27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3853 í B-deild Alþingistíðinda. (3515)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Sigurður Eggerz:

Mig langar til að byrja með því, sem hv. 2. þm. Reykv. endaði á: „Þá var öllu stolið frá þeim, sem ekkert áttu“. eins og Gröndal sagði forðum. Mjer finst einmitt, þegar jeg lít á þessi tekjuskattslög, sem hjer liggja fyrir, að ,,principið“ í þeim sje það, að stela frá þeim, sem ekkert eiga. Þessi tekjuskattshækkun kemur langharðast niður á embættismönnum landsins og launamönnum yfirleitt, og þetta brjef, sem jeg held á hjer í hendinni, sýnir best, hve hart embættismenn þykjast leiknir. Jeg held, að Alþingi ætti að setja sjer það að sýna sanngirni á allar hliðar og athuga það, að þótt einhver stjett sje fámenn, má ekki troða á henni. Það er viðurkent af öllum, að embættismenn vorir sjeu illa launaðir og að í dýrtíðaruppbót þeirri, er þeir fá, sje ekki gætt þeirrar sanngirni sem skyldi, enda þótt kröfur um bætt kjör sjeu ekki teknar til greina, vegna örðugs fjárhags ríkissjóðs, og það er af þeirri ástæðu, að jeg hefi haft sömu aðstöðu og aðrir um að gera ekkert nú í málinu. En við verðum að viðurkenna, að verður er verkamaðurinn launanna, og að þessum mönnum beri að sýna þá hjálp og þann skilning, sem hægt er, í stað þess að svara rjettlætiskröfum þeirra með því að bæta nú á þá þungbærum sköttum. Jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur orð úr brjefi því frá starfsmannasambandi ríkisins, sem jeg gat um áðan. Þar segir svo, eftir að að því hefir verið vikið, að dýrtíðaruppbótin ætti að vera 542/3% í stað 40% :

„Nú virðist svo, sem hið háa Alþingi ætli ekki að sinna rjettmætum kröfum vorum í þessu efni, en að það á hinn bóginn ætli að auka dýrtíðina í landinu með auknum tollum og sköttum, tollum á matvöru, kolum og salti og 25% hækkun á tekjuskatti.

Sjerstaklega mun hið síðastnefnda koma hart niður á starfsmönnum ríkisins, því að nokkuð mun það vera alment, að þeir greiði 300–400 kr. og þaðan af meira í tekjuskatt. Er því hjer um talsverða íþyngingu að ræða“.

Nú hefi jeg ekki reiknað út þessa upphæð í brjefi embættismannanna, og veit því ekki, hvort hún er rjett.

Samkv. greinargerð frá hagstofunni nemur skatturinn 1927 í Reykjavík, sem kemur niður á embættismönnum og starfsmönnum, um 185 þús. króna. Það virðist vera hin mesta harka að svara bænum hinna opinberu starfsmanna um betri kjör, sem skatturinn kemur svo mjög við, með því að hækka skattinn svo mjög, en það er sama og launalækkun.

Jeg skal hjer ekki ræða um sjálft ,,principið“, tekjuskatt eða tekjuskatt ekki. Jeg hefi ávalt álitið, að beinn skattur af tekjum manna væri rjettlátur skattagrundvöllur, þótt auðvitað sjeu takmörk fyrir því, hve langt megi ganga í þeirri álagningu.

Jeg vil að lokum biðja hv. sessunaut minn (HjV) að minnast orða skáldsins: „Þá var öllu stolið frá þeim, sem ekkert áttu“. Jeg vil biðja hann að lesa skáldið með athygli og leggja sjer þessi orð á hjarta. (ÓTh: Tilvitnunin er vitlaus hjá báðum).