12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3783 í B-deild Alþingistíðinda. (3473)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Magnús Jónsson:

Jeg vil taka það fram út af ræðu hv. frsm., að það er ekki rjett, að jeg hafi sagt við 2. umr., að jeg hefði enga trú á, að takast mætti að græða upp landið. Jeg sagði, að það væri óvíst, en skal ganga inn á, að sennilegt sje, að það muni takast.

En það hefir verið regla — og það er heilbrigð regla — að ávaxta ekki fje opinberra sjóða í þeim fyrirtækjum, sem nokkur áhætta fylgir, og um það atriði eru settar strangar reglur. Það má í öllu falli telja óvíst, hvort þessir peningar skila sjer aftur. Hitt er annað mál, hvort landeigandi vill gera tilraun um, hvort fyrirtækið hepnast.

Misskilningur er það hjá hv. frsm., að jeg sje eindregið á móti því, að kirkjan eignist landið. Hitt hefi jeg sagt, að mjer finst það skrítin gjöf, að gefa henni landið eingöngu í þeim tilgangi, að hún leggi fje í það. Jeg sagði, að það væri gjöf, sem minti nokkuð mikið á Styr og berserkina.

Hv. frsm. taldi, að verulegur gróði myndi verða að því að græða landið upp. Ef svo er, þá sje jeg ekki, hvaða ástæða er fyrir landið að afsala sjer þessum gróða, jafnvel þótt til kirkju sje, og það jafnágætrar kirkju og Strandarkirkju. En jeg er nú fyrir mitt leyti viss um, að þessi gróði verður a. m. k. ákaflega seintekinn. Og satt að segja held jeg, að fjarstæða sje, að hjer sje um gróðafyrirtæki að ræða. Mjer hefir heyrst á mönnum, að erfitt sje að fá jarðabætur þær, sem þó bera fyrst ávöxt, svo sem plæging moldarmóa og túnasljettur, til að borga sig, hafi þurft að taka lán til þeirra. Það getur verið, að fyrirtæki þetta borgi sig óbeinlínis á afarlöngum tíma. En hví vill ríkið ekki leggja fje í þetta, ef það er svo mikið gróðafyrirtæki sem hv. frsm. lætur?

Jeg er ekki svo kunnugur í Selvogi, að jeg geti sagt um, hvort kirkjunni er hætta búin eða ekki. En ef svo er, ber ríkinu að koma hjer til hjálpar, eins og það hefir hjálpað þorpum og kauptúnum til að byggja sjávargarða, þar sem hætta hefir verið á ferðum af völdum sjávargangs. Með því að lána nokkuð af fje kirkjunnar finst mjer, að drengilega sje hlaupið undir bagga með ríkinu og að meira sje ekki hægt að krefjast af Strandarkirkju.

Jeg er hissa á því, að nefndin skuli ekki geta fallist á að fella 4. gr. niður, úr því að hún er á þeirri skoðun, að þennan sjóð eigi að ávaxta eins og aðra kirkjusjóði. Ef svo á að vera, hví á þá dóms- og kirkjumálaráðuneytið að hafa umráð yfir honum? Brtt. mín við 4. gr. og greinin sjálf koma í rauninni ekki sjálfu málinu við. En jeg hefi hjer aðeins viljað leiðrjetta ósamræmi.

Hv flm. ætlaðist upphaflega ekki til, að sjóðurinn yrði ávaxtaður í kirknasjóði, því að hann taldi; að hjer væri um svo stóran sjóð að ræða, að gera þyrfti sjerstakar ráðstafanir um umsjón með honum. En úr því að hv. nefnd hefir ekki litið svo á, get jeg ekki sjeð annað en að 4. gr. sje með öllu óþörf og eigi að falla niður.