26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3653 í B-deild Alþingistíðinda. (3367)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. ráðh. vildi engu svara hinum almennu athugasemdum, er jeg bar fram í þessu máli. Aftur á móti fór hann að rifja upp fyrir mjer forsögu þessa máls, en það var óþarfi, því að hana þekti jeg vel. Annars sje jeg ekki, að hún komi honum að neinu haldi; hv. 3. landsk. var aðeins falið að rannsaka kostnaðarhliðina á þessu máli, og það hefir hann gert. Svar hæstv. atvmrh. var það sama og vant er, þegar lagðar eru spurningar fyrir stjórnina: hún hefir engar ákvarðanir tekið og enginn tími hefir verið til þess að ákveða neitt. Jeg fæ ekki skilið, hvernig á því getur staðið, að stjórnin hugsar um að fá leigða verksmiðju. Jeg veit ekki annað en að allar verksmiðjurnar hafi verið reknar undanfarið, og jeg sje ekki, að það hafi mikla þýðingu, hvort ríkið rekur eina þeirra eða einhver annar. — Ef það er ætlunin, að ríkið hlaupi í kapp við aðra og fari að „spekulera“ í síld, þá fæ jeg skilið það, en að öðrum kosti er mjer það alveg óskiljanlegt. Jeg áleit, að frv. væri borið fram vegna þess, að þörf væri á einni bræðslustöð í viðbót, og jeg er því mjög meðmæltur, að fjelagi útgerðarmanna væri veittur nokkur styrkur, t. d. með ábyrgð, til þess að koma sjer upp verksmiðju, ef það má verða án þess að ríkissjóður taki á sig fjáráhættu. Jeg sje ekki, hvers vegna ríkissjóður þarf að taka lán til þess að koma þeirri stöð á fót, þar sem það er miklu ljettara að greiða fyrir útgerðarmönnum á annan hátt.

Þegar verksmiðjan er komin upp, dettur útgerðarmönnum ekki í hug að fara að reka hana; þeir vilja heldur láta ríkissjóð reka bræðslustöðina og láta hann halda uppi verði á síld. í bræðslu. En nú finst mjer til nokkuð mikils mælst, að þm. eigi að greiða atkv. með því, að stjórnin fái ótakmarkaða heimild til þess að stofna og starfrækja síldarbræðslustöðvar, án þess að stjórnin geti nokkurn hlut um það sagt, hve margar stöðvarnar muni verða.

En það er ekki hægt að toga út úr stjórninni neinar upplýsingar um þetta mál, og eftir svari hæstv. ráðh. að dæma, má alveg eins gera ráð fyrir því, að stöðvarnar verði 20 og að aðeins verði um eina að ræða.

Hæstv. forsrh. heldur víst, að allir beri óbilandi traust til stjórnarinnar, úr því að hann vill engu svara því, sem hann er spurður, en þó fá frv. samþykt.