30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3536 í B-deild Alþingistíðinda. (3271)

113. mál, verðtollur

Hannes Jónsson:

Þessi brtt., sem hv. 1. þm. N.-M. og jeg flytjum, fer í þá átt, að lögin öðlist gildi þegar í stað, í stað þess, að frv. gerir ráð fyrir, að það verði 1. júlí. Ástæðan fyrir þessari brtt. er sú, að við viljum gera lögin þannig úr garði, að menn freistist ekki til að flytja inn óhæfilega mikið af vörum, áður en lögin ganga í gildi, til þess að losna við tollhækkunina. En þetta mundi óneitanlega verða, ef lögin gengju í gildi 1. júlí. Allur slíkur óeðlilegur innflutningur, og það jafnvel á miður nauðsynlegum vörum, getur ekki leitt til annars en ófarnaðar í viðskiftamálum þjóðarinnar, auk þess sem það verður til að draga úr tekjuaukanum. Jeg hefi í rauninni ekki meira að segja um þessa brtt., en skal samt benda á, að alment er það álitið rjettast, að allar slíkar tollhækkanir eigi að koma með sem minstum fyrirvara.