28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Guðmundsson:

Mjer datt í hug að bregða mjer dálitla stund í eldhúsið hjá hæstv. stjórn og litast þar um, því að jeg á von á, að sumt af eldamenskunni sje ekki í sem bestu lagi.

Fyrst vil jeg snúa mjer að hæstv. forsrh. (TrÞ) með fyrirspurn um, hversu gangi með sjerleyfi Titans til járnbrautar og fossavirkjunar. Eins og kunnugt er voru heimildarlög um þetta efni samþykt á síðasta þingi, og umboðsmaður fjelagsins hjer á landi, Klemens Jónsson, hefir sagt mjer fyrir löngu, að hann hafi fyrir hönd fjelagsins farið fram á að fá sjerleyfið afgreitt, en jeg veit ekki ennþá til, að af því hafi orðið. Fyrir því leyfi jeg mjer að spyrja um fyrirætlanir hæstv. ráðherra í þessu efni. Ætlar hann að veita sjerleyfið, eða ætlar hann ekki að gera það?

Það er vissulega fult tilefni til að spyrja um þetta, með tilliti til þess, að hæstv. forsrh. var á síðasta þingi mjög andsnúinn þessu máli, og ljet jafnvel þá skoðun sína í ljós, að hættulegt gæti verið að veita leyfið. Jeg skil því, að hæstv. ráðh. sje hjer í nokkrum vanda staddur, en hvernig sem um það er, þá skilst mjer, að Alþingi eigi kröfu á að fá að vita, hvað hæstv. ráðh. hygst fyrir í þessu máli, því að jeg er þess fullviss, að fjöldi manna lítur svo á, að hinar stórfeldu bætur — áveiturnar austan fjalls — muni ekki koma að tilætluðum notum, nema samgöngur við þau hjeruð sjeu verulega bættar. Og jeg er þeirrar skoðunar, að járnbraut sje hið eina, sem dugir til langframa.

Annars vil jeg í þessu sambandi láta í ljós óánægju mína yfir þeirri stefnu, sem mjer virðist hæstv. forsrh. þegar hafa tekið í samgöngumálum. Hann vill byggja nýtt strandferðaskip, en jafnframt er í fjárlagafrv. hæstv. stjórnar lagt til, að dregið sje mjög mikið úr samgöngubótum á landi. Þessa stefnu tel jeg alveg ranga. Jeg lít svo á, að alt, sem gert hefir verið á síðustu árum til viðreisnar landbúnaðinum, og það, sem enn kann að verða og eflaust verður gert, komi að tiltölulega litlum notum, nema jafnframt verði bættar stórkostlega samgöngurnar á landi. Jeg hefi oft tekið þetta fram áður í þessum sal, en það verður aldrei of oft endurtekið. Bættar samgöngur eru hornsteinn allra annara framfara. Þetta á vitaskuld við samgöngur á sjó og landi, en hjer hjá oss er þeim málum þannig farið, að samgöngurnar á sjó eru komnar miklu lengra áleiðis en samgöngurnar á landi. Það verður ef til vill ástæða til að fara nánar inn á þetta þegar frv. um hið nýja strandferðaskip kemur hjer til umr. En jeg nota tækifærið til þess að skora á hæstv. ráðh. (TrÞ) að beita sjer fyrir því, að það fje, sem ætlað er til samgöngubóta á landi í frv. því, sem hjer er til umr., verði stórum aukið frá því, er frv. gerir ráð fyrir. Það er undarlegt að sjá það ekki, að þegar bændur á afskektum stöðum fá styrk til jarðabóta og lán til húsabóta, þá er mikill hluti tekinn aftur með hinni hendinni, meðan ekki er af ítrasta megni sjeð fyrir því, að þeir geti komið afurðum sínum frá sjer og byggingarefni og öðrum nauðsynjum að sjer með kleifum kostnaði.

Þá vil jeg leyfa mjer að minna hæstv. forsrh. á nokkur atriði, þar sem hann hefir, síðan hann varð ráðherra, alveg brotið í bág við þá skoðun, sem hann ljet uppi meðan hann var ritstjóri. Jeg sný því aðallega máli mínu til hans sem formanns stjórnarinnar, en hið sama á eflaust við hæstv. dómsmrh. (JJ), enda mátti óhætt telja hann meðritstjóra hæstv. forsrh., ef ekki yfirritstjóra.

Fyrsta atriðið, sem jeg vil minnast á, er sendiherratildrið, eða legátafarganið, sem hæstv. forsrh. hefir margoft minst á í blaði sínu. Jeg minnist þess, að eitt sinn, sem oftar, spurði hæstv. ráðh. í blaði sínu, hvenær hjer mundi koma stjórn, sem hefði kjark og dug til þess að losa landið við legátafarganið, þessa rándýru og alóþörfu tildursherra. Hann fór ekki leynt með það, að ef hann ætti að ráða um þau mál, mundi ekki standa á að losa landið við þann kostnað. Nú er hann orðinn utanríkisráðherra landsins og ræður því yfir þessum málum. Maður skyldi því ætla, að hann hefði látið það verða eitthvert sitt fyrsta verk að koma breytingu á þetta. En svo var ekki. Þótt hann hafi árum saman skammað íhaldsstjórnina svo að segja vikulega blóðugustu skömmum fyrir bruðlunarsemina í þessu, hjegómann, tildrið og óþarfann, þá tekur hann í fjárlagafrv. upp óbreyttar tillögur fyrv. stjórnar í þessum efnum.

Það er auðvitað, að jeg tek þetta ekki fram til þess að ámæla hæstv. ráðh. (TrÞ) fyrir það, að hann hefir tekið þessar fjárveitingar upp í frv., heldur til að sýna, að vindhaninn hefir snúist, og hlýtur það að vera annaðhvort af því, að sannfæringin hefir breytst, eða af því að aldrei hefir verið til nein sannfæring hjá honum í málinu, og því gæti jeg best trúað, því að hæstv. ráðh. (TrÞ) þekti ekkert til þessara mála, fyrst er hann tók að rita um þau og fella um þau hina venjulegu sleggjudóma sína. Jeg get ekki neitað, að jeg hálfvorkenni hæstv. ráðh., þegar fyrr í skoðanir hans í þessu máli eru bornar saman við núverandi verknað hans. Mætti þetta vera honum áminning um, að það er annað að gaspra ábyrgðarlaus en að bera ábyrgðina.

Í sambandi við þetta mál get jeg ekki stilt mig um að nefna annað dæmi frá ritstjórnartíð og stjórnartíð hæstv. ráðh.

Þegar Jón sál. Magnússon hafði á hendi utanríkismál vor, tók hann sjer til aðstoðar við þau ungan og efnilegan lögfræðing hjer í bænum, sem hafði kynt sjer þessi mál erlendis. Þetta vítti þáverandi ritstjóri Tímans, núverandi forsætisráðherra, mjög í blaði sínu og fór um það mörgum háðslegum orðum; nefndi aðstoðarmanninn „litla utanríkisráðherrann“ o. fl. En hvað gerir hæstv. ráðh., þegar hann tekur við stjórn utanríkismálanna? Hann tekur sjer þegar aðstoðarmann. Hann gerir nákvæmlega það sama, sem hann hafði vítt fyrirrennara sinn fyrir. Hjer kemur hið sama fram og áður. Ráðherrann og ritstjórinn eru algerlega ósammála, eins og tvær óskyldar persónur, eins og óvinir, eins og bitrustu fjandmenn. Enginn galdramaður hefði getað breytt ritstjóranum meira en hann hefir breytst við að verða ráðherra.

Næst vil jeg minnast nokkrum orðum á gengismálið. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að á undanförnum þingum hefir hæstv. ráðh. (TrÞ) sett það mál efst allra mála; það hefir verið að hans sögn mál málanna. Á undanförnum þingum gat hann varla haldið svo nokkra ræðu, að hann kæmi ekki inn á gengismálið. Alstaðar var það Þrándur í Götu. Honum fanst eiginlega ekkert hægt að gera, jafnvel ekki í tollmálum til bráðabirgða, nema festa gengið fyrst. Meðan gengið var sem lægst, klifaði hann stöðugt á „bölvun“ lággengisins. Jeg man t. d. eftir grein í Tímanum 1922 eða 1923, þar sem sýnt var fram á skaðann, sem maður, er fór utan, hefði haft af lággenginu. Þá var ekki um það að tala að festa gildið; þá þótti sjálfsagt að hækka krónuna. Svo hækkaði hún, og þá fyrst rofaði fyrir sálarsjónum hæstv. ráðh., þá fyrst komst hann að raun um það, sem allir vissu áður, að án erfiðleika og átaka atvinnulífsins gat hækkun ekki farið fram. Frá þeim degi, er hann sá þetta, varð hann stýfingarmaður, og fylgdi málinu svo fast fram á undanförnum þingum, sem jeg hefi áður lýst.

Þannig er nú fortíð hæstv. ráðh. í þessu máli, og er þá að athuga, hvort nokkur hamskifti hafa orðið, er ritstjórinn varð ráðherra. Er þá fyrst að athuga stjórnarmyndunina og verkaskiftinguna milli ráðherranna. Gengismálið heyrir, eins og kunnugt er, undir fjármálaráðherrann. En hvern gerði hæstv. ráðh. að fjármálaráðherra sínum? Hann gerði ákveðnasta andstæðing stýfingarinnar í flokknum að fjármálaráðherra, og jeg veit með vissu, að það var að mestu leyti að þakka hæstv. forsætisráðh., að þetta varð. Jeg segi, að þetta hafi verið hæstv. forsætisráðh. að þakka, af því að í stjórnarflokknum er enginn, sem jeg ber meira traust til en hæstv. fjmrh. (MK). Hitt er annað mál, hversu mikil heilindi það sýnir við gengismálið, að velja eindreginn andstæðing sinn í því máli til þess að fara með æðsta vald í því. Enginn þarf að ímynda sjer, að hæstv. forsrh. hafi getað búist við því að geta kúgað hæstv. fjármálaráðh. í málinu. Til þess eru þeir báðir of vel þektir hjer á þingi. Aðferð hæstv. forsrh. við stjórnarmyndunina minnir í þessu efni talsvert á ferðalag hans fyrir síðasta landskjör, er hann fór sunnan um land til þess að mæla með landskjöri hæstv. fjármálaráðherra (MK) og prjedika með stýfingu samtímis og hæstv. fjármálaráðh. fór sjálfur norður um land í kosningaerindum og mælti á móti stýfingu.

Eftir framferði hæstv. forsætisráðh. á undanförnum þingum mundu allir hafa búist við, að fyrsta stjórnarfrumvarpið, sem sæist frá hendi stjórnar hans, mundi verða stýfingarfrumvarp, eða verðfestingarfrumvarp, en nú er komið á annan mánuð síðan þing var sett, og sjest þó hvorki á horn eða klaufir þessa frv. Ekki átti þó fyrirhöfnin að vera mikil, því að skrifin voru til frá undanförnum þingum.

Af nýútkomnu eintaki stjórnarblaðsins þykist jeg sjá, að ekki sje tilgangurinn að koma með stýfingarfrumvarp á þessu þingi, og er það fært sem ástæða, að nú þurfi þess ekki með, af því hversu ágæt stjórnin sje og það sje engin ástæða til að „binda hana með lögum“ og það eigi ekki að gera fyr en „ýms skilyrði sjeu fyrir hendi, svo sem góð afkoma þegnanna og ríkissjóðsins og hagstæð viðskifti við aðrar þjóðir.“

Jeg geri ráð fyrir, að gleymst hafi í grein þessari að undantaka hæstv. fjármálaráðherra frá lofinu um stjórnina. —

Aftur á móti kann það að vera rjett, að ekki sje ástæða til að binda hæstv. stjórn með lögum, því að það hefir sýnt sig, að þau binda ekki fast alla hennar meðlimi.

En ef treysta má orðum stjórnarblaðsins, þá þurfa stýfingarmenn ekki að vænta stýfingar fyr en saman fer góður hagur ríkissjóðs og almennings og hagkvæm viðskifti við útlönd, og uggir mig, að það geti þá dregist nokkuð lengi, og ef til vill fram yfir tíð núverandi stjórnar.

Þá er að athuga, hvort þessi yfirlýsing stjórnarblaðsins, sem jeg tek sem skoðun stjórnarinnar á málinu, ef ekki er mótmælt, er í samræmi við framkomu hæstv. forsætisráðh. áður. Verður mjer þá fyrir að leita í frv. um stýfingu frá fyrri þingum og athugasemdum við þau. Í athugasemdunum við frv. 1926 finn jeg þetta :

„Opinber yfirlýsing þarf að koma fram á Alþingi um það, að ákveðið sje að festa endanlega verðgildi krónunnar. Tel jeg brotaminst, að sú yfirlýsing komi fram sem breyting á lögunum um gengisskráning og gjaldeyrisverslun. Jafnframt þarf sú lagabreyting að fela í sjer heimild fyrir landsstjórnina til þess að veita bönkunum allan þann fjárhagsstuðning, sem til þess þarf að framkvæma festinguna, sem fæli það í sjer, að seðlaútgáfunni yrði hagað með þetta markmið fyrir augum. Áhættunni“ (á líklega að vera áhættuna) „af gjaldeyriskaupum og sölu, af því að halda genginu föstu, yrði ríkið að taka á sig og ljetta af bönkunum að töluverðu leyti“.

Svo mörg eru þessi orð, og þannig hljóða þau. Svona leit málið út fyrir sjónum hv. þm. Str. (TrÞ) 1926, Þá taldi hann þurfa opinbera yfirlýsingu frá Alþingi um verðbreytinguna. Nú bólar ekki á neinu slíku. Þá taldi hann þurfa lagabreytingu til þess að heimila stjórninni að greiða 3/5 af væntanlegu gengistapi. Nú er ekki á þetta minst.

Einnig hjer kemur því fram maðurinn með tvö andlitin, og vita þau sitt í hvora áttina eins og á gamla latneska goðinu. Einnig hjer fer fram myndbreyting um leið og ritstjórinn verður ráðherra. Jeg vil þó, hæstv. ráðh. til málsbóta, taka það fram, að jeg get vel ímyndað mjer, að hann sje ekki sjálfráður gerða sinna í þessu máli. Jafnaðarmennirnir hjer á þingi, sem alment eru kallaðir yfirráðherrar, af því að þeir hafa líf stjórnarinnar í hendi sjer, munu ef til vill sýna þann ójöfnuð, þótt ótrúlegt kunni að þykja um „jafnaðarmenn“, að vera á móti stjórninni í þessu máli, og þá fer að verða skiljanlegra, að hæstv. ráðh. sje ekki eins gráðugur í stýfingu og hann hefir verið undanfarið. Þó verður því ekki neitað, að ömurleg og vesaldarleg er myndin af forsætisráðherranum, sem jarðaði áhugamál sitt til þess að geðjast öðrum flokki on halda sjer við völd.

Það, sem jeg hefi sagt hjer, hefi jeg tekið fram til þess að sýna hamskiftin hjá hæstv. ráðh., en engan veginn af því, að jeg óski eftir frv. í þessa átt. Yfirleitt læt jeg mig það litlu skifta, hvort frv. kemur fram eða ekki, því að það mundi sennilega felt, ef fram kæmi. Jeg hefi tekið þetta fram af því, að engum stjórnmálamanni má haldast uppi óátalið að ganga í berhögg við sjálfan sig, þótt hann komist í ráðherrasess.

Þá vil jeg nefna mál, sem hæstv. stjórn hafði mjög á oddinum við síðustu kosningar, og það voru Spánarsamningarnir og fækkun útsölustaða Spánarvínanna. Eins og kunnugt er, var háð um þetta hörð rimma á síðasta þingi, og minnisstæðar munu vera árásirnar á hv. 6. landsk. (JKr) fyrir hvernig hann greiddi atkvæði í því máli. Og út af þessu máli var reynt fyrir síðustu kosningar að koma því inn hjá kjósendum landsins — og það er hæstv. dómsmrh. (JJ), sem mest hefir fyrir því gengist —, að Íhaldsflokkurinn vildi veita sem mestu vínflóði yfir landið. Kunnugir vissu, að þetta var ekki annað en atkvæðaveiðar. Það voru blekkingar til þess að ná í atkvæði á kjördegi. Það er stórfeld tilraun til þess að falsa framkomu Íhaldsflokksins í augum almennings. Þetta var mögulegt af því, að flokkurinn var sjer meðvitandi þeirrar ábyrgðar, sem á honum hvíldi, og hann leit svo á og lítur svo á enn, að það sje ósamboðið hvaða stjórnmálaflokki sem er að hafa alþjóðamál að leiksoppi í flokksþágu. Flokkurinn vildi heldur eiga á hættu að verða ranglega dæmdur meðal kjósenda en að bregðast skyldu sinni. Hefði hann viljað leika skollaleik, hefði ekkert verið hægara en að lofa öllu fögru, draga framkvæmdir fram yfir kosningar og bregðast svo loforðunum. En flokkurinn vildi ekki setja blett á sig með þessu, jafnvel þótt hann hefði með því getað fengið nokkrum hundruðum atkv. fleira við kosningarnar. Þessi var þá afstaða Íhaldsflokksins, og er þá eftir að athuga afstöðu hæstv. dómsmrh. og hans flokks til málsins, og skal það nú gert. Jeg tek hjer afstöðu hæstv. dómsmrh. sjerstaklega, af því að hann hefir mest komið við þetta mál af flokksbræðrum sínum og var sá eini þeirra, sem hafði kjark til að vera svo ábyrgðarlaus að greiða atkv. gegn Spánarsamningnum. Það er þessi hæstv. ráðh., sem mest hefir barist fyrir því að koma því inn í meðvitund landsmanna, að Íhaldsflokkurinn væri að miklu leyti samansettur af drykkjurútum, sem vildu veita sem mestu Spánarvínsflóði yfir landið. Og hann fjekk kærkomið tilefni til þess rjett fyrir síðustu kosningar, þar sem var tillaga um endurskoðun Spánarsamninganna og fækkun vínútsölustaðanna. Í atkvæðagreiðslunni um þessi mál taldi hann sig hafa bitrust vopn á Íhaldsflokkinn.

Það er því ekki nema maklegt, að athugaðar sjeu gerðir hans síðan hann tók við ráðherraembættinu, sjerstaklega af því að skapanornirnar löguðu rás viðburðanna þannig, að hann varð yfirmaður þessara mála.

Fyrst er þá að minnast þess, að á síðasta þingi greiddi hann atkv. bæði með endurskoðun Spánarsamninganna — sem var sama og uppsögn þeirra — og fækkun vínútsölustaða. Hefir nú hæstv. ráðh. (JJ) staðið við þessa atkvæðagreiðslu sína, er hann fjekk æðstu stjórn þessara mála? Nei, og aftur nei. Útsölurnar eru jafnmargar í dag og þegar hæstv. ráðh. tók við völdum, og Spánarsamningarnir hafa hvorki verið teknir til endurskoðunar nje þeim sagt upp. En hæstv. ráðh. hefir gert annað. Hann hefir í blaði sínu ritað grein (í Tímanum 15. okt. f. á.), þar sem hann segir:

„Spánarsamninginn verður að halda þangað til yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar, vitandi vits, afræður að breyta honum“. Og í sömu grein segir hann: „Eins og skapferli Íslendinga er háttað, eru þeir lítt hæfir í veislum og mannfagnaði án einhverrar örfunar.“ Og enn segir hann: „Í þessu efni eiga allar stjettir sammerkt, eins og komið er. Vínnautn bænda, sjómanna, lækna og lögfræðinga er hin sama. Engin stjett getur í þessu efni kastað steini að nábúanum“.

Í þessum tilfærðu orðum felst það, að Spánarsamningunum vill hæstv. ráðh. eigi hrófla við, nema það sje samþykt af yfirgnæfandi meiri hluta með þjóðaratkvæði. En á þinginu í fyrra mintist hann ekki á þjóðaratkvæði. Hann rumskast fyrst í þessu, þegar hann er orðinn ráðherra. Auðvitað er betra seint en aldrei, en hætt er þó við, að hann verði grunaður um, að hann hafi vitað betur áður og að hann hafi notað þetta mál til pólitískra sjónhverfinga, því að til þeirra hættir honum mjög og um það brot er hann margsekur.

Ummæli hæstv. ráðh. um, að Íslendingar sjeu tæpast veisluhæfir vegna skaplyndis síns, nema þeir fái sjer í staupinu til glaðnings, eru brosleg, og þetta er áreiðanlega í fyrsta sinn, sem landsmenn eru úr ráðherrasessi hvattir til að vera sætkendir eða slompfullir í veislum. Það liggur því næst að segja, að þessi hæstv. ráðh. vilji veita vínflóði yfir landið í miklu stærri stíl en áður hefir þekst. Hann ætti því að hætta að bera slíkar sakir á Íhaldsflokkinn. Sú sök hvílir á honum sjálfum. Meira að segja er þessi áðurnefnda grein hæstv. ráðh. þannig rituð, að næst liggur að skilja hana svo, að við eigum að fylgja dæmi ýmsra Suðurlandaþjóða og drekka vín eins og Englendingar drekka te og við hjer á landi drekkum kaffi og mjólk. Annars verð jeg að segja hæstv. ráðh., að jeg sje mjer alls ekki fært að hlýða þessari ráðleggingu, því að ef jeg ætti að drekka Spánarvín eins og Suðurlandaþjóðir eða eins og jeg drekk kaffi, væri jeg drukkinn á hverjum degi, og það þykir mjer ekki fýsileg tilhugsun.

Hæstv. ráðh. segir, að allar stjettir í landinu eigi sammerkt um drykkjuskap, en áður hefir hann haldið því fram, að það væri Íhaldsflokkurinn, sem svelgdi vínið, og varla aðrir. Er það vel, að ráðh. hefir að fyrra bragði etið í sig þessi ósannindi — eða drukkið þau í sig — ef hann vill heldur orða það þannig.

Jeg tók það fram áðan, að útsölustöðum Spánarvína hefði ekkert verið fækkað síðan hæstv. dómsmrh. tók við völdum. Og á þessu þingi hefir komið fram till. um að rannsaka, hvort hægt væri að gera þetta. Afdrif þeirrar tillögu eru í svo fersku minni, að ekki þarf hjer um þau að ræða, en það er eftirtektarvert, að það sama atriði, sem í fyrra þótti sjálfsagt að skora á stjórnina að framkvæma skilyrðislaust, þykir nú nauðsynlegt að skipa nefnd til að rannsaka.

Auðvitað dettur mjer ekki í hug að ásaka hæstv. ráðh. fyrir, þótt mál þetta verði rannsakað. Því fer fjarri. En það, sem jeg tel ásökunarvert, er það, að nota eitt af stórmálum þjóðarinnar til þess að blekkja kjósendur með; það er óheiðarleg stjórnmálamenska og þeim, sem þannig fara að, getur ekki haldist það uppi óátalið.

Enn er eitt atriði, sem jeg veit ekki, hvort jeg á heldur að beina að hæstv. forsætisráðh. eða hæstv. dómsmálaráðh., en ef til vill er rjettast að beina því að þeim báðum. Þetta atriði er það, að í apríl í fyrra flutti blað þeirra ákaflega harðorða skammagrein um þáv. hæstv. fjmrh. (JÞ) fyrir það, að hann hefði í fjárlagafrv. sínu fyrir árið 1928 áætlað tekjur af gengisviðauka, þótt lögin um hann giltu aðeins til ársloka 1927. Þetta kölluðu þeir ritstjórarnir „hneyksli“ og „afglöp“ og sögðu, að „einsdæmin væru verst“. Með þessari röksemdaleiðslu komust þeir að því, að fyrv. stjórn hefði lagt fyrir þingið frv. með miklum tekjuhalla, og „það má aldrei eiga sjer stað“, sögðu þeir.

Nú er fróðlegt að athuga, hvort hæstv. ráðherrar hafa að því, er snertir frv. til fjárlaga fyrir árið 1929, gert sig seka í hinu sama. Jeg undantek hjer hæstv. fjármálaráðh., af því að mjer er ekki kunnugt um, að hann hafi átt neinn þátt í ritstjórn Tímans.

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að um verðtollinn er þannig ástatt, að lög þau, er heimila að krefja hann inn, gilda aðeins til ársloka 1928. Hið sama er um gengisviðaukann.

Nú er því spurningin: Hefir hæstv. stjórn áætlað tekjurnar 1929 eins og lögin um verðtoll giltu lengur en til 1928. Ef hún hefir gert þetta, þá er það að dómi ritstjóranna „hneyksli“ og „afglöp“. Það vil jeg minna hv. deildarmenn á.

Til þess að sannfærast um þetta, fletti jeg upp fjárlagafrv. fyrir árið 1929. Þar er áætlaður verðtollur, 600 þús. kr., og af öðrum liðum fjárlagafrv. sje jeg, að áætlað er með gengisviðaukanum. Hjer fer því enn fram hið sama og í ýmsum öðrum málum; þegar ritstjórarnir verða að ráðherrum, þá verða þeir að umskiftingum og fremja þann verknað sjálfir, sem þeir áður hafa kallað „hneyksli“ og „afglöp“. Og eigi að nota sömu röksemdaleiðslu og þeir notuðu í fyrra, hafa þeir nú lagt fram frv. til fjárlaga með á aðra miljón kr. tekjuhalla a. m. k. Þetta er það, sem eftir orðum þeirra sjálfra má aldrei koma fyrir.

Enn dettur mjer í hug eitt dæmi, og það er þetta: Í fyrra henti fyrv. stjórn það, að hún áætlaði 100 þús. kr. of lága upphæð til styrkveitinga samkvæmt jarðræktarlögunum. Þetta gripu oftnefndir tvímenningar á ritstjórnartrjehestinum auðvitað á lofti og reyndu að notfæra sjer þetta á þann veg, að íhaldsmenn vildu draga úr öllum fjárveitingum til bænda. Ástæðan til þessarar skökku áætlunar, sem jeg verð að taka á mitt bak, var sú, að jarðræktarframkvæmdir höfðu aukist miklu meira vegna jarðræktarlaganna en jeg hafði gert ráð fyrir eða búist við, og er það í sjálfu sjer mjög gleðilegt. En hvernig hefir þá farið fyrir eftirmanni mínum, hæstv. núverandi atvmrh. (TrÞ)? Hann mun þó ekki hafa lent í sama pyttinum og jeg? Ójú, hann hafði lag á því að smokka sjer í sama pyttinn, þótt hann hefði fordæmt mig fyrir það, og ekki nóg með það, heldur hefir hann dottið enn dýpra, hví að samkv. áætlun hv. fjárveitinganefndar er áætlun hans um þennan lið 120 þús. kr. of lág. Sannast hjer, að við ber það, að „sjer grefur gröf þó grafi“.

En jeg þarf að víkja aftur að áætlun fjárlagafrv. og tekjulöggjöfinni og gera grein fyrir, hvers vegna jeg undantek hæstv. fjármálaráðh. ávítunum. Það var af því, að jeg tel það heimilt að áætla eins og fyrv. og núv. stjórn hefir gert, enda hefir það verið gert áður. Þegar stjórn leggur til, að gildandi lög sjeu framlengd, þá tel jeg ekkert rangt í að taka tekjurnar upp í áætlun. Þetta er ástæðan til þess, að ávítur mínar ná ekki til hæstv. fjármálaráðh. Hann hefir mjer vitanlega aldrei látið uppi, að þessi aðferð væri röng. Það, sem jeg ávíta, er því einungis veðrabrigðin, hamskiftin, hringsnúningurinn hjá hinum ráðh. (TrÞ og JJ). Þeir víla ekki fyrir sjer að taka þátt í því, sem þeir áður hafa kallað „hneyksli“ og „afglöp“.

Margt fleira mætti telja, til þess að sýna hin pólitísku fataskifti ráðherra þessara, en í þetta skifti þykir mjer ekki ástæða til að halda hjer sýningu á meiru af hinum pólitísku ræflum, sem þessir hæstv. ráðherrar klæddust í fyrir síðustu kosningar. Þeir hafa nú sjálfir rifið sundur þessi klæði sín og í öllum þeim tilfellum, sem jeg hefi nefnt, íklæðst brúkuðum fötum íhaldsmanna, og hefi jeg ekkert við það að athuga, eins og nærri má geta, heldur lýsi jeg yfir því, að þeim er velkomið að lána flíkurnar, en skila verða þeir þeim aftur í gildu standi eða með fullu álagi, og ekki kæmi mjer það á óvart, þó að þeir yrðu á næsta kjördegi að borga álagið með nokkrum hundruðum eða þúsundum atkvæða, því að kjósendur munu sjá og skilja, að í sumar sem leið, þegar þeir komu á atkvæðabiðilsbuxunum, þá voru þær öðruvísi en ráðherrabuxurnar, sem þeir nú eru komnir í, er þeir fara með þau mál, sem jeg hefi nefnt.

Til þess að koma í veg fyrir misskilning, vil jeg taka það fram, að mjer dettur vitaskuld ekki í hug að halda því fram, að þessir hæstv. ráðh. (TrÞ og JJ) hafi haft pólitísk fataskifti í öllum málum, en jeg hefi hjer tekið mjer fyrir hendur að sýna nokkur dæmi hamskiftanna. Jeg hefi tekið þetta fram, til þess að sýna fram á, að þeir hafa í þessum málum siglt undir fölsku flaggi á atkvæðaveiðum sínum í sumar.

Jeg finn ástæðu til þess að taka þetta fram sjerstaklega, af því að jeg sje af nýútkomnum blöðum þessara ráðh., að þeir reyna að snúa skýrslu okkar íhaldsmanna um hringsnúninginn þannig, að við ámælum þeim fyrir að hafa snúist. En svo er ekki. Við ámælum þeim ekki fyrir það, heldur fyrir hitt, að þeir komu ekki til dyranna eins og þeir voru klæddir.

Jeg skal þá ekki hafa þetta mál mitt lengra að sinni, en hefði jeg átt að velja einkunnarorð því fáa, sem jeg hefi sagt hjer, mundu þau hafa orðið þessi: Svikin loforð.