14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

6. mál, laun embættismanna

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði eitthvað á þá leið, að aðalfjárhagsörðugleikar sveitapresta nú stöfuðu af búskap þeirra. Þetta er alveg rjett. En ástæðan til þess, að þeir voru settir skör lægra en aðrir um dýrtíðaruppbót, var einmitt sú, að þeir stóðu betur að vígi vegna búskaparins, þegar lögin um laun þeirra voru samþykt, eða að minsta kosti var álit Alþingis, að þeir hefðu betri aðstöðu af þeim sökum. En þar sem þetta hefir nú alveg snúist við, sje jeg ekki betur en að þar með sje alveg fallin ástæðan til þess að taka prestana út úr um launakjör. Raunar ættu þeir nú að fá hærri dýrtíðaruppbót en aðrir, ef haldið væri áfram að byggja á sama grundvelli og áður, þar sem búskapurinn er nú orðinn prestum fjötur um fót. En fram á slíka breytingu er ekki farið í frv., heldur aðeins, að sveitaprestar fái að njóta sanngjarns jafnrjettis. Jeg tel mjer skylt að fylgja frv. með atkv. mínu.