27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (4084)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Ólafur Thors:

Mjer hefir frá upphafi verið ljóst, hver er kjarni þessa, máls, og hafa umr. í dag sannað mjer, að skoðun sú, er jeg í fyrstu myndaði mjer, var algerlega rjett.

Stjórnarliðar hafa gert dag þennan að nokkurskonar tyllidegi sínum, sem þeir nota til þess að svala lund sinni og eðli. Þá hefir hæstv. dómsmrh. (JJ) notað tækifærið til þess að gerast dómari í máli þessu og kveður upp þann ómilda dóm, að Íhaldsflokkurinn, sem er mikill hluti hinnar íslensku þjóðar, sje samfeld heild, sem vilji slá skjaldborg um há, sem drýgja svik og glæpi. Svo langt gengur hann, að á undan sjálfum rannsóknardómaranum kveður hann upp dóminn um þá, sem grunaðir eru um svik í Hnífsdalsmálinu, og mun þurfa víða að leita til þess að finna slík afrek af hendi nokkurs dómsmálaráðherra.

Um það eru allir sammála, sem frá mínu sjónarmiði er kjarni málsins, að óhugsandi sje, að brögð þau, sem hjer voru höfð í frammi, geti á nokkurn hátt breytt úrslitum kosninganna. Mjer finst því sjálfsagt, að Alþingi samþykki kosninguna. Það er ennfremur upplýst, að sjálfur rannsóknardómarinn álítur engan grun geta fallið á J. A. J., að hann sje við riðinn hið glæpsamlega athæfi, og fyrst málið er einu sinni komið í hendur dómara, mega hinir grunuðu vænta þess að fá sinn dóm, ef þeir eru sekir. Mjer er því ljóst, að Alþingi hlýtur að samþykkja kosninguna, því að ef ráði hæstv. dómsmrh. væri fylgt í þessu máli, væri það hið sama og að bjóða heim svikum og brögðum við allar kosningar. Forsendur hæstv. dómsmrh. eru þessar: Í fyrsta lagi, að á því eru engin tvímæli, að svikin geta ekki breytt úrslitum kosninganna. Í öðru lagi, að ef til nýrra kosninga kæmi, yrði sami þm. kosinn. En svo segir hæstv. ráðherra: Vegna þess að brögð hafa verið höfð í frammi, ber að ónýta kosninguna án hliðsjónar til þessa.

Verði þessari till. fylgt, mun hjer upp renna ný öld svika og pretta í kosningum.

Við skulum til dæmis gera ráð fyrir, að fram eigi að fara kosningar um land alt. Nú er það alþjóð vitanlegt, að í þrem kjördæmum á Íhaldsflokkurinn vísan sigur. Í þessum kjördæmum eru 3–4 flokksbræður hæstv. dómsmrh., sem taka sig saman um að stofna til kosningabrellna. Skömmu fyrir kosningar láta þeir þann orðróm út ganga, að þeir þurfi að hverfa burt úr hjeraði áður en kosningar fari fram. Snúa þeir sjer til hreppstjóra til þess að kjósa. En áður en svo langt er komið, fara þeir til einhvers flokksbræðra sinna og biðja hann að gera sjer þann greiða að skrifa nafn á dálítinn seðil, sem þeir hafa meðferðis.

Seðillinn er eins og þeir seðlar, sem hreppstjóri notar við heimakosningar, en nafnið, sem þeir fá skrifað á hann, er nafn frambjóðanda Íhaldsflokksins, en ekki Framsóknarflokksins. Að svo búnu fara þeir til hreppstjóra til þess að kjósa, og hreppstjóri, sem á sjer einskis ills von, gætir ekki þeirrar varúðar að hafa gát á þeim á meðan þeir kjósa, og þá skifta þeir um miða. Síðan afhenda þeir hreppstjóra atkv. ( Dómsmrh. JJ : En hvað þm. er lærður í svikunum!). Jeg hefi hæstv. dómsmrh. fyrir sessunaut, og það segir gamalt máltæki, að hví læri börnin málið, að það er fyrir þeim haft. Að nokkrum dögum liðnum koma þeir aftur á fund hreppstjóra og óska þess að fá atkv. afhent. Hreppstjóri, sem grunar þá ekki um græsku, verður við þessari bón þeirra og fær þeim í hendur atkvæðaseðlana. Menn þessir fara síðan með atkv. á fund merkra manna — ef til vill dómsmrh. sjálfs — og opna þau þar í viðurvist þeirra. Og viti menn, á atkvæðaseðlunum stendur ekki nafn Framsóknarframbjóðandans, heldur Íhaldsframbjóðanda. Þeir fara þá með atkv. til yfirvalds og bera fram kæru og málið hefir sinn eðlilega gang, eins og Hnífsdalsmálið, og er fengið í hendur rannsóknardómara. Það sannast, að svik hafa verið í tafli, á seðlinum er annað nafn en það, sem almenningur býst við, að kjósandi hafi skrifað. Ekki er það heldur rithönd hans, en það er heldur ekki rithönd hreppstjóra. Svona er málinu komið, þegar Alþingi kemur saman.

Við skulum hugsa okkur, að atburðir þessir hafi ekki gerst aðeins í einu kjördæmi, heldur þremur, og að þegar Alþingi kemur saman, sjeu hlutföllin þannig, að Íhaldsflokkurinn hafi 22 atkv., en andstæðingarnir 20. Væri svo reglu hæstv. dómsmrh. fylgt, yrði þessum þrem þm. vísað heim, sem hafa verið rjettilega kosnir, en svik verið höfð í frammi við kosninguna. Ef þessi regla væri ekki orðin að lögum, mundi Íhaldsflokkurinn mynda stjórn, en eftir að þessir 3 þm. hafa verið sendir heim, eru það andstæðingarnir, sem taka það að sjer og mynda stjórn með 23 atkv. gegn 19, því samkv. uppástungu hæstv. dómsmrh. á ekki einungis að ónýta kosningu þessara þriggja manna, heldur eiga andstæðingarnir að hljóta kosningu í þeirra stað. En jafnvel þótt ný kosning ætti fram að fara, má benda á það, að stjórnin hefir það á valdi sínu að rjúfa þingið. Og annað eins gæti hugsast og það, að dómsmrh. vildi nota sjer kosningasvikin til þess að rjúfa þingið og reyna á þann hátt, með nýjum kosningum, að ná löglegum en órjettlátum meiri hluta.

En finst nú ekki mönnum, að svikurunum sje gert fullhátt undir höfði, ef hin óviturlega uppástunga hæstv. dómsmrh. yrði að lögum og gæti á þennan hátt orðið þess valdandi, að ný stjórn gæti setið að völdum í mörg ár. Með þessari till. eru ekki tök fyrir hæstv. dómsmrh. að reyna að koma fram hefndum við Íhaldsflokkinn; til þess verður hann að bera fram eitthvað viturlegra, svo að hans eigin flokksmenn geti þó aðhylst það.

Áður en jeg vík að síðustu ræðu hæstv. dómsmrh. vil jeg beina nokkrum orðum að hv. þm. Ísaf. (HG). Þessi þm. skýrði frá því, að kosningasvikin í Hnífsdal síðastliðið sumar væru ekki annað en eðlileg uppskera sáningar undanfarandi ára. Árið 1919 hafi verið framin stórfeld kosningasvik á þessum slóðum, en þó látið óhegnt. En árið 1923 hafi það farið fram í sambandi við kosningarnar vestra, sem að áliti hv. þm. og hæstv. dómsmrh. er ennþá glæpsamlegra en það, sem grunur leikur á, að fram hafi farið við kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu í sumar. (HG: Jeg sagði glæpsamlegra en svikin 1919). Jeg vil gera hv. þm. það til geðs að láta dómsmrh. einan um þessa ályktun. En hv. þm. lýsti því með mörgum sterkum orðum, hvílík ósköp þá hafi verið á ferðinni. Einnig færði hann fram langa og ítarlega kæru frá ýmsum borgurum Ísafjarðarkaupstaðar, sem kæra þessa kosningu. Er þar margt sagt, meðal annars það, að kjörstjórnin hafi þá leyft sjer að taka ólögleg atkv. gild, en aftur á móti dæmt lögleg atkv. ógild.

Jeg verð að játa, að jeg er ekki sá mælskumaður, að jeg geti lýst þessu eins vel og hv. þm., enda er slíkt óþarfi, því að menn munu muna eftir ræðu hv. þm. í dag, sem var bæði löng og röggsamlega flutt.

Nú krefst þessi hv. þm. þess, að kosningin í N.-Ísafjarðarsýslu verði gerð ógild, ekki vegna þess, að brögðin geti breytt úrslitum kosninganna, heldar vegna þess, að svik hafi verið framin, og þeim beri að hegna með því að senda þm. heim aftur. Eftir að hafa bent á þetta, vil jeg, með leyfi forseta, lesa hjer upp aðalkröfuna, sem borgarar Ísafjarðarkaupstaðar bera fram í kæru sinni, út af umræddri kosningu á Ísafirði 1923. Hún er á þessa leið:

„Fyrir því leyfum vjer oss að krefjast þess, að þjer, háa Alþingi, ógildið kosningu og kjörbrjef Sigurjóns Jónssonar og úrskurðið Harald Guðmundsson, samkvæmt gerðabókum kjörstjórna og þessum upplýsingum, rjettkjörinn þingmann fyrir Ísafjarðarkaupstað.“

Nú vil jeg biðja menn að athuga, að þm. gerir hvorttveggja, að kæra sviksamlega kosningu og biðja þess, að kosning sje tekin gild. — Árið 1923 var það í hans eiginn hag, að kosningin væri tekin gild á þann hátt, er hann vill vera láta. Nú er það andstæðingunum til miska, að kosningin í Norður-Ísafjarðarsýslu sje gerð ógild.

Ef þetta er ekki hræsni og yfirdrepskapur, þá veit jeg ekki, hvaða dóm menn vilja leggja á slíkt. Þá bað hann þess, að sjer yrðu talin fá vafaatkvæði, til þess að hann flyti inn á þing, en nú er það staðreynd, að löglegu atkvæðin eru nógu mörg til þess að kosningin verði rjett.

Hæstv. dómsmrh. þykir það furðu sæta, að menn skuli hneykslast á því, að hann nefni „fair play“, og þykir skorta sannanir fyrir þessari skoðun manna. Margra ára blaðamenska hæstv. dómsmrh. er óslitin sönnun þess, að hann ætti aldrei að nefna það orð framar. Mætti æra óstöðugan að nefna 1/100 hluta af þeim dæmum, er þetta mundu sanna, og nægir að rifja upp eitt þessara dæma fyrir þingheimi.

Á Alþingi í fyrra kom fram beiðni frá Landsbankanum um að veita ríkisstjórninni heimild til að ábyrgjast lán, sem bankinn ætlaði að taka erlendis. Lán þetta, sem var að upphæð 9 milj. kr., var hlaupareikningslán, sem bankinn ætlaði að nota til bjargar atvinnuvegum landsins, eftir því sem þörf væri á.

Þetta fekst, og nú leið að kosningum. Fyrir kosningarnar skýrði dómsmrh. kjósendum frá því í „Tímanum“, að Íhaldsstjórnin væri búin að sökkva landinu í botnlausar skuldir. Síðasta afrek þeirra Jóns Þorlákssonar og Magnúsar Guðmundssonar hafi verið það að taka 9 miljón kr. lán, svo að nú sje nýr skuldabaggi lagður á herðar hvers mannsbarns á landinu, jafnt á ungbarnið í vöggu sem karlægt gamalmennið, og nemi sá baggi 90 kr. Til þess að ljetta af þessu skuldaoki verði svo þjóðin að þræla kynslóð eftir kynslóð. — Er þetta „fair play?“

Við skulum hugsa okkur kjósanda, sem hafi tilhneigingu til þess að fylgja Íhaldsflokknum að málum. Rjett fyrir kosningarnar fær hann fregnina um þennan nýja skuldabagga, sem búið er að leggja á herðar barna hans og aldraðra foreldra, og fyllist andstygð á framferði Íhaldsins. (Dómsmrh. JJ: Það voru allir fullir andstygðar á Íhaldinu áður). Íhaldið fjekk þó 5000 atkvæði umfram Framsókn við síðustu kosningar. Og í reiði sinni gengur hann að kjörborðinu og kýs Framsóknarmann. Eftir kosningar frjettir þessi sami kjósandi hið sanna í þessu máli, að fje þetta sje bankalán, sem nota eigi til viðreisnar atvinnuvegum landsins og sem lántakanda beri að greiða, og að af þessu fje hafi aðeins verið notuð 1 milj. 5 mánuðum síðar frjettir hann, að þessi 1 milj. hafi verið endurgreidd. Hann sjer, að hjer á hann engan hlut að máli og harmar mjög að hafa lagt trúnað á orð Jónasar frá Hriflu.

Nú vil jeg spyrja: Er þetta atkvæði ófalsað, og ef það er falsað, — hver hefir þá gert það?

Það eru til verri atkvæðafalsarar en í Hnífsdal; það eru þeir, sem falsa atkvæði svo hundruðum eða jafnvel þúsundum skiftir með því að villa þjóðinni sýn með skrifum sínum. Slíkir atkvæðafalsana-heildsalar ættu að horfa með miskunnsemi á hina ógæfusömu menn í Hnífsdal og segja um leið og þeir dæma þá: „Guði sje lof, að jeg slapp.“

Hæstv. dómsmrh. vill skerpa lögin og hegna stranglega fyrir atkvæðafölsun. Til þess býð jeg honum aðstoð mína og samvinnu, en skora á hann að minnast þá hinna stærri falsana, er hann dæmir hina minni, og láta þá hljóta rjettláta hegningu.