12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4763 í B-deild Alþingistíðinda. (3960)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Gunnar Sigurðsson):

* Það er raunar ræða um keisarans skegg að tala fram og aftur um tekjur, sem enginn veit, hve miklar eru. Þó þykist meiri hl. nefndarinnar geta gengið út frá því, að laun beggja þessara manna sjeu ekki minni en 50 þús. kr. Jeg held raunar, að þau sjeu talsvert meiri. Það er því bersýnilegt, að sparnaður hlýtur að verða að þeim 5 árum liðnum, sem núv. embættismenn eiga rjett til biðlauna. Þá er og þess að gæta, að ekki er ósennilegt, að a. m. k. annar þessara manna taki embætti aftur. En þó að gert sje ráð fyrir að launa 5 menn, fara ekki til þess nema 47 þús. kr. Einhver skrifstofukostnaður kynni að geta bætst við, svo að ekki yrði sparnaður í bili. En hann verður áreiðanlega í framtíðinni.

En eins og jeg tók fram í framsöguræðu minni, er sparnaðurinn ekki aðalatriðið fyrir mjer. Jeg vil fyrst og fremst skilja tollstjórnina frá lögreglustjóraembættinu. Og eitt atriði í ræðu hv. frsm. minni hl. kom mjer til þess að standa upp nú. Hann sagði, að bæjarbúar þyrftu ekki að kvarta undan núverandi fyrirkomulagi. Jeg ætla ekki að ámæla þeim manni, sem nú gegnir lögreglustjórastarfinu. En þó mun það margra manna mál, að hin tvö störf fari sjerstaklega illa saman hjá honum, því að þó hann sje öðru vel vaxinn, er hann ekki hæfur til hins. Og jeg leyfi mjer að fullyrða, að hjer í bænum hafa komið fyrir mjög leiðinleg mál, af því að þessi maður hefir ekki lögreglustjórahæfileika. Jeg vil undirstrika það, að starfinu verður að skifta, til þess að fá öfluga lögreglustjórn. Yfir henni er nú kvartað, og það með rjettu.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.