12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4733 í B-deild Alþingistíðinda. (3951)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Gunnar Sigurðsson):

* Jeg býst ekki við, að þörf sje á langri framsögu. Það er öllum mönnum kunnugt, að knýjandi þörf er að koma fram þeim breytingum, er frv. ræðir um. Í greinargerðinni er frv. talið sparnaðarráðstöfun, og verð jeg að fallast á, að svo sje. Þó að biðlaunin sjeu mikil næstu 5 ár, ef báðir núverandi embættismenn nota sjer rjettinn til þeirra, þá verður sparnaðurinn alveg vafalaus og mjög mikill að þeim tíma liðnum. Auk þess verður að telja ósennilegt, að nema annar þessara manna setjist á biðlaun. Fyrir mjer er þó sparnaðurinn ekki aðalatriðið, heldur hitt, að aðskilja tollstjórnina og lögreglustjórnina. Það kemur vart fyrir, að sami maður hafi hæfileika til að gegna báðum stöðunum svo, að vel fari. Reynslan sýnir t. d., að sá maður, sem nú gegnir embættinu, er ágætur tollstjóri, en alt miður fallinn til lögreglustjórnar. — Jeg sje ekki ástæðu til að fara út í neinar tölur um sundurliðun á sparnaði þeim, er af skiftingunni má verða, og mun fresta frekari ræðuhöldum þar til hv. frsm. minni hl. hefir gert grein fyrir sinni skoðun.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.