13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4785 í B-deild Alþingistíðinda. (4010)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Gunnar Sigurðsson:

Þegar lögin um inndráttarskyldu Íslandsbanka voru samþ. á þinginu 1921, var jeg einn þeirra manna, sem harðast börðust þá móti því, að hann væri skyldaður til að draga inn 1 miljón árlega. Mig minnir, að þau lög væru samþykt með mjög litlum, jafnvel eins atkvæðis meiri hluta. Það kom líka í ljós þegar árið eftir, að þetta var óframkvæmanlegt.

Það er hinsvegar rjett hjá hv. 1. þm. N.-M., að bankinn hefir gert of mikið að því að veita mjög stór lán einstökum mönnum og fyrirtækjum, og aðrir hafa ekki getað fengið neitt út á trygg veð.

Jeg skal taka það fram, að jeg tel rjett og nauðsynlegt að samþykkja þetta frv. Jeg býst ekki við að ræða mikið um bankamál alment, en jeg tel, að ef Íslandsbanki á að geta haldið áfram að starfa óhindraður, þá sje óhjákvæmjlegt að veita honum þessa ívilnun. Jeg mun altaf stuðla að því, hvaða peningastofnanir, sem um er að ræða, að úr verði greitt sem best með veltufje í landinu. Það er hið mesta mein okkar, hvað veltufjeð er lítið. Það er svo, að það er oft alveg ómögulegt að fá lán út á alveg örugg veð.

Jeg játa það, að jeg var um eitt skeið ekki viss um, að það væri rjett að láta bankann halda áfram að starfa, en ef hann á að geta það til nokkurs gagns fyrir þjóðina, þá tel jeg ófært að leggja á hann þessa kvöð.