23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3931 í B-deild Alþingistíðinda. (3563)

77. mál, einkasala á síld

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Það mun víst engum koma á óvart, þótt togni úr umræðum um slíkt mál sem þetta. Smærri mál hafa orðið tímafrek og tafsöm hjer í hv. deild. Með þessu vil jeg samt ekki segja að jeg ætli að leggja stund á að teygja umræðurnar; jeg tel þess ekki þörf. En svo mikið hefir verið rætt um þetta mál utan þings og innan, að viðbúið er, að það verði ekki útkljáð á fáum mínútum.

Nú munu vera 60 ár síðan síldarútvegur byrjaði hjer við land, þ. e. a. s. söltun síldar til útflutnings. Jeg hygg, það hafi verið árið 1868, er fyrst var veidd síld með kastnótum á Seyðisfirði, en þar byrjuðu veiðarnar. Framan af voru það eingöngu útlendingar, Norðmenn, sem veiðina stunduðu, og það var ekki fyr en eftir 1880, að innlendir menn fóru að taka þátt í henni. Á þeim tíma var litið svo á hina fornu fiskiveiðalöggjöf, að hver, sem ætti hjer rjúkandi reykháf og dúk og disk í landi, mætti stunda veiðar í landhelgi. Samkvæmt því var auðvelt fyrir Norðmenn að stunda hjer veiðina. En eftir 1880 tók síldveiðin að gerast almennari og innlendir menn að taka þátt í henni. Þessu fór fram fram undir aldamót, að útlendingar áttu meiri hlutann, en Íslendingar þó nokkurn þátt í síldveiðinni. Um aldamótin hófust hvalveiðar á Austfjörðum, og hurfu þá síldveiðarnar þaðan. En samkvæmt gamalli hjátrú veiðimanna gat þessi tvennskonar veiði ekki lánast á sömu slóðum. Var því talið ómögulegt að stunda síldveiðamar lengur. Frá þeim tíma hefir svo síldveiðin aukist margfaldlega fyrir Norðurlandi, en síðustu ár hefir hún þó verið stunduð bæði norðan, austan og vestan. Sem stendur er hún talin mest fyrir Norðurlandi. Jeg hygg þó, að ekkert sje um það sannað, að síldargengd sje meiri norðanlands en annarsstaðar, og býst jeg við, að ganga síldar að hinum tveim landshlutunum reynist álíka viss. Má ætla, að framvegis, eins og hingað til, verði mikil stund lögð á þessa veiði.

Eitt er sjerstaklega athugavert um þessa grein veiðiskapar, bæði hjer við land og í nágrannalöndunum; það er sú staðreynd, að hún virðist hafa gert marga menn öreiga fyrir hvern einn, er auðgast hefir. Hún sýnist hafa verið stopulli en flestar aðrar eða jafnvel allar aðrar atvinnugreinar. Svo hefir það jafnan verið, síðan jeg hafði fyrst kynni af þessum veiðum, en þau hefi jeg haft í 60 ár. Því er það ekki undarlegt, þótt leitað hafi verið ýmissa ráða til þess að gera þennan atvinnurekstur tryggari. En torvelt hefir reynst að finna ráðin. Á stríðstímanum var leitað til ríkisstjórnarinnar, og hún átti stundum þátt í að reyna að gera síldina útgengilega og selja hana. Hrakfarir síldarsölunnar skipulagslausu 1919 eru öllum í minni.

Auk þessa annmarka, hve áhættusöm síldarútgerð hefir reynst, hefir líka ýmislegt annað óhagræði fylgt þessum veiðiskap, svo sem það, að aðrir atvinnuvegir, sem stundaðir eru um sama leyti árs, hafa oft farið á mis við nauðsynlegan vinnukraft. En margvíslegt sukk og svall hefir átt sjer stað á veiðistöðvunum, þar sem fjöldi útlendra og innlendra manna hefir verið saman kominn. Hafa gengið af þessu ófrægilegar og misjafnar sögur. Nú á síðustu tímum hefir og verið mjög undan því kvartað, að þótt þessi atvinnuvegur sje að nafni til mest á höndum innlendra manna, hafi útlendingar þó náð þar tökunum gegnum leppmensku. Má með sanni segja, að engir atvinnuhættir hjer á landi sjeu eins skipulagslausir, áhættusamir og óábyggilegir sem síldarútgerð.

Langt er síðan byrjað var að leita fyrir sjer um möguleika til að skipulagsbinda síldarverslunina. Jeg hygg, að 20 ár sjeu síðan fyrst var um það ritað og byrjað að ræða það alvarlega í blöðum landsins. En það hefir aldrei komist lengra en í ráðagerðir, fyr en samþykt voru á Alþingi 1926 lög um síldarsölu o. fl. (stofnun síldarsamlagsins margumtalaða). Þótt þau lög hafi síðan verið í gildi, hafa þau ekki komist til framkvæmda enn. Og líkurnar eru ekki sem bestar fyrir því, að þau komist í framkvæmd. Liggur það sumpart í því, að þau eru ekki nema að nokkru leyti bygð á hreinni einkasölu, og sumpart í því, að þau hafa ekki orðið vinsæl. Hjer liggur því enn fyrir önnur tilraun í þá átt að skipulagsbinda þetta betur en þá var hægt. En eins og ástatt var 1926, var ekki um annað fyrirkomulag að ræða en þá var lögfest.

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er þá að því leyti frábrugðið þessu eldra skipulagi, að hjer er gert ráð fyrir, þó ekki beinni ríkiseinkasölu, þá einkasölu, sem er að meira leyti undir stjórn þess opinbera og því svo háð, að ekki ætti að þurfa að óttast, að einstakir menn verði svo ráðríkir, að þeir geti haft áhrif á söluna. (ÓTh: Jeg vil leyfa mjer að vekja athygli hæstv. forseta á því, að nú erum við aðeins tveir í deildinni auk ræðumanns, en jeg álít, að framsöguræða hins gáfaða frsm. verðskuldi meiri athygli en það, að aðeins tveir þingmenn hlýði á hana). — Jeg held, að þetta sje óþarfa umhyggjusemi hjá hv. 2. þm. G.-K. Við erum báðir svo vanir að tala fyrir tómum stólum, að við ættum að geta sætt okkur við það svona um miðnættið. (ÓTh: Jeg hefi aldrei átt slíku að venjast, og tel ólíklegt, að það sje oft hlutskifti hv. 1. þm. S.-M.). En af því svona er ástatt, að fáir eru við, sem fylgja umræðum, mun jeg stytta mál mitt, eftir því sem föng eru til.

Það er þá skjótast af frv. þessu að segja, sem gengið hefir gegnum hv. Ed., að sjútvn. þessarar deildar hefir klofnað um málið, og er að nokkru leyti áður sagt, hvað leiðum skifti. Minni hl. vill halda sjer við það skipulag, sem vjer meirihlutamenn teljum lakara, skipulagið frá 1926, það skipulag, sem meira nálgast einræði einstaklinganna, og hefi jeg áður bent á, hvað jeg sjerstaklega hefi við það að athuga.

Hv. minni hl. viðurkennir það hreinskilnislega í áliti sínu, að verslun með síld sje ein af þeim greinum verslunarinnar, sem nauðsyn beri til, að sje undir opinberu eftirliti. Með öðrum orðum, að þar komi best í ljós þeir gallar, sem sjeu á skipulagi frjálsrar verslunar. Hinsvegar er trú minni hl. á frjálsri verslun svo mikil, að hann vill samt halda versluninni á þessari vörutegund nær því fyrirkomulagi, sem gefur lausari tauminn fyrir fjáraflavonir stórútgerðarmanna.

Skal jeg svo ekki gagnrýna nál. hv. minni hl. frekar, en snúa mjer að þeim brtt., sem meiri hl. vill gera á frv. — Fyrsta brtt. hans er við 3. gr. frv. Þar leggjum vjer til, að í staðinn fyrir tvo framkvæmdarstjóra, sem einkasalan skipar, komi þrír. Þetta er bygt á því, að verkun og útskipun síldarinnar sje undir eftirliti þessara manna. Verður starf þeirra að þessu leyti því svipað og störf yfirsíldarmatsmannanna eru nú. Þeir þurfa að ferðast um til eftirlits. Í sambandi við þetta leggur því meiri hl. til, að bætt sje inn í greinina, þar sem talað er um skyldustörf þessara manna, ákvæði um ferðalög þeirra. — Þá hugsar meiri hl. sjer, að bætt sje við þessa grein stuttri setningu um það, hvernig haga skuli vali þessara manna, ef þeir fá ekki þann atkvæðafjölda, sem ákveðinn er í frv.

Þá flytur meiri hl. brtt. við 2. tölul. 4. gr., að kostnaður af starfi undirmatsmanna verði lagður á síldarútflytjendur. í frv. er ekkert um þetta talað, og þess vegna þótti meiri hl. sjálfsagt að taka ákvæði um þetta upp í sambandi við 4. gr. frv. Ennfremur hefir meiri hl. lagt til lítilfjörlega orðabreytingu við 3. lið 4. gr. til skýringar, þar sem oss þótti ekki nægilega ljóst til orða tekið um úthlutun andvirðis síldar. — Þá leggur meiri hl. til, að gerð verði breyting á 5. gr., og fer breyting sú í þá átt að heimila framkvæmdarstjórum einkasölunnar að styðja að því, að þeir, sem við hana skifta, geti með hægara móti eignast tunnur og salt, en án þess þó, að fjárhætta geti stafað af því fyrir einkasöluna sjálfa. Þetta getur gefið viðskiftamönnum færi á að fá þessar vörur með aðgengilegri kjörum en ella, án þess það kosti einkasöluna nokkuð.

Jeg hefi þá talið helstu brtt. meiri hl. En auk þeirra hefir hann gert lítilsháttar orðabreyting við 11. gr., til þess að skýra nánar efni hennar. Að öðru leyti skiftir brtt. þessi ekki máli. Hún lýtur að því að undanþiggja einkasöluna tekjuskatti og aukaútsvari, að því tilskildu, að viðskiftamennirnir fái óskertan ágóðann af sölunni.

Þá leggjum vjer til, að sektarákvæðin fyrir brot á lögunum verði færð úr 100 þús. kr. niður í 50 þús. Meiri hl. lítur nefnilega svo á, að þessi sektarákvæði, eins og þau eru í frv., sjeu ekki í samræmi við önnur sektarákvæði skyldra laga og of há.

Þessar brtt. meiri hl. hygg jeg, að geti ekki valdið ágreiningi; hitt mun nær liggja, að stefnumunurinn — einkasala eða einstaklingssala — sje það, sem um verður deilt, og mun það koma skýrara í ljós, þegar hv. minni hl. hefir talað fyrir till. sínum.

Þá vil jeg að lokum minnast á brtt. á þskj. 474. Meiri hl. hefir að vísu ekki tekið þær sjerstaklega fyrir, aðeins litið á þær í svip og telur þær ekki óaðgengilegar. En um þær hefir meiri hl. óbundin atkvæði. Að svo mæltu mun jeg bíða átekta og hlusta á minn ágæta samverkamann, hv. 2. þm. G.-K., ef það þá dregst ekki alveg fram undir morgun.