26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4477 í B-deild Alþingistíðinda. (3828)

103. mál, Landsbanki Íslands

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki fara langt út í þetta mál. Við hv. þm. Dal. erum algerlega gagnstæðrar skoðunar um það, hvernig koma hefði átt fyrir seðlaútgáfunni. Milliþinganefndin í bankamálum klofnaði um þetta atriði, og yrði það langt mál, ef farið væri að ræða ágreiningsatriðin frá rótum. En þar sem hv. þm. talaði um, að framþróunin í öðrum löndum hefði meira og meira stefnt að því, að Seðlabankarnir yrðu bankanna bankar, þá neitar því enginn maður. Spurningin er aðeins sú, hvar við erum nú staddir í framþróuninni. Þó að fullorðnum mönnum hæfi betur að vera í fullvaxinna manna fötum en barnafötum, er ekki þar með sagt, að börnin eigi strax að klæðast í fullorðinsföt. Þó að löndum með fjölbreyttu viðskiftalífi og mörgum bönkum hæfi seðlabankar, sem eru „bankanna bankar“, er ekki sagt, að það fyrirkomulag eigi hjer við. Hjer er alls ekki sama ástandi til að dreifa. Við eigum að aðgæta, hvað öðrum þjóðum hentaði, þegar þær stóðu á sama stigi og við nú. Okkur er engin niðurlæging að því að viðurkenna, að við erum ekki komnir eins langt í bankamálum og Englendingar. Norðmenn og Danir, sem þó standa okkur mun framar, viðurkenna þetta fyrir sitt leyti. Í Englandi er það svo, að Englandsbanki er ekki aðeins bankanna banki, heldur eru fleiri bankar, svo sem „The big five“, sem hv. þm. N.-Ísf. nefndi, sem hafa nálega eingöngu skifti við aðra banka, „brokers“ og víxlara. Þessir bankar taka ekki einu sinni við fje að innláni, sem hefja má með tjekkávísunum, nema frá gömlum og þektum stofnunum. Þetta er í sjálfu sjer eðlilegt fyrirkomulag í Englandi. Þeir peningamenn, sem hafa yfir miljónum punda að ráða, geta ekki þekt alla þá, sem lán vilja fá, og því taka þeir það ráð að skifta við aðra, sem meiri kynni hafa af almenningi. Þetta er hið fullkomnasta form á peningaverslun, sem þekkist hjer á jörð. Þarna eru bankarnir eins og fínasti mælir, sem segir til við hverja einustu vaxtasveiflu, þótt ekki sje nema brot úr prósentu. Og hjer er ráðstöfun fjárins dreift á eins margar hendur og frekast er unt, til þess að tryggja sjer kunnugleika þeirra, sem fjenu ráðstafa.

Ef Landsbankinn hjer ætti að verða „bankanna banki“, þ. e. að skifta ekki við aðra en banka, þá yrði hann til handa aðeins einum banka. Hann yrði banki Íslandsbanka. (JAJ: En sparisjóðirnir?). Ef til vill mundi hann og skifta við sparisjóðina, en það er samt engan veginn víst, og að minsta kosti er ekki enn búið að koma þeim samböndum í horf. — En sem sagt, deilan er ekki um framþróunina í öðrum löndum, heldur um það, hvar við stöndum í þróuninni, hvað okkur henti best á því stigi, er við stöndum. Þess er þá vert að minnast, að bankastjórum allra þjóðbankanna á Norðurlöndum kom saman um, að við ættum að fara þá leið, er við völdum. Rygg, aðalbankastjóri Noregsbanka, sem skrifaði ítarlegast um málið og tók það föstustum tökum, tók þetta mjög skýrt fram. En þetta er nú alt umliðið og ekki hjer til umræðu.

En um samband milli fasteignabanka og seðlabanka veit hv. þm. Dal. það, að þar er ekkert eðlilegt samband á milli. Þetta eru einmitt andstæðurnar í bankastarfsemi. Fasteignabankinn veitir lán gegn öruggum veðum til langs tíma, en seðlabankinn þarf að hafa stöðugur gætur á sveiflum í gengi og vöxtum og hafa fje sitt sem lausast og tiltækilegast á hverri stund sem er. Hitt felst jeg á, að seðlabankastjórnin mundi ekki hafa meira annríki en svo, að hægt væri að hafa „persónusamband“ milli bankanna. Enda býst jeg nú við, að hv. þm. Dal. hafi átt við það. Hann hlýtur að vera horfinn frá þeirri fornaldarhugmynd að tryggja seðla með fasteignum. Það er t. d. nafnfrægt, að einu sinni átti að tryggja seðla með nýlendum í Ameríku, en fór auðvitað alt á hausinn. En út í þetta þykist jeg nú ekki þurfa að fara frekar. Seðlabankamálið er nú endanlega útkljáð, — nei, það er víst ekki óhætt að segja svo mikið, því að nú sýnist orðið lítið um endanlegar ákvarðanir.

Jeg er samferða hv. þm. N.-Ísf. í því, að jeg fæ ekki skilið, hvað á að rjettlæta, að stofnfjárgreiðslan til bankans sje aðeins heimiluð, en ekki fyrirskipuð. Mönnum hlýtur að koma til hugar sú skýring, sem hann drap á, að þetta eigi að verða einhverskonar keyri á bankann. — Annað er þó enn undarlegra, að nú á að fara að taka ábyrgð á bankanum, án þess að nokkrar upplýsingar liggi fyrir um hag hans. (ÁÁ: Ríkissjóður ber ábyrgð á núverandi „status“ bankans). Sú ábyrgð nær a. m. k. ekki fram yfir þær skuldbindingar, er á bankanum hvíldu, er nýju lögin um hann gengu í gildi, Það er einnig mjög um það deilt, hvort ríkissjóður hafi borið ábyrgð á innstæðum manna í bankanum eftir gömlu landsbankalögunum. Í lögunum frá 1885 eru engin ákvæði um þetta, nema ef bankinn er lagður niður. Þá á fyrst að greiða öllum lánsölum bankans allar skuldakröfur þeirra, að undanskildum landssjóði sem lánsala að seðlaupphæð þeirri, er hann hefir lánað bankanum. Þær eignir, sem þá eru eftir, renna í landssjóð, og leysir hann síðan til sín hina útgefnu seðla með fullu ákvæðisverði. (ÁÁ: Ábyrgðin er í Landsbankalögunum frá síðasta þingi). Í þeim er ákveðið, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á bankanum. (ÁÁ: Í því, að ríkissjóður ábyrgist óskert stofnfje bankans). Jeg vænti, að hv. þm. V.-Ísf. geti skilið muninn á því, að ábyrgjast hag bankans á einhverjum ákveðnum tíma og að ábyrgjast allar skuldbindingar bankans um ókomna tíma. Ástand bankans á hverju ákveðnu augnabliki ræður mjög miklu um hag hans og ráðstafanir í framtíðinni. Auk þess er nokkur vafi um skilninginn á 5. gr. laganna. Jafnvel þótt minn skilningur sje tekinn gildur, þá segir greinin ekki annað en að stofnsjóðurinn eigi að vera óskertur, þegar bankinn tekur til starfa eftir nýju lögunum. En það sýnist óneitanlega liggja nærri, að a. m. k. fjárhagsnefndum í Alþingi sje skýrt frá hag bankans um leið og farið er fram á almenna ábyrgð á skuldbindingum hans.

Jeg hygg, að talsverð ástæða sje fyrir þá nefnd, er mál þetta fær til meðferðar, að athuga frv. vandlega í einu og öðru. Úr því að farið er að breyta Landsbankalögunum á annað borð, er t. d. undarlegt að kippa ekki í burt einum forngrip, sem þar hefir leynst síðan 1924 eða 1925, í þeim kafla, sem einna minst hefir verið þráttað um. Í 53. gr. er sem sje talað um arðmiða af hlutabrjefum bankans. Ef lögunum er breytt á annað borð, sýnist lítið vit í öðru en að kippa burtu þessu ákvæði. En þar fyrir er þetta svo smávægilegt, að engin ástæða er til að breyta lögunum fyrir þá sök eina. — Þá er það og einkennilegt, að svo er að sjá af þessu frv., að bæði bankaráðið og Landsbankanefndin eigi að semja reglugerðir fyrir bankann. Er engu líkara en að reglugerðirnar eigi að vera tvær.

Þá er það og merkilegt, að svo lítur út, sem reikningar bankans eigi að endurskoðast af tvennum endurskoðendum. Eftir 21. gr., sem ekki er hróflað við, skal reikningur bankans endurskoðaður af 2 bókhaldsfróðum endurskoðendum, sem ráðherra skipar eftir tillögum bankaráðs, En í 41. gr., sem verður ný grein í lögunum er tekið fram, að landsbankanefndinni beri „að kjósa endurskoðendur bankans til eins árs í senn og 2 til vara, gefa þeim erindisbrjef og ákveða þóknun þeirra“. — Eins er um úrskurð á reikningum bankans. Eftir 22. gr. laganna á ráðherra að úrskurða ársreikninga bankans, og eftir frv. á landsbankanefndin líka að úrskurða reikninga bankans. Þannig eru þá tvennir endurskoðendur og tveir aðiljar, sem úrskurða reikninga bankans.

Frv. er í heild sinni slíkt hrákasmíð frá upphafi til enda, að annað eins hefir ekki sjest um langan tíma.