16.02.1928
Neðri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4156 í B-deild Alþingistíðinda. (3634)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Með frv. þessu, ef það verður að lögum, er stigið fyrsta sporið til þess að vinna að bættu skipulagi um kjör verkalýðsins í landinu. Með aukningu sjávarútvegsins víðsvegar um land, og þá sjerataklega þar, sem hann er rekinn í stærri stíl, hefir fólkið flutst til kauptúna og sjávarplássa og búsett sig þar. Á þeim tíma ársins, sem aflabrögð standa hæst á hverjum tíma, virðist svo, sem nægilegt ætti að vera handa öllum að starfa. En því er miður, að það er ekki svo. Til þess liggja sumpart þær ástæður, að fólk úr sveitum og ýmsum fjarlægari sjávarplássum sækir þangað, sem mest er um að vera, og sætir þeirri vinnu, sem til fellur, til jafns við aðra menn.

Afleiðingin er sú, að ekki komast að vinnunni allir heimamenn, er hennar leita, og atvinnuleysi á sjer stað í allstórum stíl á þessum svo nefndu annatímum. Hvað mun þá vera á þeim tímum, þegar aflabrögð minka eða veiðiskap er hætt? Ástandið verður þannig, að á þeim löngu tímabilum, sem líða á milli vertíða — frá vetrar- og vorvertíðarlokum og þar til síldveiði byrjar, og að síldveiðum loknum þar til vetrarvertíð byrjar —, er svo gífurlegt atvinnuleysi, að mönnum mun fyrst blöskra, er þeir sjá, hversu hópurinn er stór.

Að ganga framhjá þessum staðreyndum og hafast ekkert að, er að svæfa sína eigin samvisku og loka augunum fyrir því, sem á sjer stað.

Ber nú þjóðfjelaginu nokkur skylda til að kynna sjer þetta ástand, og þá um leið að gera tilraunir til að ráða bót á því?

Frá sjónarmiði okkar jafnaðarmanna — og sennilega einhverra fleiri — er svarið hiklaust játandi, og undir það svar tekur allur verkalýður í landinu, og sjálfsagt margir aðrir; það er með öðrum orðum meiri hluti þjóðarinnar.

Vinnuafl hverrar þjóðar er það dýrmætasta, sem hún á, ef hún kann að nota það og vill nota það. „Vinnan skapar auðinn“ er staðreynd, sem fáum tekst með rökum að mæla á móti. Með vinnunni skapast verðmæti, sem gerir þjóðfjelagið ríkara. Um skiftingu þeirra verðmæta ætla jeg ekki að fara út í í þessu sambandi.

Við skyldum nú ætla, að menn væru farnir að skilja nauðsyn þessa, en því er nú ver, að svo er ekki, nema að litlu leyti. Reykjavíkurbær hefir þó látið fara fram skráningu á atvinnulausum mönnum, þegar allra mest hefir sorfið að um atvinnuleysi. Þó hefir það sannarlega ekki verið gert með ljúfu geði frá hálfu meiri hlutans í bæjarstjórninni.

Í flestum menningarlöndum er það talin sjálfsögð skylda að skrá atvinnulausa menn, og það miklu oftar en farið er fram á í þessu frv. Og tala atvinnulausra er birt sem hver önnur stórtíðindi landa á milli, ef hún er há. Eitt af stórviðfangsefnum löggjafarþinga þjóðanna er að reyna að ráða bót á því þjóðarböli, sem atvinnuleysið er. Fyrir þingum þessara þjóða liggur það skýrt og ákveðið, hvernig umhorfs er í þjóðfjelaginu á þessu sviði hjá hverri stjett verkalýðsins út af fyrir sig á hverjum tíma. Án skráningar myndi þeim verða á að álykta eins og svo mörgum hjer, að ekkert atvinnuleysi ætti sjer stað. Við getum tæplega lengur verið eftirbátar nágranna okkar í þessum efnum.

Jeg vil segja, að við höfum ekki efni á því að láta þetta ganga til eins og það hefir gengið.

Það er álitinn dálítill mælikvarði á getu hvers þjóðfjelags til þess að lifa heilbrigðu lífi, hvort það getur skapað öllum sínum þegnum starf. Og menningarþjóðirnar gera alt, sem þær geta, til þess að ráða bót á því böli, sem atvinnuleysið er. Jeg hefi að vísu ekki átt kost á að kynna mjer það nema að litlu leyti, en jeg veit það þó, að í löggjafarþingum hjer á Norðurlöndum er þetta eitt af stórmálunum, sem þingin fjalla um. En jeg minnist þess ekki, að það hafi verið tekið sem eitt af stórmálum þessarar þjóðar, jafnvel þó að svo sje ástatt, að reynslan mundi sennilega sýna tiltölulega hæsta tölu atvinnulausra af Norðurlöndunum öllum. Án skráningar mundi fara fyrir þeim líkt og okkur; þeir mundu sennilega lítinn gaum gefa þessu máli. Það er einmitt tala skráðra atvinnuleysingja, sem knýr menn til að brjóta heilann um, hvað eigi að gera og hvernig eigi úr að bæta. Mig væntir að ef slík skráning getur komist í kring hjer á landi í stærri kauptúnum og sjávarþorpum, þá verði þess ekki langt að bíða, að hjer á Alþingi verði það eitt af vandamálunum, hvernig eigi að ráða bót á atvinnuleysinu. Jeg staðhæfi það, að við höfum ekki ráð á að láta stóran hluta verkalýðsins ganga auðum höndum svo og svo langan tíma á ári. Jeg hefi þá trú, að skráning verði til þess að opna augu manna fljótlega fyrir því, hversu mikill voði er á ferð.

Jeg skal ekki fara inn á þá hlið málsins að þessu sinni, hversu mikið böl og vesaldómur stafar af atvinnuleysinu alment. Allir hv. þdm. skilja það, ef þeir fara að hugsa um þá hluti.

Þá munu menn ef til vill segja, að kostnaður við þetta muni verða svo mikill; jeg hygg það muni ekki verða, svo að það þurfi að verða frv. að fótakefli. Skráning mundi standa, eftir því sem frv. gerir ráð fyrir, 1–3 daga. Við þetta mundu vinna 1–2 menn hjer í Reykjavík, og kostnaður, sem af því hlytist, væri mjög hverfandi lítill.

Skráningu er ætlað samkv. frv. að ná til allra sjómanna, verkamanna, verkakvenna, iðnaðarmanna og kvenna, sem stunda iðnað hjer og í öðrum kauptúnum. Það er nú svo, að menn segja, að hjer á landi sje ekki stór iðnaður. En það er nógu margt fólk búið að binda sig þessum litla iðnaði til þess, að þegar er farið að bóla allverulega á atvinnuleysi í hinum ýmsu iðnaðargreinum í Reykjavík; er því fylsta ástæða til að taka slíka menn með. Og þess mun líka að vænta, að iðnaður geti aukist í landinu, bæði hjer og annarsstaðar, svo að þetta er sem hver önnur varnarráðstöfun, að hafa þessa menn með. Kjör allra þessara stjetta þarf að rannsaka, hvernig ásigkomulagið er hjá þeim, þegar atvinnuleysi herjar hjá þeim.

Jeg hefi ef til vill ekki gert næga grein fyrir þessu máli, en vera má, að sumum finnist nóg sagt, ef dæma skal eftir því, hvað deildin er þunnskipuð. En jeg skal ekki þreyta menn með lengri ræðu. Jeg vænti þess, að öllum sje ljóst, að þetta mál hefir þær hliðar, að vert er að gefa því gaum. Vil jeg gera það að tillögu minni, að málinu verði vísað í allshn. að lokinni umræðu.

Jeg skal svo ekki lengja umr. út af þessu litla frv. að svo komnu, þó að um það mætti ræða alllangt mál, þar sem á bak við liggur svo mikið alvöru- og þjóðnytjamál.