10.04.1928
Efri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4155 í B-deild Alþingistíðinda. (3629)

131. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta er komið frá Nd. og hefir sjútvn. þessarar deildar haft það til meðferðar. Eins og tekið er fram í nál. hennar, er nefndin að vísu ekki ánægð með frv., því hún lítur svo á, að rjettara hefði verið, að um þetta bann hefði gilt svipað og gildir um botnvörpuveiði, ef tiltækilegt hefði þótt að fara þá leið. Samkv. frv. er bannað að veiða í landhelgi með dragnótum 9 mánuði ársins, en hina 3 er landhelgisvæðið algerlega ófriðað fyrir þessum veiðum. Þó nefndin líti nú svo á, að þetta sje mikill galli á frv., leggur hún þó til, að það verði að lögum, því hún lítur svo á, að þó friðunin nái ekki lengra, þá sje þó nokkurt gagn að þessu eigi að síður. Ýmsa smáagnúa fann nefndin á frv., en henni þóttu þeir ekki svo mikils virði, að rjett væri að hrekja frv. milli deilda þeirra vegna, því þá gæti því verið hætta búin, en þá væri ver farið, ef það yrði felt.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, enda ekki ástæða til þess. Sjútvn. lítur svo á, að friðunarlög þessi sjeu nauðsynleg, og það, sem hún finnur aðallega að þessu frv., er það, að þar er ekki gert ráð fyrir algerri friðun. Nefndin mælir því með því, að frv. verði samþ. eins og það nú liggur fyrir.