06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3272 í B-deild Alþingistíðinda. (3060)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Haraldur Guðmundsson:

Háttv. þm. Borgf. hjelt því fram, að ekki væri rjett að svifta sveit og sýslu þeim tekjustofni, sem jörð þessi, Tunga, væri. Hann virtist ekki gæta að því, að gert er beinlínis ráð fyrir að ljetta af hreppnum þeirri ómagaframfærslu, sem á honum hvílir vegna jarðar þessarar. Jeg fæ ekki sjeð, að rjettlátari mælikvarða sje hægt að finna í þessu efni, enda er það sá mælikvarði, sem farið hefir verið eftir, þegar um slíka skiftingu sem þessa hefir verið að ræða. Þá vildi þessi háttv. þm. halda því fram, að það væri á móti anda laganna að breyta takmörkum hreppa með lögum án samþykkis hlutaðeigandi hreppsnefndar. En jeg fæ ekki betur sjeð en það sje beinlínis eftir laganna hljóðan, því að ef samþykki hreppsnefndar fæst ekki, eins og hjer hefir átt sjer stað, þá er að leita til þingsins, eins og hjer hefir verið gert. Auðvitað þarf samþykki viðkomandi hreppa til þess að stjórnin geti breytt mörkum þeirra, en Alþingi getur sett lög um þessi efni sem önnur eftir geðþótta. Þá vildi hann halda því fram, að hjer væri verið að fara ránsferð á hendur hreppnum og með þessu væri verið að auka kaupstaðavaldið o. s. frv. Þetta eru bara vindhögg út í loftið, sem jeg hirði ekki um að svara.