12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4287 í B-deild Alþingistíðinda. (3750)

82. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Eins og nál. ber með sjer, leggur meiri hl. allshn. til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Jeg er ekki viss um, að sú hefði orðið niðurstaðan, ef málið hefði verið fyrr á ferðinni, því að það er ekki hægt að neita því, að sum ákvæðin eru þannig úr garði gerð, að nokkur efi getur verið á því, hvernig þau eigi að skilja. En meiri hl. nefndarinnar vildi ekki láta málið daga uppi og leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Eins og kunnugt er, er örðugt að halda uppi tryggilegri gæslu gagnvart þessum lögum. Þetta frv. er útbúið af þeim mönnum, sem hafa sjerstakan áhuga í þessu efni, og jeg veit ekki betur en að í það sjeu tekin upp öll þau ákvæði, sem þeir óska og samrýmst geta Spánarsamningunum, því að við þeim er vitaskuld ekki hægt að hrófla. Jeg hygg, að svo sje alment álitið, að það sje ekki hægt.

Þó hafa ekki allir nefndarmenn getað orðið sammála. Hv. sessunautur minn (HK) hefir klofnað frá; jeg hygg af því, að honum þykja refsingarnar of háar. Jeg skal taka það fram, að jeg get ekki neitað því, að þær eru allháar, alt að tveggja ára betrunarhúsvinnu. En brot gegn þessum lögum geta oft verið mjög illkynjuð, og jeg er ekki á móti því að setja ströng ákvæði, til þess að fá reynslu fyrir því, hvernig það verkar. Það má auðvitað segja, að þetta hafi verið reyni áður, t. d. með Stóradómi, en þau ákvæði eru orðin svo gömul, að ekkert er hægt að sanna með þeim lengur. Jeg tel því rjett að reyna þessa aðferð, ekki síst þar sem við vorum neyddir til þess, vegna hagsmuna annars atvinnuvegar okkar, að gera ráðstafanir, sem valda því, að erfitt er að halda uppi tryggilegri gæslu þessara laga.

Það er ein tegund áfengisbrotanna, sem jeg er hræddur við, og það er heimabruggunin. Jeg veit, að hún er farin að teygja sína óheillaanga víða, og óttast, að hún fari í vöxt. Það er æskilegt, að reynt verði að finna ráð til að hefta útbreiðslu hennar, því að auk þess sem hún gerir skaða sem venjulegt áfengi, eru þessir drykkir oft skaðlegir heilsu manna og jafnvel eitraðir. Það þarf að koma mönnum í skilning um, að það er alls ekki hættulaust að fást við þessa innlendu framleiðslu.

Af því að þessi fundur er orðinn alllangur, hirði jeg ekki að drepa á þau atriði, sem meiri hl. hefði breytt, ef nægur tími hefði verið til, enda eru þær breytingar þannig vaxnar, að þær snerta ekki aðalatriði frv. Og þess vegna sá nefndin sjer fært að leggja til, að frv. væri samþ. óbreytt.