14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Páll Hermannsson:

Jeg get að flestu leyti tekið undir það, sem hv. frsm. nefndarinnar hefir tekið fram um þetta mál. En jeg á brtt. á þskj. 457, eins og hv. frsm. mintist á, og býst jeg við, að þyki hlýða, að jeg geri nokkra grein fyrir henni.

Að vísu hefi jeg nokkuð markað afstöðu mína með þeim skjölum, er fyrir liggja. Eins og nál. ber með sjer, hefi jeg ritað undir það með fyrirvara, en sem jeg get lýst yfir nú, að var aðeins til þess atriðis, sem brtt. mín fjallar um.

Brtt. mín snertir aðeins fjárframlag ríkisins til þessa fyrirtækis, en byggist ekki á því, að mjer þyki mál þetta ekki þess virði, að því sje sint. Jeg lít svo á, að Reykjavík beri skylda til þess, enda muni og hafa getu til þess, að leggja meira fje til þessa fyrirtækis en frv. gerir ráð fyrir. Líti maður á undanfarna reynslu um aðgerðir Alþingis viðvíkjandi styrk til sundlauga úti um land, þá sjest, að hlutfallið er alt annað en hjer er gert ráð fyrir um framlag úr ríkissjóði. Hingað til mun styrkur til sundlauga úti um land hafa numið 1/5 kostnaðar, en í frv. er helst gert ráð fyrir því, að ríkið greiði helming kostnaðar við þetta fyrirtæki. Jeg skal ekki fullyrða um, hvort svo verður í reyndinni, en býst þó við, að nærri láti. Jeg skal viðurkenna það, að sundlaug í Reykjavík hefir meiri þýðingu fyrir landið í heild sinni en sundlaugar í einstökum hjeruðum, en samt hlýtur hún án efa að hafa langmesta þýðingu fyrir Reykjavíkurbæ. Þó má að sönnu búast við, að áhrif frá þessari sundlaug breiðist út um landið, einkum vegna þeirra ungra manna, sem hjer kunna að dvelja um stund, en síðan leita til átthaganna. Hingað sækir margt skólafólk, en jeg fyrir mitt leyti ljeti mjer hægt um að stuðla að því, að námsmannafjöldi þyrptist til Reykjavíkur.

Nú er þegar byrjað að veita straumunum nokkuð frá Reykjavík. Má t. d. benda á, að alþýðuskólar hafa risið upp á nokkrum stöðum, sem jeg hygg, að hljóti að verða til þess að draga úr aðsókninni til Reykjavíkur. Líka má benda á það, að nú lítur út fyrir, að annar skóli, gagnfræðaskólinn á Akureyri, taki að útskrifa stúdenta, svo að búast má við, að mentaskólinn verði enn meira skóli Reykjavíkur en áður hefir verið. Jeg veit að vísu, að hjer í Reykjavík eru ýmsir sjerskólar, sem sóttir eru og sóttir verða framvegis af öllu landinu, og auðvitað yrði þeim nemendum beint hagræði að því, að hjer væri sundhöll. En svo er önnur hlið á þessu máli, sú, sem snýr að getunni til þess að leggja fram fje til þarflegra fyrirtækja. Þetta má ekki skilja þannig, að jeg telji, að ríkissjóður geti hreint ekki lagt fram það fje, sem hjer er gert ráð fyrir, en jeg lít svo á, að mörgum landshlutum sje miklu meiri þörf á styrk úr ríkissjóði en Reykjavík, enda held jeg, að hún standi betur að vígi í menningarlegu tilliti en nokkur annar hluti landsins. Því geri jeg ráð fyrir, að Reykjavík geti sjer að bagalausu lagt fram það fje, er til vantar, og hygg líka, að hún muni gera það, ef á þarf að halda. En það er ekki von, að hún slái hendinni á móti því, sem hún á kost á úr ríkissjóði.

Jeg vil enn taka það fram, að till. mín er borin fram með það fyrir augum, að ríkinu beri ekki skylda til að leggja fram fje að svo miklum hluta, en alls ekki fyrir það, að jeg álíti málefnið ekki gott. Og um leið vil jeg lýsa yfir því, að enda þótt brtt. mín kunni að verða feld, mun jeg eigi að síður greiða frv. atkv.