27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4278 í B-deild Alþingistíðinda. (3737)

82. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi á þskj. 604 borið fram brtt. um, að 13. gr. frv. falli niður. En svo óheppilega vill til, að greinin, eins og hún nú er orðuð, stendur ekki í frv. því, sem hjer liggur fyrir. Við 2. umr. komu fram 2. brtt., frá meiri hl. og minni hl., og var brtt. meiri hl. samþ. En þeirri viðbót, sem samþ. var, hefir eigi verið bætt inn í frv. við endurprentun. Aðalefni þessarar greinar er um það, að sje maður sterklega grunaður um óleyfilega meðferð áfengis, megi lögreglustjóri gera heimilisrannsókn hjá honum án dómsúrskurðar, ef hann telur þess þörf. Þetta atriði var mikið rætt í nefndinni. Yfirleitt hefir jafnan þótt mjög athugavert að slaka til á því ákvæði stjórnarskrárinnar, sem mælir svo fyrir, að dómsúrskurður skuli jafnan fara á undan heimilisrannsókn. Jeg gæti þó sætt mig við þessháttar tilslökun, þegar svo stendur á, að sterkur grunur liggur á, að áfengislögin sjeu brotin í atvinnuskyni. Þegar þær ástæður eru fyrir hendi, álít jeg ekki athugavert, þó að heimilisrannsókn fari fram án dómsúrskurðar. Nefndin átti tal um þetta efni við Sigurð Jónsson stórtemplar, og hann gaf þær upplýsingar, að við samning frv. hefði verið ætlast svo til, að þessu ákvæði yrði eingöngu beitt gegn þeim, sem grunaðir væru um að brjóta áfengislögin í atvinnu- eða hagnaðarskyni. Hafði hann ekkert á móti því, að bætt væri inn ákvæði, þar sem þetta væri skýrt tekið fram. Og þetta var það, sem fólst í brtt. minni hl. En hún var feld við 2. umr., eins og jeg tók fram. En til þess að hv. þdm. geti gert sjer glögga grein fyrir því, hvernig greinin hljóðar nú, skal jeg leyfa mjer að lesa hana upp eins og hún á að vera með breytingu meiri hl. Hún er 13. gr. frv. og hljóðar svo (með leyfi hæstv. forseta):

„sje maður sterklega grunaður um ólöglegan aðflutning eða óleyfilega sölu eða veitingu áfengis í hagnaðarskyni, eða sakborningur hafi áður verið dæmdur fyrir brot gegn áfengislöggjöfinni, má lögreglustjóri gera heimilisrannsókn hjá honum án dómsúrskurðar, ef hann telur það nauðsynlegt til þess að komast fyrir málið.

Komi það í ljós við heimilisrannsóknina, að áfengi sje í vörslum þess manns, er rannsókn fer fram hjá, skal hann skyldur til að sanna, hvernig áfengið sje komið í vörslur hans. Geri hann það ekki. skal hann teljast sekur um brot gegn 1. gr.“.

Eins og greinin er orðuð nú, felst tvent í henni. Í fyrsta lagi það, að heimilisrannsókn megi gera hjá, manni, ef hann er grunaður um óleyfilega. meðferð áfengis í hagnaðarskyni. En svo kemur nokkuð nýtt, og það er almenn heimild sem gildir, ef maður hefir verið borinn einhverjum sökum — ótiltekið hverjum —, hafi hann áður verið dæmdur fyrir brot á áfengislöggjöfinni. Jeg þykist vita, að tilgangur flm. hafi ekki verið sá að láta heimildina til húsrannsóknar vera svo víðtæka, að hana megi framkvæma hjá þeim, er dæmdur hefir verið fyrir brot á áfengislöggjöfinni, hvaða grunur sem á honum liggur, jafnvel um einhver afbrot, sem eru áfengislöggjöfinni óviðkomandi. En þetta stendur nú í greininni, og er þá a. m. k. missmíði á henni. Í þessu kemur það líka fram, að grunurinn þarf ekki að vera um brot í hagnaðarskyni, eins og gert var ráð fyrir og talað um í upphafi greinarinnar. En hví er jeg andvígur, að teygja heimildina út fyrir það svið, þegar grunurinn er um brot gegn áfengislöggjöfinni í hagnaðarskyni.

Ástæðan til þess, að þörf þótti á að gera umrædda tilslökun frá ákvæði stjórnarskrárinnar, er sú, að hjer í Reykjavík stendur svo á, að sami maður, sem á að kveða upp dómsúrskurð, nefnilega bæjarfógetinn, framkvæmir ekki húsrannsókn. Af því hafa menn óttast, að framkvæmdir yrðu ekki nógu fljótt og þeir grunuðu gætu komist á snoðir um hættuna. Mætti þá svo fara, að töfin yrði til þess, að lögreglan hefði ekki hendur í hári þeirra. En í frv., sem lagt hefir verið fyrir þetta þing og líklegt er til framgangs er gert ráð fyrir annari skipun á þessum málum. Eftir henni fellur bæði dómsúrskurðurinn og húsrannsóknin í hlut sama manns. Verði þetta frv. samþykt, er úrskurðurinn ekki nema formsatriði, og yrði að honum engin töf. Því fremur er jeg á móti því að setja inn í þessi lög ákvæði, sem mjer virðast ýta undir lögregluna að nota heimildina víðtækar en flm. hafa ætlast til og jeg álít rjett. Því fer fjarri, að jeg vilji skemma frv. En af þessum stæðum legg jeg til, að greinin falli brott.