28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

1. mál, fjárlög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg get ekki annað en dáðst að hv. fyrv. samdeildarmanni mínum (JJós) fyrir þrent í þessari ræðu hans. Í fyrsta lagi fyrir það, hve lengi hann talaði um lítið efni; í öðru lagi fyrir það. hvað hann var lítið skemtilegur, því að það var hann oft meðan við vorum í efri deild saman, og loks í þriðja lagi fyrir það, hve skýrt það kom fram, að hann hefði á tilfinningunni, að hann væri að tala um dautt mál.

Hv. þm. hefði getað sparað sjer alla þessa löngu ræðu, því að jeg býst við, að þetta mál verði til þriggja umræðna hjer í deildinni. En það sýnir, hve Íhaldsmenn hafa af litlu að taka, þegar þeir grípa til þess óyndisúrræðis að jeta röksemdirnar út fyrirfram. Annars hugsa jeg, að hv. þm. Vestm. og aðrir, sem hæst hafa látið um þetta launamál, hafi ekki eins mikla ánægju af því og þeir hafa búist við. Þegar það vitnaðist í haust, að skipverjum væru ekki veitt embættin, ætlaði Íhaldið að rifna af gremju og gauragangi. Þessi ólæti hafa síðan stöðugt farið smádvínandi, og það bendir til þess, að þetta mál þyki nú ekki eins sigurstranglegt fyrir Íhaldið og í upphafi, og svo var runninn af Íhaldsmönnum móðurinn, að þegar jeg lagði fram frv. um varðskipin í hv. Ed., tóku Íhaldsmenn því með ró og spekt, enda þótti bæði þessum hv. þm. og sumum hinum æstari flokksbræður hans í Nd. þetta sýna mikinn ódugnað hjá flokksbræðrum þeirra í Ed.

Þá var mikið um það talað um eitt skeið í Morgunblaðinu og víðar, að draga mig fyrir landsdóm vegna afskifta minna af þessu máli. Nú hefir verið haldin tveggja tíma ræða um málið, en ekki minst einu orði á landsdóm. Jeg hefi jafnan sagt, þegar Íhaldið hefir talað um landsdóminn: Blessaðir, komið þið með landsdóm. Við samþykkjum tilraunamál á hv. 1. þm. Skagf. (MG) fyrst. Ef það hefir verið ósaknæmt að hafa mennina skrásetta fyrri part sumars. þá hlýtur það líka að vera ósaknæmt seinustu mánuði ársins. En Íhaldsmenn vita líklega sem er, að þeim yrði lítill fögnuður að þessum landsdómi. Hv. 1. þm. Skagf. yrði sennilega ekki dæmdur, og þá jeg ekki heldur, og þá er alt til einskis unnið.

Jeg ætla þá að rekja nokkuð gang málsins. Það átti nú ekki að biðja guðum lítið, þegar Íhaldið samþykti varðskipalögin í fyrra. Alla skipverja, frá þeim hæsta til hins lægsta, átti að gera að embættismönnum. Kolamokarar áttu að hafa hærri laun en prestar í sveit. Yfirmenn áttu að hafa 12 þús. kr. á ári æfilangt og alt frítt. Þetta mál var sótt með mikilli frekju í Ed., og gekk þó háttv. þm. Vestm. lengst í frekjunni. Þessi umhyggja fyrir landhelgigæslunni er annars dálítið mislit hjá Íhaldinu. Bistrup, fyrverandi varðskipsforingi hjer við land, skrifar í danskt blað um það, að ekki sje unt að taka íslenska togara í landhelgi, vegna þess, að þeir sjeu jafnan aðvaraðir úr landi með loftskeytum. Þegar stjórnin ber nú fram frv. um að hindra þessa óhæfu, á þann hátt, er bestu sjerfræðingar, er völ var á, töldu heppilegast, þá ætlar Íhaldsflokkurinn snarvitlaus að verða yfir þessu ódæði, að ætla að banna að senda togurunum skeyti um ferðir varðskipanna. Það var öllu líkara, að togaraeigendur og fiskkaupmenn, sem hefðu eigin hagsmuna að gæta og vissu um sekt sína í landhelgimálinu, gengju þar fram fyrir skjöldu í Íhaldsflokknum heldur en íslenskir borgarar, sem vildu líta á gagn og sóma landsins. Morgunblaðið birtir níðgreinar um mig og hv. flm. (SvÓ) fyrir að vilja koma í veg fyrir þessa smán, og einn togaraeigandi, sem sæti á hjer í þinginu og er æstur Íhaldsmaður, hefir skrifað dónalegustu greinarnar um málið. Hvernig á nú að samræma þennan áhuga fyrir hærri launum skipsmanna, og svo þann bægslagang, sem verður, þegar reyna á að hindra glæpi, sem eru margsannaðir og játaðir? (JJós: Hvaða glæpi?). Jeg hefi mína skoðun á þessum áhuga um að festa mennina í þessum embættum æfilangt, þegar jeg sje annarsvegar fjandskapinn gegn því að hindra þetta glæpsamlega athæfi, hinar margsönnuðu veiðar íslensku botnvörpunganna í landhelgi og viðleitni Íhaldsmanna að hindra varnir gegn þeim brotum. Mer þætti gaman að heyra hvernig hv. þm. Vestm. vildi skýra samræmið þar á milli. Jeg held, að það sje vegna þess, að hann tæki ekki sárt, þótt embættissvefninn kæmi nærri þessari stjett, að honum er svo mjög hugað um, að embættin verði veitt æfilangt. Jeg skal geta þess, að einn fiskkaupmaður í bænum, sem háttsettur er í Íhaldsflokknum. sagði mjer frá því fyrir skömmu, að veiðst hefðu 20 þús. skpd. af fiski á íslenska togara á vissum stöðum innan landhelgi í fyrra, en ekkert í ár, vegna þess, að nú er þar varðbátur, sem stjórnin hefir kostað með 15 þús. kr. Þessum íhaldsmanni þótti það röng ráðstöfun og skaðleg að koma í veg fyrir þessar veiðar framvegis. Spurði hann mig, hvort jeg hjeldi, að þorskurinn, sem veiddist þar í fyrra, myndi hafa komið aftur í ár. Jeg sagðist ekki búast við því, en benti honum á, að heiður landsins lægi við, að komið væri í veg fyrir landhelgiveiðar ísl. togara, og þessi íhaldsmaður sannfærðist loksins um, að svo væri. Jeg veit ekki, hvar íhaldsstjórnin hefir haft varðskipin meðan þessi 20 þús. skpd. voru veidd. Ef til vill hafa þau verið í snattferðum, þyngdarpunkturinn í Óðni týndur eða brotin vjelin í Þór, enda þótt Vestmannaeyingar gengju nú vel frá honum, Fiskikaupmenn og togaraeigendur þykjast hafa brennandi áhuga á landhelgivörnum, en bregðast öfugir við, þegar á að stíga spor til að efla þær, ef íslenskir lögbrjótar lenda í aukinni hættu. En vjer, almennir borgarar, sem lítum hlutlausum augum á málið, vjer, sem höfum skömm á því, að fyrv. ráðh. sje leppur steinolíufjelags, sem hættulegt er sjálfstæði landsins, lítum sömu augum á ódæði togaraeigenda og þjófnað eða kosningafölsun. Á þessum breiða grundvelli hvílir þetta mál, og á þessum breiða grundvelli verður það að útkljást.

Hæstv. forsrh. (TrÞ) hefir nýlega borist brjef frá sendiherra vorum í Kaupmannahöfn um Ohm-málið, og þess getið, hvílíkt gagn aðgerðir stjórnarinnar í því máli hafa unnið málstað vorum í Englandi. Og jeg býst við, að það sýni sig, hvorir hafa á rjettara að standa, þeir, sem líta hlutlausum augum á málið, eða togaraeigendur og fiskkaupmenn.

Hvernig var nú umhorfs í stjórnarráðinu, þegar jeg tók þar við af hv. 1. þm. Skagf. (MG)? — Rjett eftir stjórnarskiftin er komið á borð mitt með mikinn skjalabunka, og þegar jeg fer að athuga, hvað hjer sje á seiði, sje jeg, að þar er efst á blaði nafn annars skipstjórans, sem átti að fá 12 þús. kr., og svo öll runan niður á við og vantaði ekkert nema nafn ráðherrans undir. Mjer þótti þetta nærri eins merkilegt og fólkinu í Miðfirði, þegar draugurinn kom þar á dögunum. Hvað hafði komið fyrir háttv. 1. þm. Skagf., sem hafði látið halda fundi fram á nótt í fyrra til að fá lögin samþykt, en svo ekki veitt þessi dýrmætu embætti, þótt hann hefði til þess nálega alt sumarið? Nú er það kunnugt, að hv. 1. þm. Skagf. er góður skrifstofumaður, og sama daginn sem hann fær brjef frá Oddfellowum um Thorcilliisjóðinn, skrifar hann þessu leynifjelagi heila örk og afgreiðir málið, en í þrjá mánuði hafði hann aldrei tíma til að undirskrifa varðskipsveitingarnar. Hvað dvaldi Orminn langa? Jeg spyr í mesta bróðerni, hvernig á þessu stóð. Mjer þætti gaman að vita, hvers vegna jeg er áfellisverður í þessu máli, en ekki hv. 1. þm. Skagf. Á varðskipunum vissi enginn, hvaða kaup gilti eða eigi, og er undirmenn spurðu skipstjóra um embættin, var þeim sagt, að eiginlega væri búið að veita þau upp á þau kjör, sem lögin tækju til. En aldrei komu veitingarbrjefin. Þegar nú þessi brennandi áhugamaður, hv. 1. þm. Skagf., hikaði við að veita embættin, fór jeg að halda, að eitthvað væri gruggugt við málið og skiljanlegt, þótt framkvæmd laganna drægist hjá mjer líka.

Þá hefir verið talað um þá óhæfu af mjer að hafa skipsmennina skrásetta. Fyrv. stjórn ljet það ástand haldast fram í ágúst á öðru skipinu, en í sept. voru skipverjar skrásettir aftur fyrir minn tilverknað. Nú kunna sumir að segja, að verra sje að hafa byrjað á að skrásetja mennina en að láta þá vera skrásetta áfram. En hjer er það það ástand að vera skrásettur, sem hlýtur að vera aðalatriðið. Ef það er hættulegt fyrir mennina að vera skrásettir nú, þá hlýtur það líka að hafa verið hættulegt í sumar á sjálfum hitatímunum. Ef hv. 1. þm. Skagf. hefði verið löghlýðinn, hefði hann ekki þurft nema pennastrik til að kippa þessu í lag. Nú hefir hv. þm. Vestm. skrásett skipverja á Þór árum saman sem framkvæmdarstjóri þess skips, og hv. 1. þm. Skagf. lætur mennina vera skrásetta um mánuð eftir mánuð í sumar í algerðu laga- og heimildarleysi, eftir því sem Íhaldsmenn segja frá: Ekki hefir þó borið á því, að nein pest hafi komið upp í skipverjum meðan MG hafði þá skrásetta, og því ætti að vera óhætt, að jeg hjeldi þeim skrásettum uns ný lög verða sett. Hv. þm. Vestm. var einmitt að hrósa þeim fyrir að hafa tekið marga togara, svo að ekki er að sjá, að þetta hafi komið að sök.

Ef hv. þm. Vestm. vill endilega fá landsdóm, þá geri jeg ráð fyrir, að byrjað verði á hv. 1. þm. Skagf. til reynslu, eins og jeg hefi áður sagt, og jeg býst við að verða til með að stinga höfðinu í snöruna, þegar búið er að hengja hann. (MG: Eða samtímis). Nei, því að mitt afbrot, ef um slíkt er að ræða, er seinna drýgt og rjett er að taka syndir ráðherranna, sem finnast kunna, til afplánunar í rjettri röð. Auk þess er íhaldssynd hv. 1. þm. Skagf. alvarlegri en mín, því að sá veldur miklu, sem upphafinu veldur. (MG: Á mín snara þá að vera þrengri?). Nei, en það gæti komið til mála að hafa gálgann hærri.

Jeg skal þá gleðja hv. þm. Vestm. með því að tala nokkur orð um lögbrot yfirleitt. Mjer þætti gaman að fá að vita skoðun hv. þm. um það; hvort það hafi verið lögbrot, þegar Hannes Hafstein ljet undir höfuð leggjast að bera lög um lotterí upp fyrir konungi, af því að honum líkaði ekki lögin og var þeim andvígur. Og svo að jeg komi nær okkar tíma, skal jeg minnast á lögin um fasteignabanka, sem samþykt voru árið 1921.

Lög þessi voru samþ. í trássi við hv. 1. þm. Skagf. og háttv. 3. landsk. þm. (JÞ) og voru aldrei framkvæmd. Íhaldsmenn voru þó ráðherrar nærri eitt ár eftir að þau voru samþykt. Lögin voru aldrei framkvæmd, og þeim var síðar breytt.

Annað dæmi er enn nær: Lögin um atvinnu við siglingar. Þar eru sett ákveðin og greinileg ákvæði um það, hver skilyrði þurfi til að fá skipstjórarjett. Þar eru engir möguleikar til undanþágu. En hvað gerist? Atvmrh., hv. 1. þm. Skagf., fer að veita mönnum leyfi til skipstjórnar, þótt þeir fullnægi ekki skilyrðum laganna. Þarna þverbraut hann lögin. Fyrir síðasta þing lagði hann svo frv., sem átti að staðfesta gerðir hans í þessu efni. En þá ætlaði alt vitlaust að verða. Skipstjórar mótmæltu og höfðu, að kunnugra sögn, við orð að koma með flotann og leggja honum í höfn. Þeir höfðu mikið til síns máls, því að hefði frv. verið samþykt, var ekki lengur til neins að hafa skipstjórarjettindi. Þetta endaði með því, að frv. náði ekki fram að ganga og lögbrotin hættu. — Síðan koma stundum menn í stjórnarráðið og spyrja, hvort þeir geti ekki fengið undanþágu frá lögunum um siglingar. En skrifstofustjórinn svarar þeim með ákveðnu neii.

Jeg spyr nú hv. þm. Vestm., hvort hann heldur að hafi meiri þýðingu, þetta eða lögskráningin. Jeg held, að engum manni líði betur eða ver, hvort sem hásetar á varðskipunum eru skráðir eða ekki. En það er mikið í húfi, ef ólærðir menn stýra gufuskipum.

Þá vil jeg nefna eitt lögbrotið enn. Þrír fyrirrennarar mínir í stjórninni, þeir núv. hv. þm. Dal. (SE), hv. 1. þm. Skagf. og Jón heitinn Magnússon, eru þar sekir. Þetta er voðalegt lögbrot. Í launalögunum er það sem sagt tekið fram, að skrifstofukostnaður sýslumanna skuli ákveðinn til 5 ára í senn fyrirfram. Jón Magnússon var dómsmrh., þegar lögin gengu í gildi, og ákvað þá kostnaðinn aðeins til eins árs. Sýslumenn hjeldu, að þetta væri gert til reynslu og síðan yrði þetta framlengt til 5 ára, með eða án breytinga. Nei. Næsta ár er kostnaðurinn ákveðinn aftur til eins árs, og svo aftur og aftur, þar til hv. þm. Dal. lendir inn í lögbrotakeðjunni, og að lyktum jafnvel sjálfur hv. l. þm. Skagf. Sýslumennirnir hafa jafnvel verið að hugsa um að fara í mál út af þessu, en lögbrotin halda áfram. Sjálfur hefi jeg hugsað mjer að fremja þetta ógurlega lögbrot eftir nokkra daga, ef Íhaldið hefir ekki skift um stjórn áður. — Svona eru nú flokksbræður hv. þm. Vestm., dauðir og lifandi, sekir um bersýnileg lögbrot framan í öllum sýslumönnum og bæjarfógetum landsins. — Jeg get ekki að því gert, þótt hv. þm. (JJós) sje nú orðið svo ómótt í þessu máli, að hann þurfi altaf að vera að fara fram til að fá sjer að drekka, en jeg vil vekja athygli hans á, að hann missir margt hið besta úr ræðu minni í þessum ferðalögum.

Jeg er nú ekki löglærður maður og verð því að biðja afsökunar á því, þótt jeg muni í bili ekki eftir nándar nærri öllum meiriháttar lögbrotum af þessu tægi hjá fyrirrennurum mínum. En hv. þm. Vestm. ætti að minnast lögbrotsins, sem framið var í hv. Ed. í fyrra, þegar hann var kosinn í 4 nefndir, þótt þingsköp legðu blátt bann við því, að nokkur væri í meira en tveim fastanefndum. Og á það má minna, að samtímis var núv. hæstv. fjmrh. (MK) aðeins í einni nefnd.

Þegar athuguð er hin mikla kyrð hjá Íhaldinu síðastliðna mánuði út af varðskipunum, þessi kyrð, sem mest líkist íhaldssömum embættissvefni, þá held jeg, að menn fari að sjá, að Morgunblaðsmenn trúa dauft á málstað sinn. Og ef farið væri að efna til landsdóms, þá er jeg hræddur um, að hv. 1. þm. Skagf. fengi að líta þar inn, ekki til að svara fyrir eitt, heldur svona 4–5 lögbrot.

Nú hefi jeg lokið við hina formlegu hlið málsins og kem þá að því, hvílík ósvífni það var að lækka laun þessara ágætu manna, skipstjóranna á varðskipunum. Jeg vil þá fyrst minna á, að á þingi í fyrra taldi jeg launin altaf of há, svo að engum þurfti að koma á óvart, þótt jeg vildi lækka þau. Þegar skipherrarnir af varðskipunum komu til mín og spurðu, hví þeir fengju ekki veitingu fyrir störfum sínum, þá spurði jeg, hvers vegna háttv. 1. þm. Skagf. hefði ekki veitt embættin. Það vissu mennirnir auðvitað ekki. Þá segi jeg þeim, að mjer finnist launin of há. Þeir segja, að Jón Magnússon hafi lofað þeim þessu, og ber því saman við plögg þau, er hv. 1. þm. Skagf. skildi eftir í stjórnarráðinu, sem benda á, að Íhaldið ætlaði að nota sjer leyfi laganna til hæstu launagreiðslu. Jeg sagði skipherrunum þá, að það yrði dómstólamál, hvort þetta loforð Jóns Magnússonar ætti að teljast bindandi. Þá komu þeir með það, að þeir yrðu að fá svona há laun vegna þess, að þeir þyrftu að hafa risnu á skipunum. En jeg benti skipstjórunum á, að jeg liti svo á, að íslensku varðskipin eigi ekki að halda uppi risnu, eða að velja beri skipstjóra á þau eftir því, hve vel þeir fari fyrir borðsenda og hve liprir þeir sjeu að skála í dýrum vínum. Um þetta vænti jeg, að við hv. þm. Vestm. sjeum sammála. Hlutverk þeirra er að verja landhelgina og hafa hendur í hári lögbrjóta. Jeg hefi nú reynt að hjálpa skipstjórunum við þetta starf með frv. um loftskeytanotkun veiðiskipa. En „vinir“ skipstjóranna, sem alt Íhaldið þykist vera, lætur aðeins skammir í tje fyrir þá umbót. — Jeg efast ekki um, að skipunum stjórna seigir og duglegir sjómenn. En einn ljóður er á ráði þeirra, sem þeim er þó vafalaust ósjálfráður: Þeir taka að vísu marga togara í landhelgi, en þeir eru allir útlendir. Þó er það vitanlegt, að Íslendingar eru dögum oftar í landhelgi, sbr. t. d. sögur hv. þm. Snæf. (HSteins) frá Ólafsvík. Mjer dettur ekki í hug að gefa í skyn, að skipstjórar varðskipanna standi í sambandi við veiðiskipin. Skýringin liggur í því, sem skipstjórinn af Fyllu sagði í viðtali við „Nationaltidende“, að ómögulegt er að hafa hendur í hári Íslendinganna vegna loftskeytanna. Ef frv. um loftskeytanotkunina væri samþykt, rynni ef til vill upp hið gullna tímabil, að útlendir og innlendir veiðiþjófar yrðu jafnt teknir. Þá fengju lögin að ganga jafnt yfir alla, svo sem rjett er og skylt. — Íhaldsblöðin hafa sagt, að jeg hafi verið með dylgjur til skipstjóranna á varðskipunum um vanrækslu á störfum sínum. En þetta er ekki rjett. Jeg hefi aðeins viljað gefa þeim aðstöðu til að taka alla lögbrjóta jafnt.

Nú kann hv. þm. Vestm. að segja, að þetta sje ekki sæmilegt gagnvart Íslandi. En hví eiga Íslendingar fremur að fá að spilla landhelginni en útlendingar? Og hvaða álit skapar það okkur í öðrum löndum? Jeg hygg, að gamanið fari af hv. þm. Vestm. í þessu máli áður en lýkur, því að það er augljóst, að fyrv. stjórn og flokkur hennar hafa ekkert gert til að bægja Íslendingum frá landhelginni. Íhaldsblöðin hafa ekki einu sinni vítt framferði þeirra samlendra lögbrjóta; miklu fremur gætu þeir haldið, að þeir stunduðu þessa þokkalegu iðju í þökk „Morgunblaðsins“, þegar þeir spilla veiðarfærum fátækra fiskimanna og sigla fram og aftur um landhelgina með breytt yfir nafn og númer.

Þá kem jeg aftur að risnunni. Hv. þm. Vestm. er sjálfsagt mjög hrifinn af ríkislögreglu og her. (JJós: Hvað er því til sönnunar?). Almenn undirgefni hv. þm. undir alt, sem Íhaldið ber fram. — Þegar hann ætlast til, að skipstjórar varðskipanna fái fje til risnu, þá er auðsjeð, að hervíman er ekki enn runnin af honum. En jeg vil minna hv. þm. á, að „Óðinn“ og „Þór“ eru ekki fremur herskip heldur en Erlingur yfirlögregluþjónn í Reykjavík er herforingi. Dönsku skipin, sem hjer stunda strandgæslu, eru herskip. Foringjar þeirra hegða sjer því fyrst og fremst sem hermenn, og það er gripið á alveg óvanalegan hátt inn í líf þeirra með því að senda þá hingað til venjulegra lögreglustarfa. Sá misskilningur hefir komist inn hjá Íhaldsmönnum, að skipstjórarnir á varðskipum okkar sjeu líka herforingjar og eigi að halda veislur og ganga prúðbúnir um stræti í glitrandi einkennisbúningi. Jeg vona, að þegar hv. þm. athugar þetta betur, þá sjái hann, hvílík dómadagsvitleysa þetta er. Skipstjórar á íslensku varðskipunumum eru ekki sendir í neinar „missíónir“ til erlendra hafna. Verkefni þeirra er ofureinfalt: Eins og lögreglan eltir dónana og bullurnar í landi, eins eiga varðskipin að elta samskonar lýð á sjó. Og við þess háttar fólk er ekki þörf á risnu.

En út af þessum orðum skipstjóranna um risnu skrifaði jeg þeim brjef það, sem háttv. þm. Vestm. las hjer upp fyrir skemstu. Og jeg bætti við því, sem ekki kom fram í lestri hv. þm., að jeg vildi láta þá hafa hærra kaup, til þess að þeir hefðu ekki risnu.

Nýlega birtist í „Ægi“ hörð gagnrýning frá forseta Fiskifjelagsins á frammistöðu dönsku varðskipanna hjer við land. Jeg held nú, að þessi gagnrýning hafi verið of hörð og óbilgjörn, en hún var fram borin af forsvarsmanni fiskjmanna og af góðum hug til þeirra. Og greinarhöfundur bætti því við, að íslensku skipin væru farin að taka þau dönsku sjer til fyrirmyndar í því að liggja inni í höfnum og slá slöku við gæsluna. Jeg er forseta Fiskifjelagsins alveg sammála um það, að strandgæslumennirnir íslensku eiga ekki að líkja eftir erlendum herskipsvenjum. Þeir eru alt önnur stjett. Það er ekki ætlast til þess, að skipstjórarnir gangi með sverð við hlið og logagylta borða, eins og venjan heimtar, að herforingjar geri.

Foringjar á varðskipum okkar eru lögreglumenn á hafinu. Þarna er djúp staðfest milli mín og hv. þm. Vestm., sem altaf sjer þessa embættismenn í veislufögnuði og snápslegu yfirlæti.

Annað atriði ber okkur og á milli. Jeg vil, að skipstjórarnir hafi sem minst persónusambönd í landi. Það er af því að jeg þekki vel úr íhaldsheimilunum siðspillandi áhrif kunningsskaparins. Í mínu stutta starfi sem dómsmrh. hefi jeg oft rekið mig á áhrif hans. Einu sinni hafði t. d. maður nokkur, sem grunaður var um vissan glæp, farið af landi burt. Lögfræðingur hjer í bænum kærir hann, lögreglan sendir út lýsingu á manninum og hann er tekinn fastur í öðru landi. Þá fara aðstandendur mannsins af stað. Þeir koma til lögfræðingsins og fá hann til að taka aftur kæruna. Svona er farið til hvers af öðrum, og loks átti íslenska stjórnin að stöðva vjelina, sem sett var af stað til að ná í manninn. Þegar jeg neitaði að verða við ósk þeirra, sem fyrst báðu að taka manninn og síðan báðu um að sleppa honum, kom upp úlfaþytur í herbúðum íhaldsmanna. Það er þetta siðleysi kunningsskaparins, veisluhöldin og vingjafirnar, sem hafa gert íslenskt rjettarfar að pestarholu. — Jeg skal nefna annað dæmi. Í fyrra varð maður gjaldþrota fyrir mjög háa upphæð. Þar var í fyrstu ekkert gert, enda mun leynifjelögin og fleiri þessháttar öfl hafa gripið inn í. Loks var maðurinn þó kærður og málið eitthvað rannsakað. En trúnaðarmaður hins opinbera í þessu máli vill, að manninum sje fyrirgefið brotið. Það ber að forðast, að þessi skýla kunningsskaparins sje svona dregin yfir allar misfellur af þeim, sem einhvers mega sín. Jeg þekki mína þjóð og sje, hversu þetta hefir sett okkur rjettarfarslega á barm glötunarinnar. Því vinn jeg á móti samábyrgð kunningsskaparins um brotamál.

Þá var hv. þm. (JJós) að dylgja um það, að jeg mundi hafa hætt við að framfylgja varðskipalögunum vegna vina minna, jafnaðarmanna. Átti það að vera vegna þess, að í lögunum er skipverjum meinað að gera verkföll. En jeg get sagt háttv. þm. það, að jeg hefi alls enga samúð með vinnudeilum á varðskipunum, og það má best sjá á því, að um þetta efni tek jeg einmitt upp orð laganna í það frv., sem jeg ber fram um varðskipin. Ef þetta atriði yrði felt úr lögunum, áliti jeg það skyldu mína að semja svo um við hásetana, að þeir gerðu ekki verkföll. Það yrði að vera beint ráðningarskilyrði. Þetta skiftir auðvitað engu máli, nema til að sanna rangfærslur og rangsleitni hv. þm.

Þá kem jeg að laununum. Jeg hefi verið svo ósvífinn að lækka þau, í samræmi við það, sem jeg hjelt fram í fyrra. Jeg held því fram, að menn verði yfirleitt hvorki betri, vandaðri nje öruggari í sinni þjónustu fyrir landið, þó að það sje mokað í þá peningum. Til dæmis vil jeg neita því, að nokkrar líkur sjeu til, að sá bankastjóri Íslandsbanka, sem hefir 40 þús. kr. laun, sje nokkuð betri og þjóðlegri en hinir bankastjórarnir, sem hafa nær helmingi minna. Jeg ímynda mjer, að sá prýðilegi föðurlandsvinur hv. þm. Dal., er nú hefir 24 þús. kr., sje alveg sami maður og meðan hann var sýslumaður í Skaftafellssýslu og Borgarfjarðarsýslu fyrir svo sem ¼ þeirra launa. Það er misskilningur hjá hv. þm. Vestm., ef hann heldur, að hægt sje að draga kvadratrót af launum manna til þess að finna manngildið.

Jeg get ekki annað en farið nokkrum orðum um þessa launalífsskoðun hv. þm. Honum finst fjarstæða að halda fram, að skipstjórar á varðskipunum geti lifað við sömu laun og skrifstofustjórar í stjórnarráðinu og prófessorar við háskólann. Jeg vil benda á, að elsti skrifstofustjóri í stjórnarráðinu, Gísli Ísleifsson, hefir nákvæmlega 8 þús. kr. laun, eftir meira en 20 ára þjónustu. Það er ákaflega duglegur maður, þegar hann hefir heilsu, og vinnur feikna mikið starf. Jeg býst við, að hann og aðrir í svipuðum stöðum sætti sig við, að svona hefir þjóðfjelagið ákveðið þetta. Það barst í tal í haust um launin við sýslumann Suður-Múlasýslu, og sagðist hann hafa 6500 krónur; þetta er maður, sem stýrir stórri sýslu og hefir verið 12 ár að læra. Svona er þetta alstaðar. Ef við lítum á háskólann, getum við tiltekið ágæta menn, sem hafa varpað ljóma yfir okkar land með sínum afburðum; þeir eru á þeim launum, sem hv. þm. Vestm. vildi sparka í fyrir skipstjórana á varðskipunum. Jeg man ekki betur en mjer hafi verið sagt, að annar þessara skipstjóra hafi fyrir utan stýrimannaskólann verið einhvern part úr ári á erlendum skóla. Ber þetta að vísu vott um dugnað, en hjer er líka um mjög stutta skólagöngu að ræða borið saman við háskólamentun.

Viðvíkjandi aukatekjum er það að segja, að báðir þessir skipstjórar höfðu um 2 þús. kr. aukatekjur árið sem leið. Annar fjekk 2 þús. fyrir að bjarga togara, en hinn 1800 krónur fyrir að draga skipskeðjur upp úr Vestmannaeyjahöfn.

Jeg verð sem sagt algerlega að neita því, að það sje nokkurt vit og sanngirni í að taka vissar stjettir út úr, svo sem bankastjóra og skipstjóra, og setja þá á margföld laun við þau, sem t. d. frægustu vísindamenn í landinu hafa. (JJós: Ríkissjóður á fleiri skip; því lækkar ekki stjórnin laun á öllum skipum ríkissjóðs?). Það skip tilheyrir ekki minni skrifstofu. En það er þetta, sem hv. þm. verður að geta gert ljóst, ef hann á að sanna sitt mál: Hvers vegna eiga lærðir doktorar, sem hafa látið landinu í tje ágæta þjónustu í 20–30 ár, að hafa aðeins 8 þús. kr., ef það er goðgá að tala um að lækka laun þessara manna með skamman undirbúning? Jeg býst við, að hv. þm. muni eftir, að samhliða því, að hann gerir ráð fyrir, að skipstjórar varðskipanna hafi þúsund kr. á mánuði, þá eru næstir á launalögunum, sem hann er ánægður með, starfsmenn, sem annar hefir 430 krónur á mánuði en hinn 450–460 krónur, — meira en helmingi minna. Þeir hafa auðvitað gengið gegnum stýrimannaskólann og eru búnir að vera lengi í þjónustu landsins og annar í hrakningum fyrir landið meðal annara þjóða. Þessir menn hafa fjölskyldu, sem þeir verða að ala önn fyrir fyrir þetta hálft fimta hundrað á mánuði. Með þetta var hv. þm. Vestm. ánægður. Mjer finst þetta of mikill munur og get ekki skilið, að nokkurt vit sje í honum, meðal annars vegna þess, að stýrimenn verða að vera mjög áreiðanlegir menn, eins og skipstjórar, og eiga við alveg sömu erfiðleika að búa eins og þeir.

Þá ætla jeg að snúa mjer að þeim samanburði, sem hv. þm. vill gera við aðra skipstjóra. Jeg vil þá benda á það, að eins og hv. þm. gekk frá sínu frv. í fyrra, var ætlast til, að skipstjórar á varðskipunum yrðu fastir æfilangt. En það er hægt að segja skipstjóranum á „Esju“ upp með nokkurra mánaða fyrirvara. En lögin miðuðu að því að gera alt fólk á skipunum að embættismönnum ríkisins, og þess vegna varð að bera þá saman við embættismenn ríkisins. Vil jeg þá taka það fram, að skrifstofustjórinn í dómsmálaráðuneytinu er yfirmaður skipstjóranna á varðskipunum, og hann hefir á 8. þús. kr. föst laun, og þessir undirmenn hans eiga svo að vera á 12 þús. kr. launum, eftir skoðun hv. þm. Vestm.

Þá komum við að háu laununum hjá skipstjórum Eimskipafjelagsins og togaraskipstjórum. Fyrst er því til að svara, að þeir eru ekki embættismenn, þ. e. a. s. þeir eru ekki ráðnir æfilangt. Í öðru lagi get jeg ekki sjeð, að þessi háu laun sjeu neitt fagnaðarefni fyrir landið. Vill hv. þm. fyrst líta til Eimskipafjelagsins; það á í harðri baráttu við erlend fjelög, þar sem miklu meira er sparað á launum. Við gefum fjelaginu skattfrelsi og mokum í það peningum á hverju ári úr landssjóði, til þess að það geti starfað. Hvað veldur þessu? Fyrst og fremst dýrtíðin í Reykjavík og þau háu laun, sem fjelagið borgar.

Förum til togarafjelaganna. Fjelag hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) hefir engan tekjuskatt borgað frá 1924, ef jeg man rjett. Af hverju? Fjelagið er fátækt. Hefir fjelagið haft ráð á að borga mönnum 40–50 þús. króna árslaun? Jeg segi nei. Fjelög, sem ekki geta borgað tekjuskatt, eiga ekki að hafa leyfi til að borga slíkt kaup.

Jeg held, að hv. þm. (JJós) hafi ekki kafað nejtt djúpt í þessu máli. Hann hefir ekki athugað, að síðan 1920 er búið að taka tugi miljóna króna lán handa bönkunum. Það vita bæðj guð og menn, að mikið af þessum miljónum hefir farið í súginn, beinlínis orðið eyðslufje. Það hefir orðið tekjuhalli á framleiðslunni og bankarnir hafa orðið að gefa upp stórar upphæðir, t. d. einu fjelagi mörg hundruð þúsund króna, þar sem árslaun voru borguð 20–40 þús. króna.

En fje bankanna er fje landsins, fje þeirra manna, sem koma til að borga skakkaföllin, sem eiga að nokkru rót sína í þessum gífurlegu launum. Jeg sje þess vegna ekkj neina dýrð í þessum háu launum á skipunum; jeg sje ekki annað en að af þeim leiði eymd og fátækt. Jeg skora á hv. þm. Vestm. að taka til yfirvegunar, hvort það geti ekki átt sjer stað, að með því verði, sem er á afurðum nú, þá muni koma að því, að það verði að fara að lækka launin. Hann talaði hjer eins og „Gullasch“, eins og engin miljónalán hefðu átt sjer stað og ekkert tap. Og viðvíkjandi þeirri fyrirmynd., sem hann hefir dregið fram, sem er Eimskipafjelagið, þá hefi jeg sýnt fram á hvernig ástandið er; það er ormsmogið og mergfúið. Því miður er svona okkar dýrtíð og eyðsla; sem hefir komið verst fram í vitlausum skipstjóralaunum og togarakaupum og ætlað að setia landið á hausinn. Þar miðar hver við annan; aðrir miða við skipstjórana og svona heldur þetta áfram. Ef við hv. þm. Vestm. lifum eftir 4–5 ár, og ætti sífelt að taka eyðslulán, þá er jeg hræddur um, að dýrtíðarskrúfan yrði að hætta, menn yrðu að hætta ofureyðslunni og byrja að lifa á launum, sem hæfðu framleiðslunni.

Hv. þm. sjer, að viðleitni mín nær til fleiri. Einn af starfsmönnum, er tilheyra minni skrifstofu, hefir 18 þús. króna laun; jeg geri tillögu um að lækka þau um meira en helming. Menn vita ekki annað en að tveir embættismenn í bænum, sem tilheyra minni deild, hafi um eða yfir 100 þús. krónur á ári. Jeg flyt tillögu um að færa þessi embætti í viðunanlegt horf. (JJós: Hví reyndi hann ekki sömu aðferð og á skipstjórunum?). Það er það, sem er verið að gera; það er verið að lækka launin. — Það er þetta, sem okkur hv. þm. Vestm. ber á milli, — viðhorfið til peningamálanna. Jeg lít svo á, að landið sje fátækt og við verðum að spara og stilla í hóf. Hann lítur svo á, að landið sje ríkt, — og það er það kannske að náttúrugæðum, en ekki að fje nú sem stendur. Þjóðin lifir yfir efni, og hv. þm. vill halda því áfram í því efni, sem hjer er um að ræða.

Jeg held jeg hafi nú nokkurn veginn gengið í gegnum alla aðalliði í ræðu hv. þm. (JJós). Býst jeg við, að fleiri taki til máls um þetta í kvöld. Þætti mjer fróðlegt að vita, hvort íhaldsmenn yfirleitt eru ekki reiðir við hæstv. fyrv. dómsmrh. (MG) fyrir að veita ekki embættin í sumar. Að minsta kosti er það ákaflega mikið sleifarlag, sem hann hefir sýnt, eftir því sem þeir tala um málið, og þætti mjer gaman að vita hjá þeim, sem tala hjer á eftir, hvort þeir eru ekki með því, ef sekt hans reynist mjög stór, að prófa á honum landsdóm, til dæmis nú í sumar.