08.03.1928
Efri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3525 í B-deild Alþingistíðinda. (3256)

113. mál, verðtollur

Frsm. 1. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg held, að það sje ekki rjett athugað hjá hv. frsm. 2. minni hl., að það falli færri vörur undir tollinn samkv. þessu frv. en var 1927. Jeg hygg það alveg rjett, eftir athugasemdum frv. að dæma, að flokkun sú, sem gilti 1927, haldist óbreytt samkv. þessu frv.

Annars er það rjett athugað hjá hv. frsm., að aðalágreiningurinn er ekki um þetta frv., heldur er skoðanamunur um það, hve mikils tekjuauka sje þörf.

Í samráði við hv. meðnefndarmann minn (BK) og með tilliti til þess, að 3. umr. fjárlaganna stendur fyrir dyrum í Nd., leyfi jeg mjer að fara fram á það við hæstv. forseta að mega taka aftur brtt. okkar þannig, að hún komi ekki til atkv. við þessa umr., en við megum taka hana upp aftur við 3. umr., ef við viljum halda henni áfram þá.