14.04.1928
Efri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4681 í B-deild Alþingistíðinda. (3918)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. við 23. gr. frv. Efni hennar er það, að sú breyting, sem 23. gr. gerir ráð fyrir, komi til framkvæmda jafnóðum og sæti losna í bankaráðinu. Að efni til er hún samhljóða brtt., sem borin var fram við 3. umr. málsins í hv. Nd., en kom þar of seint fram, svo að hún komst hvorki til umr. nje atkvæða. Þá var hún borin fram sem viðaukatill. við 8. gr. frv., en mjer finst fara betur á að láta hana eiga við 23. gr.

Ástæðan til þess, að jeg hefi tekið þessa brtt. upp, er sú, að jeg vil gefa hv. þdm. tækifæri á að greiða atkv. um það atriði eitt, hvort þeir vilja, að farið sje út fyrir eðlilega sett takmörk með því að setja nýja menn í sæti á meðan aðrir löglega kosnir menn og skipaðir eru í þeim sömu sætum.

Þrátt fyrir allan ágreining í þessu máli, finst mjer full ástæða að líta svo á, að meiri hl. Alþingis telji það skyldu sína að halda löggjöfinni innan þeirra takmarka, að ekki fari í bága við gerða samninga. Hingað til hefir það verið talið svo, að löggjafarvaldið geti ekki breytt slíkum samningum. En geri það það, fæ jeg ekki betur sjeð en við því liggi sömu viðurlög eins og um önnur samningsrof, að fullar bætur komi fyrir. Og hvað sem annars líður þeim mikla skoðanamun, hvort ríkið beri ábyrgð á bankanum eða ekki, finst mjer þó, að færi vel á því, að þingið sýndi, hvort það vildi fara út fyrir þessi takmörk eða ekki.

Jeg ber nú þessa brtt. fram til þess að atkvæði geti gengið um þetta út af fyrir sig. Jeg fyrir mitt leyti get ekki hugsað mjer, að það geti staðið þingmeirihlutanum á neinn hátt á svo miklu að hafa nú þegar í sinni hendi meiri hlutann í yfirstjórn Landsbankans, að þeirra hugsun muni geta rjettlætt það, að sú grundvallarmeginregla, sem jeg nú hefi rætt um hjer, verði brotin, þar sem jeg get búist við, að þeirra mótmæli byggist á því, að athugavert sje að breyta frv. að svo áliðnum þingtímanum. En jeg hefi einnig leyfi til þess að geta hjer um það, að stjórnarandstæðingar í Nd. muni leyfa afbrigði frá þingsköpum, til þess að málið megi koma þar til atkvæðagreiðslu hvenær sem er, eftir að það er afgreitt hjer í deildinni, og þeir munu ekki gera neitt til að tefja málið á annan hátt, þannig að samþykt þessarar brtt. getur á engan hátt orðið til þess, að málið verði óútrætt, eða að nokkur hætta verði á slíku.

Jeg skal svo ekki segja meira um þetta mál. Jeg hefi ekki komið fram með neina brtt. að því er snertir hitt höfuðatriði frv., hina ótakmörkuðu ábyrgð ríkissjóðs á bankanum, því að jeg hefi skilið það svo, að um það atriði sje raunverulegur skoðanamunur, þannig að baráttunni um það verði að halda áfram, ekki hjer á þingi, heldur úti á meðal kjósendanna.