07.03.1928
Neðri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Sigurður Eggerz:

Jeg stend upp til að lýsa yfir því, að jeg mun greiða atkv. með hinni rökstuddu dagskrá hv. minni hl. Það hefir ljóslega komið fram í umræðunum, að málið þarfnast betri undirbúnings. Og þótt dagskráin verði samþykt, fæ jeg ekki sjeð, að það geti tafið málið nokkurn hlut. Það er svo margt, sem athuga þarf, að mjer sýnist óhugsandi, að til nokkurra framkvæmda geti komið fyrir næsta þing.

Það er sjálfsagt rjett, að mikil þörf er á nýju hegningarhúsi. En jeg efast um, að hjer sje mjög mikil þörf fyrir letigarð. Jeg er ekki viss um, að reynslan hafi enn sýnt nokkra slíka þörf, og þá er ástæðulaust að koma með löggjöf um efnið. — Um leið vil jeg geta þess, að í breytingu þeirri á hegningarlöggjöfinni, sem liggur fyrir þessu þingi, fanst mjer gæta of mikillar hörku gagnvart hinum svonefndu letingjum. Þetta eru í mjög mörgum tilfellum annaðhvort sjúkir menn eða úrættaðir, sem þurfa eitthvað annað sjer til hjálpar frekar en ströng hegningarlagaákvæði. — Jeg hefi átt tal um það við borgarstjóra þessa bæjar, hvort oft hafi verið notuð ákvæði þau í fátækralögunum, sem svara til þessara nýju ákvæða, og sagði hann mjer, að það hefði verið gert sársjaldan.

Loks vil jeg segja, að mjer finst hæstv. stjórn vel geta tekið á móti hinni rökstuddu dagskrá frá hv. minni hl., þar sem sýnilegt er, að ekkert getur orðið gert í málinu fyr en betri undirbúningur er fenginn.