12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4651 í B-deild Alþingistíðinda. (3887)

103. mál, Landsbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hefi ástæðu til að líta svo á af allri framkomu Íhaldsflokksins í þessu máli, að hjá honum sjeum beina tilraun að ræða til að hindra framgang málsins með töfum og málalengingum. Hegðun hv. 2. þm. G.-K. er í góðu samræmi við það álit. Nálega altaf þegar málið hefir komið fyrir, hefir hann heimtað það tekið af dagskrá, og nú á síðustu stundu kastar hann fram skriflegri brtt., sem hann hafði þó vissulega mörg tækifæri til að koma með áður. Framkoma þessa hv. þm. bendir á, að hann vilji ekki aðeins tefja framgang þessa eina máls, heldur og ýmissa annara, því að nú er vitað, að skamt er til þinglausna. Þegar þar að auki var hjer á ferð brtt., sem vafalaust hefir átt að vísa frá atkvgr., þá hikaði jeg ekki við að synja afbrigðanna. Málið er þrautrætt, bæði á þessu þingi og fyrri þingum. sje jeg enga ástæðu til að mæla með, að það sje nú tekið af dagskrá, með því og að jeg hefi enga ástæðu til að trúa yfirlýsingum hv. 1. þm. Skagf. um það, hvað Íhaldsflokkurinn muni gera. Þvert á móti hefi jeg fulla ástæðu til að halda, að flokkurinn muni beita öllum vopnum til að hindra framgang málsins.