27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (4112)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Halldór Steinsson:

Jeg held, að hæstv. dómsmrh. hefði manna síst átt að minnast á þetta. Það var langt frá að vera honum eða hans flokki til sóma. Hæstv. ráðh. hefir kallað þetta þingskapabrot; en jeg sýndi fram á í Ed. í fyrra, að það getur eiginlega ekki talist lögbrot, þar sem þingsköpin eru þannig úr garði gerð, að ekki er hægt að fylgja þessu ákvæði þeirra, nema því aðeins að brjóta önnur ákvæði, sem sje þau, er ákveða tölu þm. í nefndir. Þetta kom líka á daginn nú, þegar kosið var í nefndir í Ed. og forseti Framsóknarmanna stýrði kosningunni; þá hafði hann alveg sömu aðferð og jeg á síðasta þingi.

Þetta minti jeg deildarmenn á strax við kosninguna; og forseti Ed. var svo sanngjarn, að hann kannaðist við, að mín aðferð á síðasta þingi hefði verið alveg rjett. Hitt er auðvitað, að hæstv. dómsmrh. (JJ) gat ekki verið svo sanngjarn að viðurkenna það.