09.02.1928
Efri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4700 í B-deild Alþingistíðinda. (3927)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Jón Þorláksson:

Það hefir sjálfsagt komið sumum á óvart, að eitt hið fyrsta nýmæli, sem stj. flytur á þessu þingi, skuli vera fjölgun á hærri embættismönnum. Við þessa umr. málsins ætla jeg ekkert að fara út í það, hvort þessi uppástunga sje rjettmæt eða ekki. Aðeins vil jeg minna á það, út af ummælum hæstv. ráðh. um mistök á löggjöfinni viðvíkjandi aukatekjum þessara embætta, að búið er að leiðrjetta þar stærstu mistökin. Stærstu mistökin voru þau, þegar stj. 1922–'23 samþ., að frá 1. júlí 1922 skyldu afgreiðslugjöld, sem lögð eru á erlend fiskiskip með lögum, renna til viðkomandi lögreglustjóra. Afgreiðslugjöld þessi námu stórfje hjer í Reykjavík. Stjórnin frá 1924 fjekk þetta leiðrjett með talsverðum barningi. Var þá ákveðið, að gjöld þessi skyldu renna í ríkissjóð, þó með þeirri ívilnun, að ráðuneytinu var heimilað að ákveða innheimtulaun þessara gjalda, og mátti sú þóknun nema alt að 25% af gjöldunum. Það kom undir mig að ákveða þetta, og taldi jeg sjálfsagt, að lögreglustjórinn í Reykjavík fengi engin innheimtulaun. Þar með voru leiðrjettar stærstu misfellur þessa máls.