28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3804 í B-deild Alþingistíðinda. (3494)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það er ekki svo einfalt mál að bera saman skattþunga í ýmsum löndum sem hv. 2. þm. G.-K. vill vera láta. Meðal ótal margs annars kemur við þann samanburð til greina, hvernig sveitarsköttum er háttað. Það er vitanlegt, að þeir eru meiri í Kaupmannahöfn heldur en t. d. hjer í Reykjavík. En jeg fullyrði, að einnig þegar tekjuskattur Dana og Íslendinga er saman borinn, muni fást alt önnur niðurstaða en hv. þm. heldur fram, og mun jeg sýna það við 2. umr.

Með skattprósentunni er heldur ekki sagt, hvort skattabyrðin sje of mikil. Þar koma önnur atriði til greina, hvað almenningur fær í aðra hönd fyrir skattana og að hvaða marki er hagkvæmt að safna þessu fje skattþegnanna í sameiginlegan sjóð þeirra, ríkissjóðinn, fremur en að láta þá sjálfa einráða um, hvernig því verður varið. Jeg er þeirrar skoðunar, að hagkvæmt geti verið að ganga lengra en gert hefir verið um það að safna þeim hluta af tekjum manna, sem ekki ganga til nauðsynlegrar framfærslu manna, í ríkissjóð, því að honum yrði meira úr fjenu en einstaklingnum. Alþýðan fengi meira í aðra hönd.

Það, sem vakað hefir fyrir þeim hv. þm., sem flutt hafa fjáraukafrumvörp á þessu þingi, er, að fjárlögin yrðu ekki viðunandi eins og þau eru afgreidd frá hv. fjvn. Bæði væri æskilegt að ráðast í margvíslegar frekari framkvæmdir, svo sem vegagerðir og brúa og símalagningar, og eins mundu önnur lög frá þinginu hafa í för með sjer allmikil útgjöld til ýmissa umbóta, svo sem sundhöll og landnámssjóður. Til þess að standast slík aukin gjöld þarf auknar tekjur, — og þá er spurningin: hvar á að taka þær tekjur? Jeg skal játa, að tekjuskatturinn er nokkuð þungur, svo að mörgum mun veitast örðugt að greiða hann. En þegar til álita kemur, hvort menn vilji heldur meiri tolla eða aukna skatta, þá er tvímælalaust, að öllum fjölda manna er hagkvæmara, að aukið sje á beinu skattana, því að þeir eru lagðir á menn eftir efnum, en það, sem lagt er á í óbeinum sköttum eða tollum, er lagt á menn eftir ómegð þeirra, á brauðið handa börnunum og fötin handa heimilisfólkinu.

Hv. 2. þm. G.-K. virðist ætíð hugsa í hlutafjelögum. Öll ræða hans gekk út á að sýna fram á, hvernig færi fyrir hlutafjelögum, og þá aðallega togarafjelögum, ef frv. mitt yrði samþykt. Jeg hefi viðurkent, að tekjuskattslögunum sje í ýmsu áfátt og þurfi nauðsynlega lagfæringar við, en jeg held því fram, að hlutafjelögin, og sjerstaklega togarafjelögin, hafi síst allra ástæðu til að bera sig upp undan of þungum sköttum í ríkissjóð eða bæjarsjóð, með öllum þeim skattafrádrætti, sem þeim er heimilaður. Stærsta togarafjelagið, sem hefir mikla fisksölu, hefir undanfarin ár ekki borgað einn einasta eyri í tekju- og eignarskatt. Virðast mjer því kveinstafir yfir skattabyrðinni úr þeirri átt fáránlegir. Kæmi nú loks það gróðaár, að fjelagið yrði skattskylt þrátt fyrir alla frádrætti, er ekki nema rjettmætt, að ríkissjóður fengi loksins hlutdeild í hagnaði þess. En hv. 2. þm. G.-K. vill ekki aðeins láta hlífa þeim í meðalárunum, heldur líka í góðærinu.