16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

57. mál, þingsköp Alþingis

Jón Baldvinsson:

Jeg ætla ekki að minnast á frv. sjálft, því að hv. frsm. mun hafa talað fyrir hönd nefndarinnar. Jeg ætla að minnast á þá brtt., sem hv. 3, landsk. flytur sjerstaklega og hann nú er búinn að tala fyrir.

Jeg veit, hvað fyrir hv. þm. vakir, og jeg er út af fyrir sig ekki ósamþykkur því, sem hv. þm. vill láta koma fram í þingsköpunum, að til sjeu utanríkismál, en jeg tel aðra aðferð heppilegri. Hv. þm. vill láta hvora deild hafa sjerstaka nefnd, sem málunum sje vísað til. En mjer finst, að fyrst og fremst sjeu utanríkismál mál alls þingsins, en ekki deildanna sjerstaklega, jafnvel þótt svo kunni að geta virst, og að löggjöf út af utanríkismálum komi til deildanna.

Nú hefði jeg talið rjettara, að samþykt yrði það frv., sem nú er á ferðinni í hv. Nd., frá hv. 2, þm. Reykv. (HjV), sem gerir ráð fyrir, að sameinað Alþingi skipi utanríkismálanefnd. Jeg geri það ekki að neinu atriði, hve mörgum mönnum hún er skipuð, aðeins að slík nefnd sje til. Jeg skal ennfremur benda á, að það þarf ekki annað en að gera litla breytingu á þingsköpunum, til þess að sú nefnd geti fengið til umráða og umsagnar öll utanríkismál frá deildunum líka, aðeins að þingsköpunum sje breytt í þá átt, að heimilt sje að vísa til þeirrar nefndar öllum þeim utanríkismálum, sem fyrir kunna að koma í deildunum. Álít jeg þá aðferð rjettari, því að við setjum þau mál hærra með því að skipa þeim í sameinuðu þingi heldur en að vera að hrekja þau á milli deilda. Þess vegna álít jeg, að brtt. hv. 3. landsk. beri ekki að samþykkja, heldur sje rjettara að samþykkja þá breytingu, sem farið er fram á í hv. Nd., og rjett að gera þá breytingu á því frv., að hvor deildin geti vísað til nefndarinnar þeim málum, er hún vill, þótt sú regla hafi ekki verið áður. En þetta er dálítið sjerstaks eðlis með utanríkismálin, og þess vegna ekki óeðlilegt, að þau sæti dálítið annari meðferð heldur en almenn löggjafarmál.