæði 2. gr., um það, að þm. skuli tala úr sjerstökum þar til gerðum ræðustóli, getur nefndin ekki fallist á. Ein af þeim ástæðum, sem færðar hafa verið fram með þessu, er sú, að þá sje þægilegra að víðvarpa ræðum þm. En nefndin telur ekki neina örðugleika á að víðvarpa þingræðum með því fyrirkomulagi, sem nú er, þegar Alþingi hefir ákveðið, að svo skuli vera og hjer er komin fullkomin útvarpsstöð. Nefndin getur heldur ekki fallist á að fara þá leið, sem 3. gr. stingur upp á, til þess að takmarka málfrelsi þm. Eftir því sem nefndinni er kunnugt um, hvernig þetta er framkvæmt annarsstaðar, þá mun það frekar á þá leið, að tíminn sje takmarkaður en hitt, hve oft þm. megi taka til máls.

Meira hefi jeg ekki að segja fyrir hönd nefndarinnar, en jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. um það, að aftan við upptalningu fastanefnda komi ný nefnd: utanríkismálanefnd. Mjer hefir verið fullkomlega ljós þörfin á að fá þessa nefnd, en nú er komin fram í frumvarpsformi till. um að kjósa í Sþ. 7 manna utanríkismálanefnd, er starfi einnig milli þinga. Það hefir verið reynt að fá samkomulag um þetta við hv. allhsn. Nd., sem hefir fengið þetta frv. til meðferðar, en engin niðurstaða orðið. Jeg álít, að Alþingi eigi að sýna afstöðu sína til utanríkismálanna með því að láta sjerstaka nefnd um þau fjalla alveg hliðstæða þeim nefndum öðrum, sem þingið kýs. Jeg álít, að þingið geti ekki á annan hátt betur bent á það, að utanríkismálin eru algerlega í okkar höndum, þó að við höfum kosið til bráðabirgða að hafa sjerstakt fyrirkomulag á framkvæmd þessara mála.

Til þess að þingið hafi full not þessarar nefndar, þarf hún að vera kosin eftir þingsköpum. En komi aftur utanríkismál til athugunar í Sþ., sem vel getur orðið, þá leyfa þingsköpin fyllilega, að utanríkismálanefndir beggja deilda gangi saman í samvinnunefnd.

Háttv. meðnefndarmenn mínir vildu ekki, að nefndin flytti þessa brtt., en ljetu þó ekki neitt í ljós móti till.