03.04.1928
Efri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3903 í B-deild Alþingistíðinda. (3535)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Fram. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

* Eins og sjá má á nál. á þskj. 652 og 664, hefir fjhn. ekki getað orðið sammála um þetta frv.

Ástæðan til þess, að þetta frv. er fram komið, er eins og öllum háttv. deildarmönnum er kunnugt sú, að þegar á öndverðu þingi kom það í ljós, að ef ekki ætti að draga stórlega úr verklegum framkvæmdum af hendi ríkissjóðs, yrði að leita frekari tekjuauka en heimild er fyrir í gildandi lögum. Jeg þarf ekki að lýsa, hvað ofan á hefir orðið í þessu efni. Það hefir sem sje orðið ofan á að leita ríkissjóði nýrra tekna, en stöðva ekki verklegar framkvæmdir. Ein af þeim leiðum, sem fært þykir að fara til öflunar tekna, er sú, er frv. bendir á. Jeg ætla ekki að fara út í mótbárur háttv. minni hl. fjhn. gegn frv. Þær munu að sjálfsögðu koma fram frá rjettum aðiljum í umræðunum, og gefst tækifæri til andsvara síðar, ef þurfa þykir. En þar sem nú með lögum, sem þegar eru afgreidd frá þinginu, hafa verið hækkaðir að nokkru ýmsir tollar og skattar, sem á öllum almenningi hvíla hlutfallslega eftir höfðatölu, eða því sem næst, hefir þótt tiltækilegt að hækka einnig skatta, sem lagðir eru á tekjur manna og eigur, með öðrum orðum þá skatta, sem taldir eru beinir skattar.

Það hafa sem kunnugt er verið uppi tvær ólíkar stefnur um það, á hvern veg beri að afla ríkissjóði tekna. Önnur er sú, að það beri að taka tekjur ríkissjóðs að töluvert miklu leyti með beinum sköttum, en hin vill halda sem mest við tollana, eða óbeinu skattana. Þessar tvær stefnur hljóta altaf að vera meira og minna andstæðar, og um slíkt frv. sem þetta hljóta þær að rekast á. Jeg ætla ekki að þessu sinni að rökræða um þessar stefnur og það, sem þeim ber á milli. En á hitt vildi jeg benda, að ekki er óeðlilegt, þótt leitað sje fyrir sjer einnig á þessu sviði, þegar búið er að þyngja alla skatta og tolla aðra, er á almenningi hvíla.

Sú mun hafa verið tilætlunin í fyrstu, að ákvæði þessa frv. næði til allra, er greiða tekju- og eignarskatt. En á því var gerð breyting í háttv. Nd., svo að nú er ekki ætlast til, að 25% viðauki á tekjuskatti taki til nema þeirra, er hafa tekjur yfir 4000 kr. á ári. Að sjálfsögðu virðist það hafa við gild rök að styðjast, að ekki sje vert að hækka skatta af þurftarlaunum eða þaðan af minni. Hinsvegar er vert að taka það til athugunar, hvort ekki sje rjett að breyta skattstiganum einnig. Jeg er ekki frá því, að þess væri full þörf. En til þess þarf meiri tíma en komið yrði við á þessu þingi. Og á það ber að líta, að verði þessi leið ekki farin, er ekki hægt að afgreiða fjárlögin tekjuhallalaust. En þó virðist mjer af brtt. þeim, sem liggja fyrir frá háttv. deild til 3. umr., sem fer fram á morgun, að enn hafi háttv. deildarmönnum ekki fundist svo hlaðið á fjárlögin, að ekki mætti þar nokkru við bæta. Mjer virðist það hljóti að vera gert með það fyrir augum, að tekjuaukafrv. verði samþykt. Annars hlýtur það að vera gert í því trausti, að ekki saki, að fjárlögin sjeu afgreidd með tekjuhalla. Að óreyndu vil jeg ekki trúa því um neinn háttv. þingmann, að hann líti svo á. Jeg vil því mega vænta þess, að þótt menn sjeu kannske ekki ánægðir með stefnu þá, er lýsir sjer í frv., þá viðurkenni þeir þó að minsta kosti nauðsynina á því að afla ríkissjóði tekna, og þótt þeir telji þessa ráðstöfun ekki allskostar rjettmæta, þá samþykki þeir frv. að þessu sinni, með því að líkur eru til, að skipuð verði milliþinganefnd til þess að taka til alvarlegrar yfirvegunar skatta- og tollalöggjöf landsins. Skattamál landsins eru komin það á ringulreið, að jeg tel sjálfsagt að vinna að því ósleitilega að komast sem fyrst á fastan grundvöll. Jeg held það verði tæplega sagt, að þessi breyting á tekju- og eignar skatti geri það mikinn glundroða, að ekki sje fyrir þær sakir forsvaranlegt að gera þessa ráðstöfun til bráðabirgða. Jeg sje ekki, að hjá því verði komist; úr því sem komið er.

Jeg ætla ekki, eins og jeg tók fram áðan, að andmæla þeim skoðunum, er jeg býst við, að komi fram hjá háttv. minni hl. Geymi jeg mjer það þangað til síðar, ef tilefni gefst. Þeir, sem leggjast á móti frv., hljóta að viðurkenna, að afleiðingin verður óhjákvæmilega sú, að fjárlögin verða ekki afgreidd án tekjuhalla að þessu sinni, ef það verður felt. En jeg geri þá kröfu til þeirra, að þótt eitthvað beri á milli um skoðanir, viðurkenni þeir samt og sýni í verki, að það verði þó að ganga fyrir öllu að sjá fjárhag ríkisins sæmilega borgið.

(*Ræðuhandr. óyfirlesið.)