02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4030 í B-deild Alþingistíðinda. (3588)

77. mál, einkasala á síld

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg mun nú gera grein fyrir afstöðu minni hl. sjútvn., en þó ekki nema að nokkru leyti, því að hv. þm. Vestm. tekur væntanlega einnig til máls af okkar hálfu, minnihlutamanna. Við höfum nú borið fram allverulegar brtt. á þskj. 654, og beinast þær aðallega að tvennu: Stjórnarfyrirkomulagi einkasölunnar og takmörkun á valdi framkvæmdarstjóranna.

Samkv. frv. eins og það er nú, skipa 5 menn framkvæmdanefnd einkasölunnar. Kýs Alþingi 3, útgerðarmenn 1 og verkalýðssamband Norðurlands 1. Við viljum breyta þessu svo, að atvinnumálaráðherra útnefni 3 nefndarmennina, en 2 sjeu kosnir af þeim, sem gera út skip til síldveiða. Jeg skal ekki þreyta hv. þdm. á því að gera nákvæma grein fyrir, hvers vegna við teljum þetta fyrirkomulag betra en hitt. Hefi jeg áður gert það. En í sem fæstum orðum skal jeg geta þess, að vegna ábyrgðarinnar viljum við láta ráðherra útnefna mennina. Hyggjum við, að ábyrgðartilfinningin verði besta tryggingin fyrir því, að hæfileikar ráði um val þessara manna meir en þótt hefir vera, þegar Alþingi hefir átt að skipa í ábyrgðarstöður. Þá ætlum við útgerðarmönnum að velja hina 2. Þykir okkur fyrst og fremst kenna allmikillar hlutdrægni í frv., þar sem meginhluti útgerðarmanna er sviftur íhlutunarrjetti um kosninguna, en hann fenginn í hendur einstöku fjelagi. — Þá þykir okkur mjög illa viðeigandi að fela verkamönnum stjórn fyrirtækisins til jafns við eigendur útgerðarinnar. Jeg vil leyfa mjer að benda á það, að eftir till. okkar hefir ráðherra mjög á sínu valdi, hversu nefndin verður skipuð.

A. m. k. getur hann sjeð svo um, að þar sje gætt rjettar allra stjórnmálaflokka, ef hann bíður aðeins eftir því, að útgerðarmenn útnefni sína fulltrúa. Getur hann þá hagað vali sínu eftir útnefningu þeirra.

Samkv. frv. er ætlast til, að meiri hluti útflutningsnefndar útnefni framkvæmdarstjórana, en við leggjum til, að hún velji þá með hlutfallskosningu. Þetta skipulag á að tryggja það, að þeir aðiljar, sem hlut eiga að máli, geti allir haft nokkurn ráðarjett. Jeg vil benda hv. þdm. á það, að verði svo til stofnað í fyrstu, að einn eða fleiri stjórnmálaflokkar sjeu sviftir valdi og ábyrgð, þá er sá ljóður á því ráði, sem verstur getur orðið. Er þá freisting fyrir þann eða þá flokka, sem útundan verða, til þess að hirða lítt um hag fyrirtækisins. Viturlegra er hitt, að tryggja það, að allir megi á eina sveif leggjast. Enginn skilji svo orð mín, að jeg vilji drótta því að neinum pólitískum flokki, að hann muni reyna að spilla hag fyrirtækisins, verði hann sjálfur valdi sneyddur. En vel fer á því að gera það, sem hægt er, til að tryggja samstarf allra. Og þó að svo mætti fara, að hinir ráðandi flokkar í þinginu gætu nú einir öllu ráðið um skipun framkvæmdarstjórnarinnar, þá ættu þeir ekki að nota sjer það. Það væri óviturlegt og öllum til tjóns. Hitt mun þeim hollara, að gæta hófs um notkun valdsins í þessu efni. Því berum við fram þessa brtt.

Í frv. er framkvæmdarstjórunum gefið vald til að ákveða, hvenær skuli hætt að salta síld og krydda sumar hvert. Þetta vald viljum við taka af þeim. Í frv. eru, þrátt fyrir brottfall þessa ákvæðis, gerðar mjög ítarlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að söltun síldar geti keyrt úr hófi. Skulu útgerðarmenn, hæfilega löngum tíma áður en veiði byrjar, tilkynna framkvæmdarstjórninni, hve mikið þeir ætli að salta og leiða rök að því, að sennilegt sje, að þeir geti það. Með þessu er komið í veg fyrir, að brögð sjeu í tafli um það síldarmagn, sem tiltekið er í umsókninni. Eftir að framkvæmdarstjórarnir hafa fengið þessi skilríki í hendur, er á þeirra valdi að skamta mönnum úr hnefa, hve mikið þeir megi salta, og jafna því niður í rjettu hlutfalli við það, sem beðið var um og sýnt fram á, að hægt væri að salta. Þessi hemill á söltuninni ætti að nægja.

Hjer er fyrirfram sett trygging fyrir því, að söltunin keyri ekki úr hófi. Hinsvegar vil jeg benda á það, að ef söltunin fer fram úr því magni, sem á hverjum tíma er óhætt og eðlilegt að salta, eru samkvæmt 3. lið 4, gr. settar reglur um það, að framkvæmdarstjórnin megi selja innanlands þá síld, sem óheppilegt er að senda út, og getur hún þannig haft tök á erlenda markaðinum, með því að beina því frá, sem umfram er neysluþörfina. Og jeg vil ennfremur benda á það, að ef það kemur í ljós, að saltsíldarmagnið á markaðinum er meira en við notum, er framkvæmdarstjórninni lögð í hendur æskileg aðstaða til að leita nýrra markaða. Ef það kemur fram, að síldarmagnið er meira en Svíþjóð getur tekið á móti, þætti öllum vel ráðið, að síldinni yrði beint á aðra staði, þótt verðið væri lægra en í Svíþjóð. Það er heppilegt, að þetta sje svona, því að með þessu er sköpuð hvatning til þess að leita nýrra markaða. Jeg verð að álíta, að það sje ekki nauðsynlegt að valdbjóða með lögum, hvenær eigi að hætta að salta. Og jeg vil benda á, að af þessu ákvæði getur stafað veruleg hætta fyrir einkasöluna. Eins og frv. er úr garði gert, eru ekki reistar neinar skorður við því, að framkvæmdarstjórarnir megi sjálfir salta síld. Og jafnvel þótt svo væri, er slíkt ekki trygt. Ef þeir hafa hagsmuna að gæta og hinsvegar hafa vald til að banna að salta, er þeim hin mesta freisting í hendur lögð í þessu efni, því að verð síldarinnar fer eftir því, hv e mikið er saltað. Og ef það er viðurkent, að við Íslendingar sjeum sjálfstæður aðili í þessu máli — jeg játa, að sú síld, sem veidd er utan landhelgi, hefir veruleg áhrif, en engu að síður erum við stór aðili —, verður að hafa það hugfast, að með því að heimila framkvæmdarstjórunum að stöðva söltunina, þegar þeir vilja, og þeir á hinn bóginn mega salta, er þeim hin mesta freisting ger, því að þeir geta auðgast um hundruð þúsunda króna með því að stöðva söltunina, þegar þeirra síldarmagn er mikið, en annara lítið. Og jafnvel þó gert sje ráð fyrir, að framkvæmdarstjórarnir láti sjer ekki detta slíkt í hug, er það víst, að sá grunur legst á, að þeir geri það, og slíkur grunur er mjög óheppilegur fyrir fyrirtækið. Og fyrst hægt er að færa sterk rök fyrir því, að þessi ráðstöfun sje ekki nauðsynleg, og sömuleiðis að sýna fram á, að með þessu sje sterk freisting lögð í götu framkvæmdarstjóranna, finst mjer rjett að freista hins, hvort ekki væri hægt að framkvæma einkasöluna án þess að lögfesta þetta ákvæði. Jeg vil ennfremur benda á það, að sje framkvæmdarstjórunum í sjálfsvald sett að stöðva söltunina, getur það lent misjafnt á hinum ýmsu framleiðendum. Aflabrögðin eru misjöfn; það skip, sem er óheppið fyrri hluta sumars, getur verið heppið síðari hlutann. Og verði söltunin stöðvuð á vissum degi, hafa sum skipin engan afla, en önnur mikinn. Jeg skal játa, að þótt jeg sje þessu mjög mótfallinn, ljet jeg tilleiðast að mæla ekki í gegn því 1926, að það yrði að lögum. En þar voru ekki þau ákvæði, sem hjer eru og setja þann hemil á söltunina, sem nægir. Ef mjer hefði hugkvæmst í fyrra að setja þessa heimild til þess að takmarka söltunina, hefði jeg hallast að því, en ekki að banna hana á ákveðnum degi.

Það voru ýms önnur atriði, sem við vildum, að breytt yrði, en samflm. minn, hv. þm. Vestm., gerir grein fyrir þeim. Þó vil jeg taka það fram, að í brtt. okkar við 7. gr., b-lið, hafa þrjú orð misritast og eiga að falla niður. Það eru orðin: miðað við stærð. Þau hafa slæðst inn af vangá, og jeg vildi helst skoða þau sem ritvillu.

Að lokum vil jeg segja það fyrir mína hönd, að jeg hefi yfirleitt lagst á móti þessu frv., af því að jeg vil láta fresta málinu til næsta árs. Og þótt jeg hafi nú við 3. umr. komið með nokkrar brtt. til bóta, er því fjarri, að jeg haldi, að ekki megi lappa enn meira upp á frv. Jeg vil svo lýsa yfir því, að jeg mun greiða atkv. á móti frv., jafnvel þótt allar breytingartillögur minni hl. verði samþyktar.