13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

1. mál, fjárlög 1929

Haraldur Guðmundsson:

Í fjárlagafrv. eins og það nú kemur frá hv. Ed. eru ýmsir liðir, bæði tekju- og gjaldamegin, sem jeg er ekki ánægður með. Út í það skal jeg ekki fara. Við fyrri umr. fjárlaganna og atkvgr. um einstaka liði hefir afstaða mín til þeirra komið í ljós. Aðeins vil jeg nú taka það fram, að jeg og flokksmenn mínir erum yfirleitt mótfallnir þeim aðferðum, sem aðallega eru hafðar til að afla ríkissjóði tekna, þ. e. tollum á þurftar- og neysluvörum almennings. Nú mun jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um fjárlögin alment.

Nú er gott árferði, og má gera ráð fyrir, að árið 1929 njóti góðs af því. Því hefði mátt ætla, að svo yrði nú gengið frá fjárlögum þess árs, að í þeim væri gert ráð fyrir allríflegum tekjuafgangi. Svo er ekki. Og þó að sumir tekjuliðirnir sjeu varlega áætlaðir, eru aðrir, sem ekki mega hærri vera. Sumir mjög verulegir lögboðnir gjaldaliðir hafa ekki verið teknir inn í fjárlögin; skal jeg þar til nefna aðeins 100 þús. kr. framlag til sundhallar í Reykjavík. Furðar mig á, að hv. Ed. skuli ekki hafa tekið upp þennan lið eins og hún tók upp framlagið til landnámssjóðs og búfjártryggingarsjóðs, sem hvorttveggja einnig er ákveðið með lögum, afgreiddum á þessu þingi.

Eins og frv. nú er úr garði gert, eru litlar eða engar líkur til þess, að nokkur tekjuafgangur geti orðið, nema óvænt höpp beri að höndum. Líklegra er, að halli verði á árinu, nema árferði verði því betra. Hjer í hv. deild hefir verið drepið á ýmsa hina smærri gjaldaliði, t. d. styrki til einstakra manna. Jeg skal ekki deila um nauðsyn þeirra. Slíkt orkar jafnan mjög tvímælis, einn telur þetta nauðsynlegt, annar hitt. Vil jeg snúa mjer að hinum stærri upphæðum. Og aðalútgjöldin eru þá til verklegra framkvæmda, að meðtöldu því fje, sem varið er til samgangna á sjó og landi. Skal jeg leyfa mjer að lesa hjer upp nokkrar upphæðir fjárlaganna, sem verja á í þessu skyni. Eru þær teknar úr lauslegu yfirliti, sem jeg hefi gert yfir fjárlagafrumvarpið eins og það nú liggur fyrir.

Útgjöld samkv. 13. gr. eru: Til vega og brúa 892 þús. kr. — auk fastra launa og styrkja. Til síma 500 þús. kr. — auk alls starfrækslukostnaðar. Til vita 105 þús. kr., sömuleiðis auk starfrækslukostnaðar. Þar við má bæta því, sem varið er til samgangna á sjó, en það eru 432 þús. kr., að meðtöldum þeim 85 þús. kr., sem heimilað er að greiða Eimskipafjelaginu, auk þess, sem kynni að verða lagt til byggingar og rekstrar nýs strandferðaskips. Nema þá framlög ríkisins til samgangnanna einna samtals nærri 2 milj. kr. Þar við bætast svo framlög sýslusjóðanna, minst 75 þús. kr. Þá koma verklegar framkvæmdir samkvæmt 12. og 14. gr., þ. e. til skóla- og sjúkrahúsbygginga, samtals 275 þús. kr. Loks má telja gjöld samkv. 16. gr., sem eru nærri eingöngu til verklegra framkvæmda. Í þeim felast ekki, að jeg hygg, önnur starfslaun, sem greidd eru beint úr ríkissjóði, en greiðslur til matsmanna og dýralækna, og nokkrar smærri upphæðir, svo sem til erindrekstrar. En útgjöldin samkv. þessari grein nema um 1300 þús. kr. Af þessu fara 895 þús. kr. til landbúnaðarins: 565 þús. kr. þar af er beinn styrkur til landbúnaðarframkvæmda, sumpart styrkir til fjelaga og sumpart til einstaklinga samkv. jarðræktarlögunum, og 330 þús. kr. til ýmsra landbúnaðarsjóða, svo sem byggingar- og landnámssjóðs, búfjártryggingasjóðs og ræktunarsjóðs. Til Fiskifjelagsins og fiskiveiðasjóðs fara samtals aðeins 76 þús. kr. Alls telst mjer til, að framlög til verklegra framkvæmda nemi um 3 milj. 500 þús. kr., eða hjer um bil þriðjungi allra gjaldanna samkv. fjárlagafrv. En þau eru áætluð 10 milj. 850 þús. kr.

Mjer dettur ekki í hug að neita nauðsyn þeirra framkvæmda, sem hjer er verið að veita fje til. En við afgreiðslu fjárlaganna ber að líta á tvent: nauðsyn og getu. Mæli jeg þetta einkum til þeirra manna, sem heimtuðu verklegar framkvæmdir, jafnvel þó að þær yrðu að kosta tekjuhalla á fjárlögunum. Annars held jeg, að ekki verði annað með rjettu sagt en að mjög ríflega sje nú til þeirra lagt, þegar þeim er ætlaður 1/3 allra tekna ríkissjóðs. Tel jeg, að Alþingi hafi teygt sig svo langt, sem frekast er unt, í þeim efnum. Menn mega ekki einblína á árin 1925 og 1926. Árið 1925 urðu tekjurnar yfir 16 milj. Nú er gert ráð fyrir tæpum 11 milj., og þó að þær kunni að fara eitthvað fram úr áætlun, er því varlega treystandi.

Í þessu sambandi vil jeg drepa á skoðun, sem nokkuð hefir bólað á hjer í hv. deild. Hún er sú, að fjárveitingar til verklegra framkvæmda sjeu ekki bindandi fyrir stj. nema fje sje fyrir hendi, að ákvæði fjárlaganna beri aðeins að skoða sem heimild. Jeg tel þetta rangt með öllu. Jeg tel þær algerlega bindandi fyrir stjórnina. Með það fyrir augum er enn meiri ástæða til að afgreiða fjárlögin tekjuhallalaust, þannig að víst sje, að tekjur hrökkvi jafnan fyrir lögmætum gjöldum, þótt erfiðlega ári, og afgangur verði, ef góðæri gefst.

Þegar þess nú er gætt, hve stórhuga þingið hefir verið og stórtækt í því að lögbjóða greiðslur úr ríkissjóði, er ákaflega undarlegt, að þessi hv. deild skuli hafa hafnað allálitlegum tekjustofni, þar sem tóbakseinkasalan er. Af henni hefði áreiðanlega mátt fá drjúgar tekjur, og það algerlega án þess að íþyngja almenningi með sköttum meir en orðið er. Hefði frv. um tóbakseinkasöluna verið samþ., mundi afgreiðsla fjárlaganna hafa orðið sæmileg. Jeg kemst ekki hjá því að átelja þá menn, sem verið hafa svo örir á fje ríkissjóðs sem áður er sagt, fyrir að vilja ekki notfæra ríkinu þennan tekjustofn.

Jeg tel, að útlitið sje nú svo gott, að nokkurs tekjuafgangs hefði mátt vænta, ef þessum tekjulið hefði verið bætt við. Góðærin eiga yfirleitt að gefa tekjuafgang, sem síðar, þegar lakar árar, á að nota til verklegra framkvæmda. Þá er þeirra mest þörf vegna atvinnuleysis. Með slíku fyrirkomulagi getur ríkissjóður bætt nokkuð úr skipulagsleysi því og óstöðugri atvinnu, sem leiðir af því, að atvinnurekstur er allur í höndum einstakra manna, sem reka hana sjer til hagnaðar fyrst og fremst, en ekki með tilliti til almenningsheilla og velfarnaðar.