13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4796 í B-deild Alþingistíðinda. (4018)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Haraldur Guðmundsson:

Tveir þingmenn, hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Dal., tóku svo til orða, að bankinn hefði oft tapað meiru á því að snúa sjer til þingsins heldur en sem numið hefði þeim ívilnunum, sem þingið hefði veitt honum. Jeg verð að segja það, að mig undrar þá stórlega, að bankinn skuli þá vera að leita til þingsins ennþá einu sinni, þegar ekkert liggur fyrir, er sanni, að honum sje brýn þörf á því. En annars held jeg, að þær ástæður, sem þessir tveir hv. þm. hafa flutt fram fyrir fullyrðingum sínum um, að þessar málaleitanir hafi skapað svo mikinn óróa um bankann, að það hafi orðið til að hnekkja vexti hans og viðgangi, sjeu ekki á rökum reistar. En hvað sem um það er, þá verð jeg að segja, að mjer finst alveg ótilhlýðilegt að leita til þingsins um ívilnanir og fríðindi án þess að tvent liggi fyrir, í fyrsta lagi nauðsyn bankans til að fá þessi fríðindi, og í öðru lagi fullnægjandi upplýsingar um hag bankans, að minsta kosti að svo miklu leyti, sem snertir afstöðu hans til ríkissjóðs. Jeg hefi ekki heyrt með einu orði á það minst, hvort þetta sje nauðsynlegt fyrir bankann. Jeg veit, að síðastliðið ár hefir verið talið hagstætt fyrir bankana og landsmenn. Fyrir hinu, að það vanti upplýsingar um hag bankans og afstöðu til ríkissjóðs, hefir hæstv. forsrh. borið fram þá afsökun, að ekki hafi unnist tími til að afla upplýsinga. En þetta vopn slær hv. þm. Dal. alveg úr hendi ráðh., með því að segja, að ekki sje annað en að fá tölurnar hjá bankaeftirlitsmanninum, og jeg álít, að það hefði ekki þurft að taka mikinn tíma fyrir hæstv. stjórn að fá að vita um þetta, og það hefði heldur ekki þurft að taka mikinn tíma fyrir hæstv. stjórn að athuga tryggingarnar fyrir enska láninu.

Og svo er eitt enn. Það er, hvort ætla má, eins og hv. 1. þm. S.-M. drap á, að bankinn geti uppfylt þau skilyrði, sem honum eru sett um það, hvenær lokið skuli vera inndrætti seðlanna. Upplýsingar um þetta þrent álít jeg, að hefðu átt að fylgja frv., þegar það var lagt fram, og vil jeg enn vona, að þessar upplýsingar verði látnar fylgja því, þegar það kemur hjer til 2. umr.

Jeg skal ekki vera svo kröfuharður að heimta af stjórninni nú, að hún gefi fullar upplýsingar um það, hvað hún hygst fyrir um framtíðarfyrirkomulag bankans, en jeg vil mega vænta þess, að stjórnin hafi það mál í huga. Jeg get sagt það alveg hispurslaust, að það er ólag á okkar bankamálum, þar sem ríkið á og rekur annan bankann og auk þess heldur uppi öðrum banka, Íslandsbanka, og sjer honum fyrir starfsfje, án þess að þinginu sje það ljóst, hvernig ástand þess banka er.

Hv. þm. Dal. sagði, að það væri nýbúið að rannsaka hag bankans og að það hefði sýnt sig, að hann ætti enn eftir helming hlutafjárins. Þetta er víst rjett; skýrsla hefir verið gefin um það, en benda má þinginu á það, að hlutabrjef bankans voru um líkt leyti í kauphöllinni dönsku skráð milli 16–20 krónur danskar, en hafa víst eitthvað hækkað síðan. (SE: Þau eru nú skráð milli 28–30 kr.). Það má vel vera; mikið vantar þó á hálft nafnverð, en jeg get trúað því, að danskir fjármálamenn sjeu fult eins vel kunnugir hag Íslandsbanka eins og innlendir menn, jafnvel kunnugri en flestir hv. þm.

Þá sagði hv. þm., að viðskiftamenn bankans yfirleitt hefðu verið ánægðir með að breyta reikningslánum sínum í víxillán. Jeg legg, satt að segja, ekki mikinn trúnað á þetta, því að jeg veit, að menn vilja heldur hafa reikningslán heldur en víxla, sem falla á ákveðnum tíma og bankinn þá hefir rjett til að krefjast greiðslu á, en slíkt er ekki hægt að gera með reikningslán. Jeg verð þess vegna að draga í efa, að þetta sje rjett hjá hv. þm., þó að jeg skilji það, að viðskiftamenn bankans hafi heldur viljað fá víxla heldur en að gengið væri eftir allri skuldarupphæð þeirra í einu.

Þá hafa þeir hv. þm. Dal. og hv. 1. þm. Skagf. látið þau orð falla, að hv. þm. ættu að vera þess minnugir, að bankinn væri til fyrir þjóðina, en jeg vil þá segja, að bankinn ætti fyrst og fremst að vera þess minnugur sjálfur, að hann er til fyrir þjóðina og að það fer eftir því, hve vel hann minnist þess, hve vel þm. og þjóðin bregst við málaleitunum hans. Jeg vil segja það, þótt mjer þyki það ilt, að að minsta kosti í því hjeraði, þar sem jeg þekki best til, en það er á Ísafirði, hefir útibú þessa banka ekki verið nein heillaþúfa fyrir bæjarmenn, og þykist jeg þar taka mjög vægilega til orða.

Þá þótti hv. þm. Dal. það skjóta skökku við, að óskað skyldi vera eftir upplýsingum um hag Íslandsbanka, þar sem ekki liggur fyrir skýrsla um hag Landsbankans. Jeg álít það miður farið, að ekki hefir verið lögð fyrir þingið skýrsla um hag Landsbankans, og veit jeg ekki til hlítar, hvað því veldur. En hæstv. fjmrh. hefir skýrt svo frá, að hann hafi enga skýrslu fengið frá matsnefndinni, heldur aðeins eina tölu, niðurstöðuna, en hana hefir hann ekki viljað birta, fyr en hann fengi þá skýrslu, er talan byggist á. En hvað sem þessu líður, þá er afstaða ríkisins til Íslandsbanka öll önnur heldur en Landsbankans. Ríkið á Landsbankann og getur því ekki skotist undan skyldum sínum við hann. Honum verður það að sjá farborða, hvernig sem hag hans kann að vera komið. En Íslandsbanki er einkabanki, og þó að ríkið hjálpi honum, þá ber því engin skylda til þess, hvorki siðferðisleg nje lagaleg. Af þessum ástæðum er það sjálfsagt, að skýrsla liggi fyrir um hag bankans áður en nú, svona rjett í þinglokin, er hlaupið að því að veita honum þessa ívilnun í þriðja sinn. Loks má geta þess, að bankinn hefir síðustu árin haft útlánsvexti ½% hærri en Landsbankinn. Mun þó fje það, er hann hefir notað, vera fengið með svipuðum kjörum og Landsbankinn fær sitt fje, svo ilt er að afsaka þetta. Að minsta kosti þarf að ganga úr skugga um það, hvort ástæður eru fyrir hendi, sem rjettlæta þessa, háu vexti.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að hæstv. forsrh. Hann sagði, að því er mjer skildist, að óþarfi væri að vísa þessu máli til nefndar, en þar vona jeg, að jeg hafi misskilið hann, því jeg verð að segja, að það þætti mjer í mesta máta óþinglegt. Og hvað sem segja má um þörf bankans á því að fá þessa ívilnun, þá er hjer um mjög verulegt atriði að ræða, sem sjálfsagt er, að nefnd fái til athugunar. Jeg legg því til, að máli þessu verði vísað til fjhn. og að hún afli sjer frekari upplýsinga. Jeg geri ekki ráð fyrir, að það þurfi á neinn hátt að hindra framgang þessa máls; afbrigði frá þingsköpum eru svo tíð, að telja má víst, að þau fáist og í þessu tilfelli. En mjer finst það alveg ósæmilegt, ef þessu máli verður flaustrað af án þess að það fari til nefndar.