29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3176 í B-deild Alþingistíðinda. (2879)

57. mál, þingsköp Alþingis

Sigurður Eggerz:

Jeg skýrði frá því, þegar jeg talaði um þetta mál, að aðalatriðið væri það, að þessar nefndir yrðu settar á stofn, en hinsvegar var þessi brtt. mín til þess að reyna að sameina alla um málið, og hefði líka átt að geta orðið til þess, þar sem nefndirnar eru kosnar í báðum deildum og ganga svo saman í eina nefnd á milli þinga. — Jeg vil geta þess, að fordæmi eru fyrir því, að nefndir í báðum deildum gefa út sameiginlegt nefndarálit.

En af því að aðalmótbáran, sem hreyft hefir verið gegn þessu fyrirkomulagi, hefir verið sú, að ef málinu væri svo fyrir komið, væri ekki hægt að kjósa forseta Nd. í nefndina, þá verð jeg að segja, að jeg teldi það mikinn galla, ef þessi tillaga mín yrði til þess, að hæstv. forseti deildarinnar gæti ekki komist í nefndina. En jeg sje ekki, að það sje neitt í þingsköpunum, sem gæti verið því til fyrirstöðu, að kjósa mætti forseta Nd. í nefndina, enda mætti líka til vara koma með skýrt ákvæði um þetta í þingsköpin. Annars skal jeg geta þess, að jeg ber þessa till. fram í fullu samráði við forseta þessarar deildar, og veit jeg ekki annan þm., sem jeg vildi frekar ræða slík vandamál við en hann.

Að því er snertir athugasemdir hv. þm. Borgf. (PO), að svo geti farið, að þingmenn, heimilisfastir utan Reykjavíkur, gætu ekki orðið kallaðir saman ásamt öðrum nefndarmönnum, vegna fjarlægðar, þá vil jeg aðeins benda á, að hægt væri að hafa varamenn.

Jeg get ekki fengið mig til að halda lengri ræðu um málið, með því að fyrir mjer er það aðalatriðið, að settar verði slíkar nefndir hjer, og að nefndirnar sitji ekki aðeins á meðan þingið stendur, eins og í norska þinginu, heldur megi einnig ná til þeirra á milli þinga. Þá álít jeg nauðsynlegt að bæta inn í frv. ákvæði um þagnarskyldu. Þau mál, sem hjer er um að ræða, eru þess eðlis, að full nauðsyn er á slíku ákvæði.

Jeg hefi þá lýst afstöðu minni til þessa máls. Ef till. mín verður feld, mun jeg greiða atkv. með því, að nefndin verði kosin í Sþ. Hjer er ekki um neitt kapp að ræða frá minni hendi.