08.03.1928
Efri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3520 í B-deild Alþingistíðinda. (3253)

113. mál, verðtollur

Frsm. 2. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg get að mestu leyti sparað mjer framsögu í þessu máli, vegna þess, að jeg gerði grein fyrir nauðsyn þess í framsöguræðu minni fyrir frv. um breytingu á vörutollslögunum, sem afgr. var hjeðan í gær. Jeg skal aðeins geta þess, að eins og álit hv. 1. minni hl. ber með sjer, þá gengur hann ekki alveg á móti málinu. Hann vill ganga inn á, að í staðinn fyrir 15% verðtoll komi 12½%. Í þessari lækkunartillögu liggur þó viðurkenning fyrir tekjuaukaþörfinni. Má því segja um háttv. 1. minni hl., að „Smátt skamtar faðir vor smjörið“, því að hún mun lítið auka tekjur ríkissjóðs, Það kann að vera, að tekjuauki sá, sem ríkissjóður fengi eftir frv. þessu samkvæmt till. 1. minni hl., dygði að miklu leyti fyrir þeim útgjaldaauka, sem t. d. lögin um byggingar- og landnámssjóð koma til með að hafa fyrir ríkissjóð. Enda er það sá eini tekjuauki, sem háttv. 3. landsk. vildi ganga inn á í nefndinni, að þörf væri á. En betur má, ef duga skal.

Annars er erfitt að segja ákveðið um það, hver tekjuauki muni verða af frv. þessu, en eftir því, sem næst verður komist, er ekki ósennilegt, að hann gæti orðið um 300–400 þús. kr., ef það næði fram að ganga óbreytt.

Þá ljet hv. 1. minni hl. skína í þá skoðun sína, að hann teldi, að hækkun verðtollsins úr 20% upp í 30% mundi verka þannig að draga úr innflutningi á þeim vörum, sem undir þann flokk falla. Það má vel vera, að svo verði, en jeg teldi þá engan skaða skeðan, þó að sú raun yrði á, því að þær vörur, sem hann hvílir á, eru ekki svo bráðnauðsynlegar, að þjóðin líði nokkurn baga við þó að innflutningur þeirra minkaði. Það væri þvert á móti hagur fyrir þjóðfjelagið, að svo yrði, enda þótt tekjuáætlun fjárlaganna kynni eitthvað að raskast.

Jeg tel því síst illa farið; þó að hækkun þessi verki þannig að draga eitthvað úr innflutningi á hinum miður nauðsynlegu vörutegundum, sem þessi tollur hvílir á. Annars kemur mjer ekki til hugar, að hækkun þessi á verðtollinum verki neitt svipað því og innflutningsbann.

Læt jeg svo við þetta sitja að sinni, enda þótt jeg eigi ýmsu ósvarað frá umræðunum í gær, því að vel má vera, að síðar gefist tækifæri til að svara því.