01.02.1928
Neðri deild: 11. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3247 í B-deild Alþingistíðinda. (3036)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Breytingar þær, sem farið er fram á í þessu frv., eru aðallega tvær. Hin fyrri er um það, að lögsagnarumdæmi Ísafjarðarkaupstaðar, sem nær nú yfir jarðirnar Eyri með Stakkanesi og Seljaland, verði stækkað, þannig að Tunga verði einnig lögð undir lögsagnarumdæmi kaupstaðarins. Síðari breytingin er sú, að í stað þess, að nú þarf 3/5 hluta atkvæða til þess, að bæjarstjóra megi setja í stað bæjarfógeta, skuli aðeins þurfa til þess einfaldan meiri hluta greiddra atkvæða, og að bæjarstjóri skuli ráðinn af bæjarstjórn, en eigi kosinn af borgurunum. Jeg skal fyrst tala um fyrra atriðið.

Eins og hv. dm. er kunnugt, á Ísafjarðarkaupstaður alla sína afkomu undir sjávarútveginum. Landrými er þar mjög lítið. Bærinn stendur undir brattri hlíð, og er aðeins mjó gróðurræma milli fjalls og fjöru. Bæjarmenn hafa skilið, að þeim er það mikil nauðsyn að fá nokkurt land til ræktunar, því að svipull er sjávaraflinn. Á þessu byrjuðu þeir skömmu fyrir aldamótin. Þá keypti bærinn kirkjujörðina Seljaland. Árið 1917 var svo lögsagnarumdæmið fært út, svo að það náði yfir þá jörð, auk jarðarinnar Eyrar með Stakkanesi. Nú hefir Ísafjarðarkaupstaður eignast 19/24 hluta jarðarinnar Tungu og þegar tekið helming jarðarinnar í ábúð. Tunga er næsta jörð fyrir innan Seljaland og mjög vel fallin til ræktunar. Í fyrra sumar ljet bæjarstjórnin reisa þar fjós fyrir 20 kýr, og er á næsta ári gert ráð fyrir, að bærinn ráðist þar í allmiklar jarðabætur og nýrækt, auk þess sem ýmsir bæjarmenn fá þar landspildu til ræktunar. Þegar á alt þetta er litið, verður ekki annað sagt en að öll sanngirni mæli með því, að jörðin verði lögð undir lögsagnarumdæmi kaupstaðarins. Hreppur sá, sem jörðin nú tilheyrir, missir lítils í, því að kúabú bæjarins er reist í Seljalandi, en ekki í hreppnum, svo hann getur ekki lagt útsvar á það. Missir hann því aðeins tekjurnar af ábúandanum á þeim helmingi jarðarinnar, sem bærinn ekki hefir tekið í ábúð. Er því hjer um lítilræði að ræða, sem jeg hygg, að greiðlega náist samningar um milli hrepps og bæjarstjórnar.

Um hina breytinguna er það að segja, að stjórn bæjarmálefna á Ísafirði er orðið svo umfangsmikið starf, að það er hreinasta fjarstæða að ætla manni, sem er eins störfum hlaðinn og bæjarfógetinn, að annast það í hjáverkum. Bærinn á og rekur sjúkrahús, sem rúmar 50–60 sjúklinga, gamalmennahæli, barnaskóla og allstóran unglingaskóla. Hann hefir keypt tvær stærstu fasteignir í bænum, bygt stóra hafskipabryggju, á allmörg hús og aðrar eignir, sem þurfa umsjár og eftirlits, auk jarða og kúabúsins, sem jeg áður nefndi. Það getur ekki verið aukastarf, að annast forstöðu þessara framkvæmda. Í greinargerð frv. er þess getið, að þrisvar sinnum hafi meiri hl. atkvæða við almenna atkvæðagreiðslu á Ísafirði goldið því jákvæði, að valinn skyldi sjerstakur bæjarstjóri, en atkvæðamunur hefir aldrei orðið svo mikill, sem lögin heimta, 3/5 hlutar. Síðast vantaði 16–20 atkvæði. Minni hluti borgara hefir þannig getað hindrað meiri hlutann í því að koma breytingunni á svo árum skiftir. Slíkt er auðvitað algerlega óviðeigandi og því sjálfsagt að breyta þessu ákvæði.

Jeg þykist ekki þurfa að fjölyrða frekar um þetta mál. Jeg vænti þess, að hv. þm. veiti því stuðning og leyfi mjer að mælast til, að því verði, að umr. lokinni, vísað til allshn.