06.02.1928
Efri deild: 15. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla að þessu sinni að segja fáein orð, enda þótt jeg hafi farið nokkrum orðum um málið og undirbúning þess við 1. umr.

Jeg vil þá fyrst víkja að því, sem háttv. 3. landsk. (JÞ) sagði, að ekki væri rjett að heimila landsstjórninni að ráðstafa svo miklu fje, sem hjer um ræðir, án þess að málið væri lagt betur undirbúið fyrir Alþingi. Jeg vil biðja menn að bera þetta frv., um alt að því 100 þús. kr. fjáreyðslu. saman við frv. flokksbróður hv. 3. landsk., hv. þm. Snæf. (HSteins), sem ber fram frv. um að heimila stjórninni alt að 1 miljón kr. eyðslu af opinberu fje til byggingar strandvarnarskips. Ekki liggur þó fyrir Alþingi nokkur teikning af slíku skipi, og er þó mikið vafaatriði, hvernig því skuli fyrir komið, eftir því sem við mættum hafa lært af reynslunni. En háttv. þm. Snæf. treystir stj. til að ráða fram úr því eftir bestu samvisku og með ráði hæfustu manna.

Út af tali hv. 3. landsk. um undirbúningsleysi málsins vil jeg ekki neita því, að oft getur verið gott að hafa áætlanir um ýmsa hluti. En þó held jeg, að þjóðin sje alveg hætt að trúa á áætlanir, jafnvel sjerfræðinga. Þær hafa ekki gefist betur en svo. Hvernig var t. d. með allar þær áætlanir, sem sjerfræðingar gerðu um rafveitu í Reykjavík og virkjun Elliðaánna? Hefir þeim ekki skeikað ofurlítið? Þótt bæði almenningur og stjórnarvöld sjeu oft og einatt neydd til að treysta þessum áætlunum, þá er síður en svo, að af þeim sje góð reynsla.

Annars var það rjettilega fram tekið af hv. 3. landsk., að jeg mun varla nota þá heimild, sem í frv. felst, áður en Alþingi kemur saman aftur, nema það reynist álitlegt að fullgera spítalahúsið á Eyrarbakka í þessu skyni. Jeg skal taka það fram, að allar þær athuganir, sem á þessum málum hafa verið gerðar að stjórnarinnar tilhlutun, eru gerðar af leikmönnum. En hjer á landi er varla völ á öðrum í þessum efnum. Málið horfir annars þannig við, að landssjóður hefir lagt fram 50–60 þús. kr. til þessarar byggingar. Staðurinn undir hana var valinn í stjórnartíð Jóns heitins Magnússonar, einmitt í samráði við sjerfróða menn. Jeg veit ekki betur en að æðsti maður heilbrigðismálanna, landlæknir, hafi einmitt ráðið miklu um þetta. Því get jeg ekki verið eins bölsýnn í þessu efni og hv. 3. landsk., að álíta, að ekki sje hægt að nota staðinn. Ef ekki er hægt að hafa þarna vinnuheimili handa sæmilega hraustum föngum og slæpingjum, þá sýnist þaðan af síður hægt að hafa þar sjúkraheimili. Annars vænti jeg, að hv. 3. landsk. falli frá þessari mótbáru sinni, er hann athugar, að í henni felst einmitt þung ásökun í garð hinnar sjerfræðilegu þekkingar, sem hann gumar svo mjög af aðra stundina.

Þá langar mig til að fara fáeinum orðum um þörfina á nýju fangahúsi í þessu landi. Nú sem stendur eru ekki nema þessir fáu klefar í fangahúsinu hjer í bæ. Þar er alls enginn möguleiki til útivinnu, og innivinna mjög erfið viðfangs og lítið sem ekkert stunduð. Bæði frá bæjarfógetanum í Reykjavík og þeim lögfræðingum landsins, sem málið varðar, hafa komið ákveðnar óskir um byggingu nýs betrunarhúss. En ekki hefir komið fram nein ákveðin tillaga úr þeim áttum um tilhögun hússins, nema ef telja skyldi eina blaðagrein eftir ungan lögfræðing, er nýlega var prentuð í einu dagblaði bæjarins. Fáir eða engir hafa kynt sjer að ráði tilhögun fangelsa erlendis, enda þótt sumir kunni að hafa nokkra bóklega, eða „teoretiska“ þekkingu á fangelsismálum. Einn ungur lögfræðingur mun þó hafa gert sjer nokkurt far um að kynnast þessu í stuttri utanferð í sumar. Jeg hygg, að það megi teljast hið eina fræðilega, sem úr þeirri átt hefir verið gert til úrlausnar málinu. Þegar að því kemur, að leysa verður úr þessum málum, verður því ekki af neinni innlendri reynslu að taka. Því verður að fara eftir reynslu erlendra þjóða, þá helst nágrannaþjóðanna, eftir því sem hjer getur átt við, en sjer í lagi eftir heilbrigðri skynsemi. Jeg skal geta þess, að frá minni hálfu hefir nú verið framkvæmdur lítill þáttur af því, sem gera þarf málinu til undirbúnings, því að húsameistari ríkisins, sem er í skammri utanferð, fjekk það sem eitt af sínum erindum að kynna sjer byggingarlega fyrirkomulag betrunarhúsa á Norðurlöndum.

Þá vildi hv. 3. landsk. skera úr um það, hvort hægt yrði að nota Eyrarbakkaspítala í þessu skyni. Jeg hefi játað það þegar, að málið hefir ekki mikinn „tekniskan“ undirbúning, en jeg held, að það sje siður Alþingis að treysta stjórnunum til að ráða fram úr því, sem vandasamara er en þetta. Og úr því að enginn undirbúningur var gerður af fráfarandi stjórn, þá hefði mátt hugsa sjer, að jeg, sem fyrstur ber þetta mál fyrir Alþingi, mundi ekki telja eftir mjer að láta gera þann undirbúning, sem þörf er fyrir. En vitanlega er það mjög mikil vanræksla af undanfarandi stjórnum að láta þetta mál ganga svo, sem gert hefir verið. — En svo að jeg snúi mjer aftur að Eyrarbakkaspítala, þá get jeg vel játað það með hv. 3. landsk., að ef spítalinn hefði ekki verið til þarna hjá Eyrarbakka, þá hefði sennilega engum dottið í hug að hafa fangelsi þar. Því að Eyrarbakki er ekki nema fáum þeim kostum búinn, sem geri hann allra staða sjálfsagðastan fyrir betrunarhús. Það gæti vel komið fyrir, að stjórnin kæmist að þeirri niðurstöðu, að betra væri að hafa húsið á öðrum stað, að málavöxtum athuguðum, t. d. við heitar laugar í Mosfellssveit eða á einhverjum öðrum stað austan fjalls en Eyrarbakka. En menn verða að minnast þess, að tugir þúsunda kr. úr ríkissjóði eru þarna komnar í byggingu, sem ekki eru minstu horfur á, að nokkurn tíma geti orðið að nokkru gagni, nema hægt væri að nota hana í þessum tilgangi. Og jeg skal geta þess, að einn merkur flokksbróðir hv. þm. hefir látið þá skoðun í ljós við mig í einkasamtali, að a. m. k. sje mjög sennilegt, að nota megi Eyrarbakkaspítala fyrir letigarð. Þá myndi það eflaust vel fallið til þess að geyma þá fanga, sem fengið hafa berklaveiki, þar sem þetta hús var upphaflega ætlað fyrir spítala. Þá talaði háttv. 3. landsk. um það, að engar tölur væru til, sem sýndu það, hve marga húsið þyrfti að taka. En því má svara svo, að ástandið nú er svo, að fangar, sem hafa hlotið dóm, komast ekki nærri strax að til að taka út refsinguna. T. d. er núna maður hjer í Reykjavík, sem dæmdur hefir verið í tveggja ára betrunarhúsvinnu, en verður nú sökum rúmleysis að leika lausum hala. svo er það nærri ávalt, að dómum er ekki hægt að fullnægja nærri strax vegna húsnæðisleysis. Þótt aðstaðan væri ekki bætt meira en svo, að rúm fyrir 10 menn fengist til viðbótar, þá mundi þó oftast vera hægt að fullnægja dómi án tafar. Jeg get upplýst það, að stjórnin hefir orðið að fá rúm í spítala hjer í grend fyrir 5 berklaveika fanga. Og nú eru þeir í byggingu Hjálpræðishersins í Hafnarfirði. Þetta er auðvitað algerlega óviðunandi ástand, sem úr þarf að bæta sem fyrst. Eyrarbakkaspítalinn ætti þó altaf að koma í veg fyrir, að nota þyrfti sjúkrahús eða gistihús fyrir berklaveika fanga. Og sömuleiðis ætti hann að geta tekið á móti þeim föngum, sem fljóta út af betrunarhúsinu hjer.

Jeg skal bæta því við, að þótt reist yrði betrunarhús og letigarður hjer í nánd við Reykjavík, þá vantar þó enn rúm fyrir sakakonur, því að þær gætu alls ekki verið í sömu stofnun, þar sem útivinna karlmanna á að fara fram. Yrðu þær þá að vera hjer í Reykjavík, sem betur fer, eru enn fáar konur, sem vinna til hegningar, en þetta er þó ein hlið málsins.

Um slæpingjahæli eða letigarð er það að segja, að enn vantar skýrslur um, hvað það þyrfti að vera stórt. En mjer er kunnugt um það, að slíkir menn eru orðnir þung byrði á bæjunum, einkum hjer í Reykjavík. Jeg veit, að bæði borgarstjórinn hjer og fleiri eru þess mjög fýsandi, að slík stofnun sje sett á fót, og að þessu máli er fylgt með athygli víða um land, vegna þess að menn finna til þarfarinnar. Jeg get meira að segja glatt hv. 3. landsk. á því, að einn mikilsvirtur fylgismaður hans, prestur, sem var svo trúaður, að hann breytti bæn sinni í kirkjunni, er stjórnarskiftin urðu, hefir þann áhuga fyrir þessu máli, að ekki er vonlaust um, að hann snúist til síns fyrra bænahalds, ef frv. þetta nær fram að ganga.

Niðurstaðan er þá þessi, að allir viðurkenna þörf á nýju fangahúsi. Almenn ósk um að fá letigarð, til að fá menn til að vinna, og þó einkum til að hvetja menn til vinnu, svo að þeir þurfi ekki þangað.

Viðvíkjandi því, að undirbúningur sje ófullkominn, má geta þess, að hjer vantar alla innlenda reynslu í fangelsismálum með útivinnu. Að vísu var hjer um útivinnu að ræða áður, eins og ritgerð dr. Björns Þórðarsonar ber með sjer, en slíkt er fyrir löngu niður lagt.

Mjer þykir rjett að bæta því við nú þegar, þar sem ekki er víst, að jeg taki aftur til máls nú, að ef Eyrarbakki er notaður, þá ætti að mega bæta þar við húsum síðar, einkum peningshúsum, á ódýran hátt, með því að nota vinnu fanganna sjálfra til þess að koma þeim upp.

Þá hefir og verið gerður samningur við Landsbanka Íslands, að ef að þessu ráði verður horfið, þá gefi hann kost á landi, sem er vel fallið til ræktunar og liggur fast að spítalanum. Það heyrir til smájörð, sem Landsbankinn á þar. Mætti því láta fangana vinna bæði að túnrækt og kartöflurækt. Auk þess gæti komið til mála, að þeir væru látnir vinna að vegagerð, hlaða sjóvarnargarða fyrir lönd, sem liggja í hættu fyrir sjávargangi. Á vetrum ýmsa innivinnu, smíðar, vefnað o. fl. Á Englandi og víða erlendis annarsstaðar eru menn látnir vinna slíka vinnu. T. d. eru á Englandi gerð þannig ferðakoffort, sem algeng eru og hingað hafa flutst.

Af þeim rökum, sem hv. 3. landsk. bar fram og jeg skal aðeins minnast á, var uppreisnarhætta sú, sem stafað gæti frá föngunum. Það er nú svo, að ef hafa ætti örugt lögreglueftirlit með föngunum, þá yrði að hafa fangahúsið fast við Reykjavík. En jeg sje ekki annað en að Eyrarbakki sje hentugur hvað það snertir. Þar er fjölment þorp og ávalt nóg heima af karlmönnum. Jafnvel mætti semja svo um, að ávalt væri viss aðgangur að hæfilega mörgum bæjarbúum, ef á þyrfti að halda. — Jeg sje, að hv. 3. landsk. brosir. (JÞ: Það gera fleiri!). Jeg vil þá minna hann á það, að hann áleit einu sinni fært að kalla saman varalögreglu hjer í Reykjavík og víðar. En annars held jeg, að þetta sje ástæðulaus ótti. Hver myndi t. d. hafa, svona fyrirfram, talið það óhætt, að sjúklingar frá Kleppi færu á bíl hjer í gegnum bæinn og væru látnir slá tún í útjaðri bæjarins? Jeg er hræddur um, að það hefði orðið efni í mælska ræðu hjá hv. þm. Hann hefði vafalaust bent á það, að sjúklingarnir myndu stökkva út úr bifreiðunum og myrða varnarlaust fólk með ljáunum. — En þetta er nú gert, og hefir ekki komið að sök. Í Danmörku hafa fangar verið látnir rækta heiðarlönd undir umsjón verkstjórans eins, og hefir það ekki komið að sök. Þetta ætti að geta verið okkur til fyrirmyndar. Auðvitað er ekki hver fangi hæfur til þess að vera í svona vinnu, suma yrði að loka inni. Um strokhættu er naumast að ræða, enda er svo, að sakborningar eru tíðast hafðir lausir, meðan þeir bíða dóms, án þess saki. Enda er svo, að ekki er neinn hægðarleikur að komast til annara landa vegabrjefslaus.

Jeg ætla mjer ekki að reyna til að snúa hv. 3. landsk., enda getur auðveldlega farið svo, þó frv. þetta verði samþ., að sama verði niðurstaðan hjá mjer og honum, að ekki verði aðhafst í bili. En mjer virðist þó ekki ástæða til að draga rannsókn málsins.

0576