12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4654 í B-deild Alþingistíðinda. (3892)

103. mál, Landsbanki Íslands

Einar Jónsson:

* Hæstv. forseti hefir ákveðið, að eingöngu megi ræða þingsköp á þessu stigi málsins. Vil jeg aðeins segja það, að jeg álít honum best trúandi allra manna til rjettra úrskurða. Hefði jeg kosið, að hv. deild hefði mátt fagna því láni í þetta sinn, eins og svo oft í vetur, að enginn ráðherra hefði vérið viðstaddur, þegar leitað var afbrigða um brtt. Því að vissulega hefir það oft komið fyrir, þegar leitað hefir verið afbrigða um brtt., að enginn úr hæstv. stjórn hefir verið viðstaddur, og því spurði jeg einu sinni í gamni, hvaða stjórn það væri, sem heimilaði afbrigðin. En þegar svona hefir staðið á, að enginn hefir sjeð bóla neitt á þeim hæstv. herrum úr stjórninni, hefir hæstv. forseti haft þann sið að segja, að afbrigðin yrðu að álítast leyfð. Og vegna sóma þingsins, og ekki síst hæstv. forsrh., hefði jeg viljað óska, að hann hefði borið giftu til að vera fjarstaddur í dag, er afbrigðanna var leitað. Því að hæstv. ráðh. henti það slys að fremja verk, sem jeg hefi aldrei fyr vitað nokkurn ráðh. fremja, þau 12 ár, sem jeg hefi átt sæti hjer á Alþingi. ( Forsrh. TrÞ: Var Seinast gert á þingi í fyrra !). Jeg hygg, að engum geti dulist, að hjer liggur fiskur undir steini. Það á að svifta sjerstakan starfsmann í bankanum starfi sínu, af því að hann er hæstv. stjórn ekki hollur í landsmálum. Jeg hjelt, að svo væri frá Landsbankalögunum gengið í fyrra, að ekki þyrfti að fara að hrófla við þeim í ár. En úr því að á annað borð er farið að hreyfa við þeim, sýnist mjer alveg dæmalaust að sýna það ofbeldi, að leyfa brtt. ekki einu sinni að koma til atkvæða, leyfa deildinni jafnvel ekki að segja, hvort hún heimilar afbrigðin fyrir sitt leyti. — En ef jeg er rjettur í rásinni um það, að hjer eigi að fara að svifta heiðarlegan starfsmann stöðu sinni, þá tel jeg það ekki betri nýjung en hitt, sem mjer var sagt, er jeg kom að heiman eftir páskana, að búið væri að hækka um helming risnufje hæstv. forsrh. í slíkan hjegóma vill hæstv. stjórn og hennar flokkur sóa tekjum landsins.

Jeg vona, að nú sem fyr verði hæstv. forseti sá, sem ræður fram úr um alla fundarstjórn og fundarsköp, því að honum treysti jeg helst til að koma þessu máli úr því öngþveiti, er hæstv. stjórn hefir sett það í. Sýndist mjer fyrir mitt leyti rjettast, að málið væri nú tekið af dagskrá.

* Ræðuhandr. óyfirlesið