29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

1. mál, fjárlög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Síðan jeg tók síðast til máls, hafa verið haldnar margar ræður, en af því ýmsir þeirra eru nú ekki við, sem voru hjer þegar þær fyrstu voru haldnar, þá ætla jeg að byrja á þeim manninum, er síðast talaði, háttv. 2. þm. G.K. (ÓTh).

Hv. þm. byrjaði á því að tala um, að jeg hefði ákveðið launin of lág handa yfirmönnum varðskipanna. Jeg mun síðar koma nánar að því atriði, en minna nú á það, er jeg sagði í ræðu minni hjer í gær. Jeg lýsti því þá, hve hálaunin væru hættuleg í landi, sem væri fátækt og hefði þegar spent bogann of hátt á þessu sviði. Útgerðarfjelögin eiga hjer höfuðsökina; þau hafa borgað of hátt kaup, sem þau hafa ekki getað fullnægt nema með töpum og skaðað þar með bankana, en hafa sjálf orðið vanmegnug að greiða tekjuskatt, t. d. eins og Kveldúlfsfjelagið, sem hv. þm. er riðinn við. Ekki er sjáanlegt, hvar slíkt lendir, en þeir, sem nú eru státnastir, geta verið orðnir ölmusumenn eftir nokkurn tíma. Jeg bið menn að athuga það, að ekki hafa verið færð nein rök af viti fyrir þeirri kenningu þeirra, að þessir menn þyrftu að hafa að launum 12 þús. kr., þótt þeir haldi því fram, að Jón heit. Magnússon hafi tekið þá frá öðru starfi og heitið þeim 12 þús. kr. launum. Til þess hafði hann enga þingheimild, og er því sú launagreiðsla eiginlega persónulega bindandi fyrir þann ráðherra einan. En jeg sagði, að jeg sæi enga skynsamlega ástæðu til að borga þeim hærri laun en embættismönnum ýmsum, sem sitja í hinum virðulegustu embættum. Ef nokkur ætti að borga samkvæmt því loforði, er Íhaldsmenn tala um, þá væri það helst dánarbú Jóns Magnússonar. Það er eitthvað annað sem þessu veldur, eitthvað persónulegt. (ÓTh: Hvað er það?). Það veit jeg ekki. Jeg er ekki nógu heimskur til að geta sett mig inn í hugsunargang hv. 2. þm. G.-K.

Hv. þm. hjelt því fram, að jeg hefði ofsótt skipstjórana á varðskipunum. Þetta gætu lögreglustjórinn og bæjarfógetinn hjer sagt. Jeg hefi lagt til, að laun þeirra yrðu lækkuð að miklum mun. En þeir eru svo vel siðaðir menn; að þeim dettur ekki í hug að semja sig að skrælingjasiðum hv. 2. þm. G.-K., sem ekki kann neina mannasiði, hvorki í orði eða athöfn.

Jeg átti í gær ósvarað hv. þm. Vestm. (JJós), en skal nú víkja nokkuð að honum. Hv. þm. talaði um landhelgimálin, og er þá ekki úr vegi að athuga, hvernig hann og hans flokksbræður hafa umgengist landhelgisjóðinn. Það hefir nú undanfarið starfað nefnd að því að athuga kostnaðinn við ríkisbúskapinn, og hefir við það margt upplýstst. Menn skyldu nú halda, að reikningshald þessa sjóðs væri í góðu lagi, þar sem fyrverandi stjórn setti mann til að annast það með 10 þús. kr. árslaunum, og gegndi þessi maður þó starfinu sem aukastarfi. En þegar nú reikningar sjóðsins eru teknir til athugunar, kemur margt einkennilegt í ljós, og meðal annars það, að þar eru greiðslur, sem engin fylgiskjöl eru með, og sumt stórar upphæðir. Yfirleitt hefir ekki enn reynst mögulegt að fá nokkra reiðu á um stjórn sjóðsins. Það hefir verið gengið í hann eins og hundar ganga í hrossskrokk; svo freklega hefir bitlingasýkin fengið að njóta sín undir verndarvæng Íhaldsstjórnarinnar. En merkilegasta fjármálafjólan í þessum jurtagarði Íhaldsins er 25 þús. kr., sem stungið hefir verið að hv. þm. Vestm. og engin forsvaranleg grein er gerð fyrir. (MG: er perfidi!). Þetta er satt, og býst jeg við, að ánægja hv. þm. (MG) verði því minni, sem við athugum þetta nánar. Það er kallað, að þetta eigi að vera skaðabætur fyrir að varðskipið „Þór“ hafi verið fjarverandi frá Eyjum í þrjá daga. Ættu þá Vestmannaeyjar að fá skaðabætur vegna fjarveru varðskipanna við björgunartilraunir hjá Stafnesrifi nú um daginn? Það sýnir mjög vel heilindi hv. þm. Vestm. gagnvart landhelgimálunum, þegar hann þannig stingur hendinni, skjóli stjórnar flokks síns, niður í landhelgisjóðinn. Annars er þarna margt fleira athugavert. Einn lögfræðingur hjer í bænum kvittar fyrir 4 þús. kr., sem ekkert fylgiskjal er fyrir; liðurinn ber aðeins heitið: „ýmislegt“. Það er nú af minni hálfu verið að skrifa þeim mörgu mönnum, sem fengið hafa fje úr landhelgisjóði og engin grein er fyrir, til þess að fá einhvern botn í þetta mál. Yfirleitt hafa gæðingar Íhaldsins leikið sjer óhindraðir í landhelgi þessa sjóðs. Jeg skal lofa hv. 1. þm. Skagf. því, að jeg skal láta prenta reikning sjóðsins í stjórnartíðindunum, svo að alþjóð geti sjeð, hvernig honum hefir verið stjórnað. Jeg geri ráð fyrir að geta haldið reikningsfærslu sjóðsins í sæmilegu lagi fyrir 3000 kr. á ári, en Íhaldið komst ekki af með minna en 10 þús., og var þó viðskilnaðurinn á þann veg, sem jeg nú hefi lýst. Jeg veit ennfremur ekki betur en að alt gangi vel á skipunum, þó að skipstjórarnir hafi ekki nema 8000 kr. laun síðan um áramót, en áður 12000. Jeg býst við, að hv. þm. segi, að jeg hafi verið að ofsækja Hjalta Jónsson eða „Hegrann“, því að á fyrsta útboði eftir nýár til skipanna lækkaði kolaverðið úr 43 kr. smálest niður í 35 kr. Á nokkurra vikna forða sparaði landið 4000 krónur.

Um húsviðgerð Jóns Magnússonar er þetta að segja. Það mun hafa verið vorið 1926. Þá var von á æðsta starfsmanni landsins hingað til nokkurra daga dvalar. Það hefði mátt gera ráð fyrir, að ráðherrabústaðurinn, sem þá stóð auður, hefði verið notaður til þess að taka á móti þessum tigna gesti. Nei, það var ekki gert, heldur var kostað stórfje til viðgerðar á húsi Jóns heitins Magnússonar, og gisti svo konungur þar þær 3 nætur, sem hann var hjer í bænum, en síðar á árinu var svo eytt 35 þús. kr. í viðgerð og umbætur á ráðherrabústaðnum. Hvað segja menn nú um þessa ráðdeild? Fyrst er eytt 25 þús. kr. í viðgerð á húsi Jóns Magnússonar, hans einkaeign, svo að leigan, sem landið borgar þar, verður um 8000 kr. yfir sólarhringinn. Nokkrum mánuðum síðar 35 þús. í ráðherrabústaðinn, svo að hv. 3. landsk. (JÞ) gæti flutt inn í hann. Já, vel voru heitin þá efnd við Jón heitinn Magnússon. Það lítur út fyrir, að 25 þús. hafi í tíð fyrverandi stjórnar þótt falleg tala, hvort sem hún var nú greidd hv. þm. Vestm. fyrir að lána landinu „Þór“ í þrjá daga eða Jóni Magnússyni fyrir að hýsa konung í þrjár nætur.

Þá talaði háttv. þm. um „Ohm“strandið og neitaði, að jeg hefði haft rjett til að taka við fjenu og verja því á þann veg, sem jeg gerði. Jeg skal nú, til sönnunar mínu máli, lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, skeyti frá sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, frá 6. sept. síðastl.:

„Danska stjórnin hefir haldið því fram gagnvart Estlandi, gefnu tilfelli, sem international kutyme, að stjórnarskip taki ekki björgunarlaun og krefst ekki björgunarlauna handa dönskum stjórnarskipum. Ef skipið ekki herskip eiginlegum skilningi, þó ekki talið rjett sleppa tilkalli þess hluta björgunarlaunanna, sem skipshöfninni ber að rjettum lögum, og þá væntanlega rjett að endurgoldin sjeu bein útgjöld til kola og annars, sem eyðst hefir vegna björgunarinnar.

Sendiherra“. Þetta skeyti er mjög skýrt og ákveðið um venju annara þjóða í þessum efnum, en til enn fyllri skýringar skal jeg þó leyfa mjer, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hjer annað skeyti, frá Jóni Krabbe skrifstofustjóra í íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn. Það er á þessa leið:

„Marineministeriet kender ikke senere bjærgelönssum for Islands Falk end bjærgning 1908, britisk trawler sænt George for hvilken bjærgelön vilde udgöre 600 sterlingspund, heraf betales Falkens besætning 200 pund medens regeringen renoncerede statens andel 400 pund.

Krabbe“.

Menn skyldu nú halda, að jafnþekkingarlaus viðvaningur og hv. 2. þm. G.-K. hefði ekki leyft sjer að tala þannig út í þetta mál án þess að kynna sjer fyrst eitthvað, hvaða heimildir íslenska stjórnin hefði haft til þess að gera það, sem hún gerði. Jú, og þetta er einmitt alveg sjerstakt dæmi um skrælingjaskap mannsins. Jeg þykist vita, að þetta fjesýslusmámenni skilji ekki þetta, en jeg skal benda honum á sambærilegt dæmi til skýringar. Framkoma hans er líkust því og ef negri kæmi til London. Hann hefir ekki hugmynd um annað en að skrælingjaskapurinn sje mannasiðir, og afsökun hans er auðvitað ekki annað en gáfnaleysi hans, vanþekking og mentunarskortur. Sama er um háttv. 2. þm. G.-K. í þessu máli. Það verður ekki móti því mælt, að eina leiðin til að bjarga þessu máli og um leið sóma þjóðarinnar var sú, sem jeg fór. Í þessu sambandi skal jeg benda á það hjer, að það var ekki til sá maður í Noregi, sem ekki fyrirliti íslensku stjórnina í Krossanesmálinu, enda þótt hún styddi norska hagsmuni. Fyrverandi stjórn kunni alls ekki að koma fram gagnvart öðrum þjóðum; hún vissi ekki, hvenær hún átti að taka föstum tökum á glæpamönnum og sýna rögg af sjer, og heldur ekki hvenær hún átti að sýna kurteisi og lipurð til þess að halda sóma sínum og lands síns.

Þá mintist hv. þm. á Shellfjelagið, og skal jeg þá svara þeim báðum, honum og hv. 1. þm. Skagf., í einu. Þessir menn hafa báðir átt mikinn þátt í að drepa landsverslun með steinolíu. Þegar þetta útlenda fjelag snýr sjer til hv. 1. þm. Skagf. sem ráðh. um leyfi til að fá keypt land og rjettindi hjer, þá leyfir hann það umsvifalaust, og síðan er myndað fjelag, sem hann sjálfur er í, og það kaupir svo landið. Á þessum litla bletti, sem það kaupir, 12000 fermetrum, lætur það svo byggja olíugeyma svo stóra, að þeir rúma meiri olíu en ætla má, að seljist hjer á landi á tveimur árum. Síðan hefir fjelagið kosið heldur að heita íslenskt fjelag og fengið mann til að skrifa sig fyrir 244 þús. kr., en hv. 1. þm. Skagf. og þrír menn aðrir hafa skrifað sig fyrir 2 þús. kr. hlutum hver. Þannig er kallað, að meira en helmingur hlutafjár sje íslenska fje, eða 252 þús. af 500 þús., og kalla þeir, að þetta hlutafje sje innborgað. En við rannsókn, sem jeg hefi látið gera, hefir komið í ljós, að hjer eru svik í tafli. Hlutafjeð er ekki innborgað, en þeir ætla að fá það að láni hjá útlenda fjelaginu. Það virðist ekki ástæðulaust, sem haft er eftir einum ungum málaflutningsmanni hjer í bænum, að það sje gott að hafa hv. 1. þm. Skagf. í þjónustu sinni og það borgi sig að greiða honum 1500 kr. á mánuði fyrir að vera í stjórn hlutafjelaga og öðrum snúningum.

Hv. 2. þm. G.-K. fyllist vandlætingu yfir því, að menn skuli ekki dást að fyrverandi dómsmrh. (MG) fyrir þá lipurmensku að gerast þannig leppur fyrir útlent stórgróðafjelag. En jeg ætla nú að hrella þennan stjórnanda fjelagsins (MG) með því að segja honum það hjer, að það er ekki víst að hann þurfi lengi að hrósa sigri yfir aðgerðum sínum í þessu máli. Það er til þjóð suður í löndum, sem hefir haft þrótt til að láta „tanka“ heimshringanna standa tóma. Það er hægt að fara svipað að hjer og hreinsa þennan leppskap úr landi.

Þá skal jeg, eins og jeg hafði lofað hv. þm. (ÓTh), víkja nokkuð að honum sjálfum. Hann fór nokkrum orðum um, að það væri óheppilegt, hvað jeg væri harður og óbilgjarn við andstæðinga mína, og að það væri óheppilegt, að útlendar þjóðir frjettu mikið af því, sem jeg segði hjer. Jeg á nú ekki marga óvini, en jeg á andstæðinga, og jeg býst við því, meðan jeg er í þessu sæti, sem jeg nú skipa, að ýmsir verði til að telja mig meira og minna óþarfan sjer og íhlutunarsaman.

Eiríkur heitinn Magnússon, meistari í Cambridge, maður, sem hafði óvenjulega næma rjettlætistilfinningu, sagði einhverntíma, að það hefði verið hamingja sín í lífinu að „mörg illmenni hefðu hatað sig“. Jeg hefi nú líka ástæðu til að halda, að ýmsum úrgangsmönnum þjóðfjelagsins sje illa við mig, og nefni jeg þar til þjófa, landhelgibrjóta, svikara, leppa og. sníkjudýr. Tilfinningar þessara óvildarmanna minna munu koma enn ljóslegar fram af því að við höfum áður haft annan mann í sæti dómsmrh., mann, sem ekki verður sjeð, að hafi verið beinlínis „á kanti“ við þetta hyski.

En jeg geri hinsvegar ráð fyrir, að þótt nú um stund verði nokkurt eftirlit haft með þessu fólki og svo fari, að glæpir sannist á glæpamenn og þeir fái sinn dóm, þá telji þjóðin í heild sinni ekki, að það sje ver farið. Til þess er nú einu sinni dómsmrh., sýslumenn og aðrir löggæslumenn, að gæta þess, að lögbrjótunum haldist ekki uppi sitt framferði. Hinu gæti jeg trúað, að þeim sjálfum, lögbrjótunum, þyki það miður farið, að Íhaldið skyldi ekki verða áfram í meiri hluta, svo að þeir hefðu frið góðan eins og áður var.

Þá heyrðist mjer einhver kvíði hjá hv. þm. (ÓTh) yfir því, að það hefði óheppileg áhrif út á við, sem jeg hefi sagt um landhelgibrjótana. Af því að jeg hefi sagt, að af hverjum 10 íslenskum togurum og hverjum 10 útlendum, sem kæmu í landhelgina, ættu jafnmargir að vera teknir. Jeg skal nú fara nokkrum orðum um, hvernig útlendingar líta á þetta.

Bistrup sjóliðsforingi, sem hefir verið í samstarfi við hv. 1. þm. Skagf., ritar grein í „Nationaltidende“ 10. jan. 1928, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkur orð úr þeirri grein, sem lýsa erfiðleikunum af ágangi þeirrar stjettar, sem hv. 2. þm. G.-K. tilheyrir:

„I sandhedens Interesse maa det indrömmes, at ogsaa de islandske Trawlere er slemme til at overtræde Loven om Forbud mod Trawlfiskeri paa det islandske Söterritorium. Det forholdsvis ringe Antal af anholdte islandske Trawlere ligger dels i, at de er höjst moderne skibe, alle forsynede med Radio, hvilket kun í ringe Grad er Tilfældet med andre Nationers skibe, dels i, at de islandske Trawlere, hvad man maaske vil finde naturligt, í höj Grad holdes underrettede om det danske Fiskeriinspektionsskibs og de islandske Vagtskjbes Bevægelser, naar disse forlader eller ankommer til en Havn, og det netop gennem deres Radio; det er ogsaa gennem denne, at de holder hinanden underrettede, naar de ser de nævnte skibe passere langs Kysten“.

Þetta er þungur dómur eftir meira en tveggja ára reynslu. Hann segir, að það sje mjög lítil tala, sem tekin er af íslenskum togurum í landhelgi og það sje sökum þess, að þeir hafi loftskeytatæki og sjeu aðvaraðir úr landi. Þeim sje sagt, hvenær varðskipin koma í höfn og hvenær þau fara — í stuttu máli alt, sem hægt er að segja um hreyfingar varðskipanna.

Þarna segir maður, sem unnið hefir með háttv. l. þm. Skagf., einmitt það, sem jeg hefi sagt hjer. Hann reynir að vísu að segja það á sem vægastan hátt, kurteisinnar vegna, en hann lýsir verknaðinum ótvírætt. Og þegar hv. 2. þm. G.-K. ífærður purpuraskikkju blygðunarleysisins, leyfir sjer að láta frá sjer heyra gremjuorð, þegar á að gera landhelgieftirlitið strangara, þá gerir hann ekki annað en að játa sekt útgerðarmanna.

Það er áætlað, að íslensku togarnir hafi stolið 20 þúsund tonnum af fiski úr landhelginni undir Jökli á stuttum tíma. Hv. þm. Snæf. lýsti þessu vel í fyrra, og hefir oft gert, enda er það vitanlegt, að íslensku togararnir hafa verið staðnir að landhelgiveiðum þarna. En hvar voru þá 12 þús. kr. mennirnir? Það hefir ekki nema tvent hindrað þá, annaðhvort að þeim hafi verið skipað annað, eða sleifarlag á landhelgigæslunni. Jeg held, að þetta sjeu ekki yfirsjónir skipstjóranna, heldur er hreint og beint til þess ætlast hjá þessu fólki, að nú skuli þeir mata krókinn og stela úr landhelginni.

Já, mig undrar það ekki, þótt hlaupi reiðiroði í kinnar hv. 2. þm. G.-K., sem er framkvæmdastjóri fyrir útgerðarfjelagi og á í heim togurum, sem staðnir hafa verið að landhelgibroti. En hv. þm. (ÓTh), sem er svo gjarnt á að dæma aðra, má ekki finnast það ósanngjarnt, þótt nokkur orð falli um hans framkomu í opinberum málum og verk hans sjeu látin tala sjálf.

Á fundi, sem haldinn var hjer í bænum fyrir nokkrum dögum, var það mál á dagskrá, sem hv. 3. landsk. hefir verið falið að rannsaka, nefnilega hvort tiltækilegt þætti, að landið reisti síldarverksmiðju. Á þeim fundi kemur hv. 2. þm. G.-K. uppbólginn eins og hann er vanur og fer að sýna fram á, hvað þetta geti verið afarhættulegt fyrir landið. Hæstv. fjmrh. (MK) stóð þá upp og spurði, hvernig það gæti verið, þar sem ræðumaður ætti sjálfur síldarverksmiðju, að hann sem borgari landsins rjeði frá að leggja út í slíkt fyrirtæki.

Nei, þarna kom tvískinnungurinn í ljós. Þar kom gróðamaðurinn eigingjarni í ljós; hann var vondur sonur landsins og hugsaði lítt um fátækt þess, aðeins ef hann gæti krækt í nokkrum krónum fleira. Hann gat hugsað sjer, að þá mundi hann græða minna og síldin ef til vill hækka í verði. Gróðavonin eða óttinn við tap sýnist gera háttv. 2. þm. G.-K. blindan á það, hvað sje heiðarlegt og sómasamlegum mönnum boðlegt. Þessi hv. þm. mátti skoðast sem fulltrúi atvinnuveganna í sambandi við gengismálið. Menn gátu búist við, að hann gæti bent á miljóna króna tap aðeins fyrir þá gengishækkun, sem fyrv. stjórn kom til leiðar.

Þessi hv. þm. er kosinn í gengisnefnd og það er búist við því, að hann geti nú kannske komið viti fyrir ráðherrann og alt muni rjetta við. En viti menn, þá vantar kjarkinn til þess að segja það, sem rjett er; þá er hann of mikið smámenni til þess að koma fram sem maður, þegar hann átti hvað helst að vera það. En svo heimtar hann af okkur, að við leysum gengismálið á svipstundu. Veit hann ekki, að þeir, sem best vit hafa á þessu máli, segja, að þurfi tiltekið árabil til þess að láta sjatna fyrst ólguna í fjármálum landsins. Veit hann í raun og veru svona lítið?

En auðvitað munum við Framsóknarmenn láta það sem vind um eyrun þjóta, hvað þessi hv. þm. segir. Háttv. 2. þm. G.-K. er þm. þess kjördæmis, þar sem mjög lítið er um togara, nema aðeins í Hafnarfirði, en meiri hluti kjósenda lifir á smábátaútveginum, og hagsmunir þeirra bundnir við, að fiskist uppi við land. Maður skyldi halda, að hann væri þessum kjósendum sínum trúir og berðist gegn lögbrotum í landhelgi. En hvað skeður? Hv. þm. á sjálfur skipið, sem er að stela frá kjósendum hans. Skipið hafði breitt yfir nafn og númer, alveg eins og þegar um glæpsamlegt athæfi er að ræða. Hann varð sárreiður við stjórnina af því hún áfrýjaði málinu til hæstarjettar, því að hann hafði sloppið heldur vel í undirrjetti, og út af því að þetta komst upp úthellir hann gremju sinni í Tímanum. Hann segir í þeirri grein, að sjer detti ekki í hug að láta skipstjórann fara, þótt sannaður sje á hann veiðiþjófnaður í landhelgi, af því að þetta sje ágætur veiðimaður; nei, hann heldur manninum.

Það eru líka allar líkur til þess, eins og Ágúst Flygenring og fleiri hafa sagt, að það hafi ekki verið skipstjórinn, heldur útgerðin, sem ráðið hafi.

Svona er trygð hv. þm. við kjósendur sína. Svo þegar kemur fram frv. frá stjórninni til þess að hindra landhelgiveiðar, þá rís þessi hv. þm. upp með vonsku. Hann er aftur sá eigingjarni landhelgiræningi, sem vill ekki, að varðskipin geti notið sín.

Þeir, sem best þekkja til, eins og Bistrup sjóliðsforingi, segja, að það sje vegna loftskeytanna, að svo erfitt er að ná íslensku togurunum, og fyrir þessu loftskeytafrelsi, sem ætlað er til glæpa, berst háttv. þm. með öllu sínu þori.

Jeg ætla nú að skilja við þennan hv. þm. þar, sem nú er komið.

Kem jeg þá að hv. 1. þm. Reykv., en honum mun jeg gera skemri skil, vegna þess að það mál, er hann helst drap á, gagnfræðaskólinn á Akureyri, verður til umræðu hjer eftir fáa daga.

Hann heldur því fram, að brjef það, sem stjórnin sendi norður í haust, þar sem því er heitið, að skólinn fái reglugerð sniðna eftir reglugerð mentaskólans, sje algerlega ólöglegt að öllu leyti.

Til hægðarauka vil jeg minna á tvent.

Jón Magnússon sagði á Akureyri síðasta vorið sem hann lifði, að það væri ætlunin að láta skólann fá rjett til stúdentsprófs 1930.

Nú býst jeg við, að það verði erfitt fyrir hv. 1. þm. Reykv. að halda því fram, að það hafi verið goðgá, sem jeg hefi gert, þegar jeg er einmitt að framkvæma vilja fyrv. flokksbróður hans.

Og enn segir Jón heitinn Magnússon — það er í þingtíðindum 1925. C. bls. 530:

„Eins og kunnugt er, var skipulagi latínuskólans breytt 1904 með stjórnarráðsráðstöfun, og heimildin til slíkrar ráðstöfunar er enn fyrir hendi. Skipulag mentaskólans er nú bygt á reglugerð, en ekki lögum.“

Maður skyldi halda, að hv. 1. þm. Reykv. hefði kynt sjer þetta mál svo, að hann færi ekki að bera fram mótsagnir við það, sem fyrverandi húsbóndi hans hefir sagt.

Nú er það vitanlegt, að um mentaskólann gilda engin lög önnur en launalög kennara, og þau aðeins að nokkru leyti. Alt annað hvílir á reglugerð, sem stjórnin hefir gefið út, meira að segja fimm af kennaraembættunum við skólann líka, sem hvíla á tilkynningu frá stjórnarvöldunum. Nú finst mjer erfitt að setja mig inn í þann hugsunarhátt hv. 1. þm. Reykv., að þá aðferð, sem notuð hefir verið við mentaskólann, megi hvergi nota annarsstaðar. Hinsvegar væri hægt fyrir mig að gerbreyta mentaskólanum með meira rjetti en sá hafði, sem ráðstafaði Thorcillisjóðnum. En úr því að stúdentamentunin íslenska hvílir á vilja stjórnarinnar á hvaða tíma sem er, þá er það ekki nema eðlileg afleiðing, að stjórnin geti gefið hverjum sem er prófrjett. Allir vita t. d., að Jón Sigurðsson útskrifaðist frá privatmanni. Alveg á sama hátt væri hægt fyrir stjórnina að gefa t. d. einum presti í hverjum landsfjórðungi rjett til þess að útskrifa stúdenta eftir vissri reglugerð. Ef það er eftir sömu reglugerð og reglugerð mentaskólans, yrði háskólinn að taka við þeim stúdentum, eins og sjá má á brjefi háskólaráðsins.

Heldur hv. 1. þm. Reykv., að þetta sje markleysa ein? Heldur hann, að Akureyrarskólinn útskrifi ekki stúdenta í vor, sem háskólinn tekur svo við? Jú, sannarlega, og alt þetta sprikl í hv. þm. er alveg árangurslaust. Málið hefir sinn gang alveg eins og piltarnir í mentaskólanum læra sínar lexíur, þótt það sje ekki skipað með lögum að kenna þýsku, frönsku og latínu í efri bekkjum skólans.

Hv. þm. gat sparað sjer þetta ómak, því að hann þurfti aldrei að láta sjer detta í hug, að gerðust einhver undur og býsn í þessu sambandi aðeins af því að hann mótmælti þessu. Stjórnin gerði það, sem hún gat, og gaf skólanum á Akureyri rjett til þess að útskrifa stúdenta eftir vissu formi. En svo er dálítil forsaga fyrir þessu máli, sem þingið er ekki alveg laust við. Í þessari deild var það ákveðið 1924, að skólastjórinn á Akureyri mætti nota bekkina til framhaldsnáms, ef það kæmi ekki í bága við húsnæði skólans, og þar með var byrjað á þessu námi. Árið eftir tekst svo 1. þm. Eyf. að fá fjárveitingu til þess að halda uppi lærdómsdeild við skólann. Íhaldsstjórnin tók þessa fjárveitingu í fjárlögin, og þar með er viðurkenningin fengin frá þeim flokki líka, þegar þetta er samþ. af öllu Alþingi. Vantaði þá skólann ekkert annað en prófrjettindi, og það var það, sem núverandi stjórn veitti Akureyrarskólanum. Með því móti gaf hún fólkinu tækifæri til að velja, hvort það vildi heldur senda syni sína og dætur í mentaskólann eða skólann á Akureyri, en fyrir norðan er alt að helmingi ódýrara að lifa en í Reykjavík. Jeg held, að jeg verði að hrella hv. 1. þm. Reykv. með því að segja, hvers vegna honum er svo illa við þetta mál. Það er fyrir hans eigin skammsýni, eigingirni og fáfræði.

Þegar Íslendingar áttu sem örðugast og til stóð að flytja fólkið suður á Jótlandsheiðar, lögðust báðir skólarnir niður, bæði á Hólum og í Skálholti. Nokkru síðar er skóli stofnaður aftur í nágrenni Reykjavíkur, en Norðlendingum lofað skóla. Um þetta eru þeir ekki einungis sviknir, heldur er stolið af þeim peningunum fyrir Hólaskóla, því að Hólaskóli átti töluverðar eignir. Um það gætu prófessorarnir í sögu við háskólann í Reykjavík frætt hv. þm. (MJ), hvernig rjettarstaða Reykjavíkur var til stolnu peninganna að norðan.

Ef Reykjavík hefði gert vel við mentaskólann, þá hefði dregist, að þessi krafa um skóla nyrðra hefði komið fram. Einn af kennurum mentaskólans sagði á fjölmennasta stúdentafundi, sem haldinn hefir verið í Reykjavík, að bærinn hefði búið skammarlega við skólann og ekkert gert nema yfirfylla hann. Reykjavíkurskóli hefir enga aðstöðu fyrir útiíþróttir (sport), eins og utanlands er, og ekki heldur að bærinn hafi sagt sem svo: Úr því að við höfum skólann, þá skulum við gera eitthvað fyrir aðkomumenn. Það hefir ekkert verið gert nema að fjefletta þá. Hvernig hafa svo yfirvöldin búið að þessum skóla? Jón Ófeigsson kennari sagði, að af þeim 25 skólum, sem hann hefði heimsótt utanlands, hefði aðeins einn verið ver útbúinn; þetta er hans dómur. Jeg ætla ekki að fara verulega út í það, hvernig búið er að honum að öðru leyti, hvernig hann er yfirfullur og hvernig þar er brotið á móti einföldustu heilbrigðisreglum. Í vetur eða í haust var verið að setja miðstöð í skólann. Voru ofnarnir þá teknir burt, og svo sátu um 28 manns í hverjum bekk, köldum og með ónýtum gólfum.

Gangarnir í þessum gamla skóla eru svo þröngir, að ekki er hægt að hengja þar frammi yfirhafnir nemenda; alt af þessum 280 nemendum verður að hengja upp inni í skólastofunum hjá þeim, hvernig sem þeir eru til reika. Jeg þekki ekki dæmi til slíkrar meðferðar á mönnum, slíks ódæma skrælingjaskapar, nema ef vera kynni í sögum Tolstoi's, þar sem lýst er meðferð á föngum í Síberíu. En þetta er það djásn, sem hv. 1. þm. Reykv. vill draga allan ungdóm landsins í; sá hv. þm. getur ekki hugsað sjer það, að fólk utan af landi vilji ekki borga helmingi meira hjer fyrir alla aðbúð heldur en það þarf á Akureyri, getur ekki skilið, að fólkið vilji hafa miklu betri skóla en þessi er. Hv. þm. skilur ekki, að menn fyrirlíta hjartanlega meðferð fyrverandi stjórna á þessum skóla, og inn í þessa pælu vill hv. þm. draga sveitafólkið; er þó ekki svo vel, að hann hafi barist fyrir neinum endurbótum þar nje fengið þeim framgengt.

Hjá skólanum er steinhús, sem bókasafnið er geymt í. Er húsið gefið skólanum af ríkum Englendingi, en það hús er lokað fyrir nemendum skólans. Gefandinn ætlaðist til, að þessi gjöf væri til gagns fyrir nemendur skólans, — en til hvers hefir hún orðið? Jeg hitti í haust mentaða konu, sem var farin úr skólanum fyrir 6 árum. Hún spurði mig, hvað væri í þessu húsi. Hún vissi ekki, hvað væri í bókasafnshúsinu. Betra hefði verið að gefa Oddfellowfjelaginu húsið en að fara svona með það, þó að jeg álíti nú ekki, að þeir eigi að hafa Thorcillisjóðinn.

Þó að jeg geri ekki mikið fyrir mentaskólann í Reykjavík, þá er jeg þó sá fyrsti maður í stjórn landsins, sem hefir haft viðburði til að láta nota þennan sal í húsinu. Jeg hefi látið húsameistara athuga skilyrðin fyrir því að gera bókasafnshúsið nothæft. En það er ekki þetta, sem liggur hv. þm. á hjarta, heldur það, að koma keppinautnum fyrir kattarnef. Hv. þm. væri það fagnaðarefni, ef hann mætti halda þessu ástandi óbreyttu.

Stundum, þegar jeg lít á hv. 1. þm. Reykv., mann, sem er sæmilega greindur og veit töluvert, og fer að hugsa um það, hve lítið gagn hann gerir fyrir samtíð sína, þá vaknar hjá mjer spurningin um það, hvernig hafi verið hægt að grafa þetta litla pund í jörðu, og þá finst mjer, að það hljóti að vera af því, hvernig farið hafi verið með hann í mentaskólanum. Þeir, sem hafa haft þá gæfu að sjá, hvernig nágrannaþjóðir okkar fara með sína stúdenta, geta ekki haft nógu sterk orð um það, hvernig farið er með þessa námsmenn hjer, og þá er hv. 1. þm. Reykv. ekki öfundsverður af því að berjast á móti umbótum á uppeldi langskólagenginna manna.

Jeg sagði á fundi hjer í vetur, að það hefði verið skorið úr þessu máli 9. júlí í sumar. Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðismenn og Jafnaðarmenn höfðu unnið að því á undanförnum þingum að fá Akureyrarskóla viðurkendan sem mentaskóla, en við kosningarnar í sumar biðu Íhaldsmenn ósigur, því að þjóðin dæmdi yfir þeim Stóradóm. Jeg sagði, að í sumar hefði verið dæmt um þetta, þá var dæmdur sá Vopnadómur, er ákvað, að mentaskóli skyldi settur á Akureyri, og þetta verður þáttur í baráttu sveitanna til að verja menningu sína. Skyldi það nú ekki vera hugsanlegt, að þessi vonska, sem hefir verið í sumum háskólamönnum hjer, stafi af blindri gremju yfir því, að á Akureyri kemur upp skóli, sem verður talsvert betri og talsvert meiri aðsókn að úr öðrum landshlutum heldur en að mentaskólanum í Reykjavík? Jeg vil vinna að því að bæta skólann hjer, en jeg skal ekki segja neitt um, hvernig það gengur; það getur vel verið, að hv. 1. þm. Reykv. vilji ekki láta bæta hann. — Þegar Guðmundur Björnson varð læknir við skólann, voru engir hrákadallar í skólanum, og kostaði það hann mikla baráttu að fá þá tekna þar upp, og svona hefir alt þar verið á sömu bókina lært.

Hv. 1. þm. Reykv. mintist í ræðulokin á eitt mál, sem jeg vil nú athuga lítið eitt. Hann las upp ádeilu, gerða í einu bæjarblaðinu, á húsameistara ríkisins fyrir það, að hann hefði ekki tekið lægsta tilboði í sljettun landsspítalans. Jeg þarf nú ekki að svara þessu miklu, því að hv. þm. er ekki nógu kunnugur málinu til þess að geta talað með um það. Gangur málsins er sá, að húsameistari ríkisins bauð þetta út og vildi fá sjertilboð fyrir hverja hæð í sljettun á gólfum og veggjum og sameiginlegt tilboð fyrir alt saman. Þegar tilboðin voru opnuð, — þau voru fjögur alls, en jeg þarf ekki að geta nema tveggja þeirra lægstu —, þá var annað 125 þús., en hitt 119 þús. krónur. Lægra tilboðið var auðvitað tekið, en hinn maðurinn, sem hafði hærra tilboðið, var að reyna að hanga á því, að ein talan væri skrifuð neðan við eitthvert strik á blaðinu og sagði, að þessi skilningur bryti í bága við reglurnar fyrir útboðinu. Þetta var borið undir viðkomandi skrifstofustjóra í stjórnarráðinu, og svaraði hann því, að það væri ómögulegt að ganga framhjá lægsta tilboðinu, og urðu allir sammála um það. Mjer er sem jeg sjái það fyrir mjer, ef við hefðum ekki tekið lægsta tilboðinu, hvernig hv. þm. (MJ) hefði breitt sig út um óspilunarsemi stjórnarinnar, ef við hefðum tekið næsta tilboði fyrir ofan, sem var 125 þús. krónur. Hv. þm. hefði þá víst haldið langa ræðu um það, að þarna hefðum við kastað burtu sex þúsund krónum. Jeg er hræddur um, að hv. þm. hafi verið kendur illa reikningur í mentaskólanum, ef hann heldur, að 125 þúsund sje lægra en 119 þúsund. Að minsta kosti verð jeg að játa vanþekkingu mína á þeim reikningi. Eitt af því marga góða, sem segja má um húsameistara ríkisins, er það, að hann hefir innleitt hjer útboð á húsum og hefir sparað ríkissjóði mörg hundruð þúsund krónur á því; en það er vitanlega ekki gert með því að taka dýrustu tilboðunum. En þessi grein, sem háttv. þm. var að lesa upp úr, er skrifuð af manni, sem var óánægður yfir því að fá ekki vinnu við þetta verk.

Þá var hv. 1. þm. Rang. (EJ) að spyrja mig um skólamál, og skal jeg svara því strax. Hv. þm. var óánægður yfir því, að jeg hefði ekki hrundið meira áfram skóla þeirra Rangæinga og Árnesinga austanfjalls. Jeg verð hjer að minna á forsögu þessa máls á þinginu 1926 og minna á það, að jeg átti þá drjúgan þátt í því, ásamt flokksbræðrum mínum, að það var veitt fje til þessa skóla austanfjalls. Það var þá búið að finna stað fyrir skólann, sem sýslunefnd Árnessýslu hafði valið, og jeg, ásamt þingmönnum Árnesinga, útvegaði skólanum 50 þús. kr. lán. Jeg hafði líka átt nokkurn þátt í því að útvega prófastinum í Hruna, síra Kjartani Helgasyni, heiðurslaun, ef hann tæki að sjer forstöðu þessa skóla. En hvað gerist svo í málinu? Það, að þegar jeg og mínir samherjar erum búnir að vinna svona að málinu, þá gerast þau miklu undur, að íhaldsstjórnin og formaður hennar, Jón heit. Magnússon, beittu öllum sínum áhrifum til þess að hindra framgang málsins, og notuðu til þess hjeraðskrit og hvað annað. Húsameistari átti að fara austur til þess að mæla fyrir skólanum, en stjórnin bannaði það. Málið hrundi þannig í grunn og lánið fjell, heiðurslaunin voru feld niður og málið þokaðist langt aftur á bak. Hv. þm. (EJ) getur þakkað þetta Jóni heitnum Magnússyni og öðrum sínum samherjum, að málið strandaði þá, en hv. þm. getur ekki sagt annað en að jeg gerði það, sem jeg gat, og við stóðum þá báðir saman á fundi austur við Þjórsárbrú og reyndum að bjarga málinu. Menn austanfjalls ákváðu að reyna að leita samkomulags enn á ný, og var sjerstök nefnd sett til þess. Árnesingar lögðu til tvo menn í nefndina, Rangæingar tvo, og stjórnin tilnefndi oddamann. En nú get jeg sagt hv. 1. þm. Rang. það, að Eggert heitinn Pálsson hjelt því fram, að það væri ómögulegt fyrir sýslurnar að vinna saman, og meðal annars var það bygt á þessu, að þingið ætlaði að veita Árnesingum fje til skólans. Oddamaðurinn, sem jeg tilnefndi í vetur, hallaði sannarlega ekki á Rangæinga, heldur á sveif með þeim, og átti þátt í að velja stað í þeirri sýslu. Stjórnin hefir ennfremur látið standa í fjárlögum sömu upphæð og verið hefir, til þess að ef bændur austanfjalls geta komið sjer saman um að byrja á skóla, þá sje eitthvert fje til taks, svo að hægt verði að hjálpa þeim.

Jeg þykist nú vita, að hv. þm. muni gera ráð fyrir því, að stjórninni beri skylda til að veita frekari aðstoð til framkvæmda heldur en orðið er, en þessu er nú svona varið, og hv. þm. má ekki halda það, að stjórnin sje blátt áfram skyld til að leggja fram fje í hjeraðsskóla, jafnvel þar, sem menn ekki vilja byggja hann. (EJ: Jeg hefi aldrei farið fram á það). Og hjer er líka í mörg horn að líta. Vestfirðingar vilja fá viðbót við Núpsskólann, Borgfirðingar og Þingeyingar sömuleiðis við sína skóla, og öll þessi hjeruð eru talsvert lengra komin með sína skóla heldur en þeir á Suðurlandsundirlendinu. Nú gæti jeg hugsað, að við yrðum sammála um þetta, og hv. þm. getur treyst á atkvæði mitt í þessu máli, því að jeg vil reyna að vinna að því að ýta áfram þessu skólamáli á Suðurlandi, eftir því sem mjer er unt, en jeg vil líka vinna með hinum, og stuðningur stjórnarinnar verður í hvert sinn að fara eftir því, hve mikla framsýni og dugnað hlutaðeigendur sýna í aðgerðum sínum. (EJ: Mjer þykir þetta alt sanngjarnt).

Þá kem jeg að hinni miklu píslarsögu hv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Hann hefir nú gengið hjer um með brotinn fót, eins og hetja sem kemur úr stríði. Jeg hefi mikla samúð með hv. þm. fyrir þessa líkamsveilu hans, en jeg hefi ekki samúð með öllum aðförum háttv. þm. og kjósenda hans.

Jeg held, að jeg verði að láta í ljós mína óblöndnu undrun yfir því, að hv. þm. (JAJ) skyldi leyfa sjer að taka til máls, eins og forsagan að kosningu hans er, og ennfremur leyfa sjer að fara að minnast á Hnífsdalsmálið, því að hv. þm. má vera það ljóst, að um fátt er meira talað á Íslandi en þá frekju og glæpi, sem dregnir hafa verið fram í dagsljósið í hans kjördæmi, og það er ekki vel lagað til að auka hróður þeirra íhaldsforkólfanna á Vestfjörðum hjá góðum mönnum og grandvörum úti um land. Þetta mál hefir ekki, svo að jeg viti, neitt nema ljótar og andstyggilegar hliðar, og það er þetta mál, sem hv. þm. svo leyfir sjer að draga inn í umræður hjer, og þess vegna verður það honum til angurs og frekari sektar, þó að jeg muni, þegar hann kemur inn á þingvöllinn og óskar eftir höggum og slögum, taka miskunnsamlega á honum.

Það var nú samt dálítið meiri völlur á sumum samherjum hv. þm. í sumar, þegar þeir fullyrtu, að það væri enginn blettur á flokksmönnum hans þar; þetta væri alt bannsettum sjómönnunum að kenna, sem hefðu falsað atkvæðin sjálfir. Nei, alt var hreinum hreint í Hnífsdal, það væru glæpamennirnir sjálfir, sem hefðu komið þessu máli af stað, en samherjar hans alveg saklausir.

Hv. þm. sagðist vera ósköp saklaus og óduglegur við undirbúning í sýslunni, aðeins sent nokkra mótorbáta til að hjálpa þeim að komast á kjörstað, sem hefðu átt erfiðast með það. Sagðist hafa skrifað undirkjörstjórnum sýslunnar og beðið þær að halda sjer dyggilega á vegi rjettlætisins. Við skulum nú athuga það, að þetta er annað þingmannsefnið, sem skrifar öllum kjörstjórnunum um það, að vera ekki að brjóta lögin. Það er eins og þingmannsefnið hafi haft sterkan grun um, að þetta gæti komið fyrir. Nú höfum við skýringuna á þessu. Hnífsdalssvikin eru komin upp fyrir kjördag, og það lítur út fyrir, að hv. þm. hafi ekki verið eins trúaður á sakleysi samherja sinna eins og Morgunblaðið var, þegar fregnin barst hingað. En þetta sýnir, að hv. þm. hefir haft ákaflega mikinn grun á sumum samherjum sínum, og það er svo mikil móðgun í því að skrifa þeim svona brjef, að það er nær alveg sama og að ásaka þá um glæp. Hvaða ástæðu hv. þm. hefir haft til þessa, má hann best vita sjálfur, en fyrir þessu höfum við játningu hv. þm. sjálfs.

Þá talaði hv. þm. um einhvern bjána, sem hefði farið að falsa atkvæði. Heldur er nú þetta kuldalega talað um verk, sem verið er að vinna honum til góðs, því að það er auðsjáanlegt, að falsarinn hefir borið mikla velvild til þessa hv. þm., sem ekki getur farið um það vægari orðum en að kalla manninn bjána fyrir að ganga svona langt í því að elska hann og vinna að hans gagni. Mjer finst þetta lítilmannlega talað um þann, sem hefir lagt sitt líf við hans líf í þessu máli.

Þá segir hv. þm. til sannindamerkis um sína miklu óbeit á þessu öllu, að það hafi verið hann, sem hafi heimtað rannsókn í málinu. Já, menn vita nú, hvernig því var háttað; en það eru að minsta kosti ekki meðmæli fyrir dómsmálastjórn Íhaldsins, ef það hefir verið brennandi ósk frá þessum samherja á Ísafirði, að þá hafi ekki verið tekið meira tillit til þess. Sannleikurinn er sá, að það var ákaflega lítið gagn að þeirri rannsókn, sem gerð var undir ægishjálmi þessarar stjórnar, því að þeir, sem með rannsóknina fóru, höfðu grautað öllu svo vel saman, að það var nær óleysanlegt. Og þegar jeg var að biðja lögfræðinga hjer að fara vestur, þá var svarið altaf það sama: Það er búið að eyðileggja málið. Þetta var sem sje álit allra lögfræðinga, sem jeg talaði við, að fyrsta rannsókn hefði eyðilagt málið, svo mjer finst, að íhaldsstjórnin hafi mjög svo móðgað þennan vin sinn, með því að fara svona að, eða þá að stjórnin hafi álitið, að þetta væri ekki svo alvarlega meint, eða henni hefir fundist beiðnin flutt á þann hátt, að ekki mundi vera mikil áhersla lögð á það, hvort borgarinn á Ísafirði yrði bænheyrður.

Jeg hjelt, að það mundi gleðja hv. þm. N.-Ísf. stórlega, að jeg hefi sýnt þessu máli svo góð skil. En það er nú eitthvað annað en að það hafi komið í ljós hjá honum. Um leið og dómarinn kemur vestur, er reynt á allan hátt að sjá um, að honum verði ekki vært þar. Hann er skammaður eins og hundur í málgagni íhaldsins har á staðnum, sem eins og allir vita er hv. þm. (JAJ) svo mjög innan handar, að telja má, að öll þessi framkoma sje á hans ábyrgð. Og þegar á að fara að handtaka þessa tvo menn, þá er komið annað hljóð í strokkinn heldur en þegar sjómennirnir voru teknir í varðhald í vor. Þar var ekki um neinn mótþróa eða neina uppreisn að ræða. En þegar taka á hreppstjórann í Hnífsdal, neitar hann að fara í varðhaldið og ber fyrir sig læknisvottorð. Frændur hans, sem eftir sögn hv. þm. voru viðstaddir sjúkrabeðinn, og hafa líklega lesið Passíusálmana yfir Hálfdáni og hans ágæta tengdasyni, neita að veita rannsóknardómaranum þá aðstoð, sem hann óskar eftir til að tryggja sjer nærveru þessara grunuðu manna. Þetta er nú uppreisn nr. 2. Nr. 1 var uppreisn íhaldsblaðsins á Ísafirði. Nr. 3 er uppreisnin í Bolungarvík. Gafst þar, sem víðar, tækifæri til að sjá, hve mjög flokksbræður hv. þm. þyrsti í rjettlætið og fullkomna rannsókn á málinu. Eftir að Pjetur Oddsson hefir framið ofbeldisverkið, sendir hann einu íhaldsblaðinu hjer í Reykjavík skeyti um þetta afrek sitt. Til að láta velþóknun sína í ljós yfir svívirðingu þessari birtir Morgunblaðið mynd af fálkariddaranum, eins og einhverri þjóðhetju — þessum frekasta uppreisnarsegg á Íslandi, sem reynir að stofna hjer til annarar Sturlungaaldar.

Ef nokkur pólitískur glæpur er til, þá er það slíkt framferði. Ekkert er gert til að greiða götu rjettvísinnar, en hinsvegar ekkert látið ógert til að hindra framgang hennar. Jeg býst ekki við, að hv. þm. vilji kalla Pjetur Oddsson bjána, eins og aðra þá, sem hafa verið að vinna að kosningu hans í samræmi við innræti sitt þar vestra. Jeg efast ekki um, að til kunni að vera góðar hliðar á Pjetri Oddssyni, en það kemur bara ekki þessu máli við.

Þá kemur uppreisn nr. 4. Það er uppreisn hv. þm. í rjettinum. Dómari er fenginn, sem leggur alla orku og hug á það að rannsaka málið til hlítar. Þegar þessi hv. þm. er kallaður fyrir rjettinn, kemur hann þar fram með þvílíkum ofstopa og ósvífni, að þess eru fá dæmi. — Nr. 5 eru blaðaskammirnar um Halldór Júlíusson, sem voru svo freklegar, að annað eins hefir ekki þekst í íslenskri blaðamensku.

Þá kemur nr. 6. Það er það atriði málsins, að hv. þm. skuli hafa getað fengið flokksmenn sína til að taka kosningu hans gilda, þrátt fyrir það, þótt stórfeld glæparannsókn stæði yfir út af kosningunni. Þetta mál hefir verið borið fram af svo miklum ákafa og af svo mörgum mönnum í Íhaldsflokknum, að það hlaut að vera alvarlegt áfall fyrir flokkinn, ef rannsókn leiddi það í ljós, að hjer væri um fals og svik að ræða. Það má því kallast meira en lítið kæruleysi að leggja flokkinn svo í hættu fyrir þingmensku hv. þm. (JAJ). Aldrei hefir það komið fyrir, að jafnsvívirðilegt atferli hafi verið notað nokkrum þingmanni til brautargengis.

Jeg skal benda á það sem dæmi þess, með hvílíkri athygli menn fylgdu þessu máli um land alt, að það tölublað Tímans, sem rithandarsýnishornin voru birt í, hefir selst meira en nokkurt annað blað í Reykjavík fyr eða síðar, og úti um sveitir landsins er það geymt eins og dýrgripur. Ekkert glæpamál hefir nokkru sinni komið fyrir hjer á landi, sem jafnmargir Íslendingar hafa myndað sjer rökstuddar hugmyndir um. Og það er áreiðanlegt, að þær hugmyndir, sem menn hafa myndað sjer um það, eru ekki neitt sjerlega ánægjulegar fyrir hv. þm. N.-Ísf. nje flokksbræður hans.

Jeg get glatt hv. þm. N.-Ísf. með þeirri frjett, að hin fræga rannsóknarstofa í glæpamálum, Scotland Yard, hefir þegar felt úrskurð sinn í málinu, og jeg býst við, að undirrjettardómur og hæstarjettardómur verði bygðir á þeim úrskurði. Það getur vel verið, að hv. þm haldi, að enginn af samherjum sínum sje við málið riðinn, en Scotland Yard er þar í engum vafa.

Líka get jeg skýrt frá því, að fram hafa komið nýjar falsanir, sem ástæða er til að ætla, að nýir menn sjeu við riðnir. Býst jeg við, að Halldór Júlíusson sendi einnig þessa seðla til Scotland Yard, og getur því hinn endanlegi dómur í fölsunarmálinu ekki verið uppkveðinn fyr en þau gögn eru heim komin aftur.

Þrátt fyrir þessa afstöðu hv. þm. N.-Ísf. leyfir hann sjer þó að skora á dómsmrh. að fara í sjerstaka tegund af málaferlum við sig. Jeg geri nú ekki ráð fyrir, að jeg láti hann skipa mjer fyrir um það, í hvaða mál jeg fer, en hann getur verið viss um, að kosningarfölsunarmálinu held jeg til streitu. Jeg hefi líka hugsað mjer að verða við þeim kröfum þingsins að taka upp rannsókn á kosningunni á Ísafirði 1923, og finst mjer, að hv. þm. geti beðið þangað til sú rannsókn er um garð gengin. Vonast jeg eftir, að hægt verði að skiljast svo við þetta mál, að þorsta hans verði svalað.

Hinsvegar er svo langt liðið frá kosningunni á Ísafirði 1919, að ógerningur virðist vera að rannsaka hana hjeðan af, þótt hún hafi ef til vill verið skáldlegust af öllum kosningum. Getur því hv. þm. verið rólegur út af þeirri kosningu. Einu verðlaunin, sem hv. þm. á skilið fyrir það hámark ósvífninnar að heimta rannsókn í sínu eigin hreiðri eftir það, sem á undan er gengið, eru þau, að hann fái fálkakross, svo að hann standi þjóðhetjunni í Bolungarvík í engu að baki.

Hv. þm. N.-Ísf. beindi þeirri spurningu til mín, hvað gert yrði við kæru hreppstjórans í Bolungarvík til stjórnarráðsins. Jeg get nú ekki sjeð, hvaða greiði honum er í því, að hróflað sje við hví máli, þar sem fyrir liggja hin gleggstu skilríki um falsvitnisburð Íhaldsflokknum í vil. Finst mjer, að hann gerist furðu djarfur, er hann spyr að þessu. Vitnin hafa borið það, að þau hafi borið falsvottorð í fyrstu, af hví að þau hjeldu, að málstaður Íhaldsins væri í veði. Bolvíkingar eiga ef til vill eftir að bera ábyrgð gerða sinna, og jeg get ekki sjeð, hvernig slíkt fólk getur heimtað rannsókn á dómara, sem það hefir borið falsvitni fyrir.

Hv. þm. sagði, að ef hann hefði eitthvað ofmælt, væri ekki annað fyrir mig en fara í mál við sig. Jeg get sagt honum það, að jeg get farið aðrar leiðir en að fara í mál við hvern negra, sem býður mjer upp á það. Jeg veit, að jeg hefi haft almannadóminn með mjer í þessu máli, en Íhaldsflokkurinn á móti sjer, og jeg er ekki svo illa settur, að jeg þurfi að hreinsa æru mína með málaferlum. Hv. þm. N.Ísf. kynni að þurfa þess með, en jeg þarf þess ekki.

Þá vík jeg að fyrirrennara mínum, hv. 1. þm. Skagf. Jeg get nú stytt mál mitt vegna þess, að jeg hefi að mestu svarað honum áður. Hefi jeg bent á, hvernig stjórnin fór honum úr hendi, og varð lítið um svör hjá honum, sem vonlegt var. Jeg benti á ráðleysi hans, þegar hann lánaði 15 þús. krónur úr Fiskiveiðasjóði á móti ráðum skrifstofustjóra síns. Skipið, sem þetta fje var lagt í, stendur nú uppi í fjöru sem háðulegt minnismerki yfir þessu stjórnarafreki hv. 1. þm. Skagf. Vil jeg nú spyrja þennan háttv. þm., hvort hann treysti sjer til að leggja við drengskap sinn, að ungur málaflutningsmaður hjer í bæ, sem hann hefir haft mikið saman við að sælda, hafi ekki haft neinn hagnað af þessari ráðstöfun. Það er nefnilega almannarómur, að þessi maður hafi herjað þetta fje út úr þáv. ráðh., og vil jeg nú gefa honum tækifæri til að neita því, ef hann treystir sjer til. (MG: Jeg geri það hjer með). Þetta er samt útbreidd skoðun, en nógu slæmt er, að lánstryggingin var svo ljeleg, sem raun var á, þótt hitt bættist ekki við. Úr sjóði þessum hafa aldrei tapast upphæðir, sem neinu hafa numið, nema þetta lán, sem hv. 1. þm. Skagf. kastaði á glæ.

Um Ohm-málið þarf jeg ekki mörgu að svara honum, því að um það hefi jeg þegar svarað öðrum hv. þm. Hann sagði, að úr því að þessi hluti björgunarlaunanna var gefinn, hefði verið nær að gefa hann innlendum mönnum. Jeg fylgdi heimsvenjunni í þessum efnum, þótt hann hafi ekki aðstöðu til að skilja, hvílíku hneyksli hjer var afstýrt.

Hv. þm. rakti sögu Thorcilliisjóðsins og vildi sýna, að gjafabrjefið væri ekki svo úr garði gert, að það væri bindandi lengur. Auðvitað sjer hver heilvita maður, að á sama stendur, hvort umráðamaður sjóðsins heitir stiftamtmaður, landshöfðingi eða ráðherra. Það er alveg tvímælalaust lagabrot að afhenda einkafjelagi umráð yfir sjóðnum, enda býst jeg við, að stjórnin geri ráðstafanir til þess, að fyllilega verði skorið úr því máli.

Um það, sem gerðist í Barðastrandarsýslu, þarf jeg ekkert að segja. Saga þess máls skýrir sig sjálf. En það getur varla talist nein ósanngirni af mjer að skýra frá því, að hinn ungi lögfræðingur, sem fyrv. stjórn sendi vestur, fór þangað jafnframt í gróðaerindum fyrir sjálfan sig, og þau voru framkvæmd á opinberu uppboði í samráði við sýslumann. Þetta sýnir svo mikla rotnun hjá fyrv. stjórn, sem er meira ámælisverð en hinn ungi maður, sem hjelt, að þetta væri alt gott og blessað, þar sem stjórnin hafði lagt samþykki sitt á það. En það er sannanlegt, að stjórnin leyfði þetta, og háttv. 1. þm. Skagf. sjer auðvitað ekkert athugavert við það. Svo kemur það í ljós ári síðar við nýja skoðun, að sjóðþurð er hjá þessum sýslumanni, ólag á meðferð dánarbúa og í stuttu máli embættisfærslan öll í ólagi. Verð jeg að segja, að þetta kemur sjer, vægast sagt, mjög óþægilega fyrir hv. 1. þm. Skagf. og stjórn hans.

Þá vildi háttv. þm. halda því fram, að jeg hefði eiginlega ekki hrint áfengisvörnunum í neitt betra horf en hann. Háttv. þm. neitaði, að læknar hefðu minkað nokkuð áfengisreceptagjafir sínar fyrir þá sök, að skýrsla Björns Þorlákssonar hefði verið birt. Um þetta munu áframhaldandi skýrslur gefa bestan vitnisburð. Mjer tilheyra aðeins 4 mánuðir af skýrslu þeirri, er birt hefir verið, og eru þeir ekki greindir sjerstaklega frá, svo að lítið verður sjeð af henni. En við skulum sjá til, þegar skýrslan fyrir 1928 kemur. — Hv. þm. hjelt því ennfremur fram, að ekkert hefði minkað drykkjuskapurinn á skipunum. Mintist hann í því sambandi á ferð, sem við vorum samskipa síðastl. haust, og sagði, að þar hafi verið mikið vín um hönd haft. Þetta er rjett, en það var líka áður en settar voru reglurnar til að koma í veg fyrir drykkjuskap á skipunum. Jeg get sagt mönnum eitt dæmi um það, hvernig ástandið var. Í sumar, um það bil, er stjórnarskiftin urðu, átti einn af brytunum á skipum Eimskipafjelags Íslands 400 flöskur af áfengi undir innsigli. Einhver svik komust upp um hann, og var hann rekinn af skipinu. En þá símar hann til skipstjóra og biður hann að kasta fyrir borð vínbirgðunum. Skipstjóra þótti þetta undarlegt, en ætlaði samt að verða við bóninni. Gætti hann þá í flöskurnar, og komst þá upp, að í þeim var eintómt vatn. Það vitnaðist síðan, að brytinn hafði haft meðferðis 400 flöskur af áfengi, ljet innsigla þær, en komst um leynidyr í skápinn, þar sem þær voru geymdar. Tók hann þar vínflöskurnar, en skildi vatn eftir. Sami maður varð uppvís að því að hafa svikið vindlatoll af landinu svo að nam 5 þús. krónum. — Svona var ástandið. Nú hafa íslensk skip ekki leyfi til að hafa neitt áfengi uppi við, meðan þau eru við landið, og útlend skip ekki nema ½ líter á hvern fastan skipverja. Þegar hámarkið nú, nálægt 10 l., er borið saman við „Lagarfoss“ áður, sýnist munurinn óneitanlega vera nokkur.

Þá sagði hv. 1. þm. Skagf., að jeg hefði snúist í áfengismálunum, og taldi því til sönnunar, að jeg hefði ekki sagt upp Spánarsamningnum eða lokað vínbúðunum. Jeg sagði í gær, að það er mín skoðun, að ekki beri að hrófla við Spánarsamningnum, nema því aðeins, að greinilegur meiri hluti þjóðarinnar vilji það. Í fyrra var það yfirlýstur þingvilji, að ekki bæri að leita nýrra samninga, hvað þá að segja gildandi samningi upp. Þessa yfirlýsingu skoða jeg sem bindandi fyrir mig, þar til ný atkvgr. hefir farið fram. Jeg skal vinna með að því að hrinda af hinu spanska oki, ef þjóðin vill það. En jeg svíkst ekki að þjóðinni. Meiri hlutinn vill ekki endurskoðun, og í þeim meiri hluta er hv. 1. þm. Skagf. og allur flokkur hans. Að þessu leyti stýri jeg í þeirra anda. Þeir vildu ekki heldur loka vínbúðunum, þótt hv. þm. áfellist mig nú fyrir að gera það ekki. Jeg vil þá spyrja hv. þm. að einu: Vill hann og flokkur hans þá í alvöru fara eins að gagnvart Spánverjum og Belgir fóru að gagnvart Þjóðverjum 1914? Ef hann svarar þessu engu eða neitandi, þá getur hann ekkert sagt. Hann hefir ekki rjett til að krefjast neins af mjer. Hann er sjálfur potturinn og pannan í því að gera ómögulegt að ná nýjum samningum fyr en nýr meiri hluti hefir skapast í málinu. Í þessu máli fer eins og oftar: það er sekt hv. 1. þm. Skagf., sem sannast, en ekki mín.

Þá sagði hv. þm. út af varðskipunum, að launalögin hafi verið aðallögin. Þetta er nýstárlegt að heyra. Því að hingað til hafa blöð hv. þm. haldið því fram, að það væru ekki launin, sem mestu máli skifti um, heldur hitt, að skipverjarnir hafi verið skráðir ólöglega. En fyrst það eru aðeins launalögin, sem um er að ræða, þá ræður stjórnin því alveg, hvenær hún framkvæmir þau. Það er alveg hliðstætt dæminu, sem jeg nefndi um fasteignabankann 1921. — Þessi yfirlýsing var annars aðeins merkileg að því leyti, að hún var snoppungur á meginþorra íhaldsblaðanna, sem hafa talið lögskráninguna vera þungamiðju málsins.

Háttv. þm. sagði nú, og hefir það áður komið fram í blöðum hans, að skrásetningin hafi fallið niður af sjálfu sjer. Við þetta er tvent að athuga. Fyrst það, að skipverjarnir voru afskráðir seint og síðarmeir, af öðru skipinu hjer í Reykjavík og hinu á Siglufirði. Nú segir hv. 1. þm. Skagf., að þetta hafi verið óþarft og hafi verið gert á móti hans skapi. En skipstjórarnir ljetu samt sem áður gera það, sem er aðalatriðið, og varla hafa þeir viljað styggja háttv. 1. þm. Skagf. að óþörfu, þar sem hann er þeim svo góður. — Svo er hitt atriðið. Ef lögin upphefja skrásetninguna og hún hefir fallið úr gildi af sjálfu sjer, þá eru allar ásakanir í minn garð hjegóminn einber. Því að það er augljóst, að þá hefir skráningin í september ekki verið gild, og mennirnir eru þá ólögskráðir eftir sem áður. Þá hafa engin lög verið brotin. — Hvernig sem málinu er snúið, hefir hv. þm. eyðilagt sinn málstað. Ef hallast er að því, að það sje lögbrot að hafa mennina skrásetta, þá hafa þeir fyrst verið það vikum og mánuðum saman á ábyrgð hv. 1. þm. Skagf., og síðar stuttan tíma á mína ábyrgð. Jeg hefi nú ekki álitið, að þörf gerðist að hefjast handa gegn hv. þm. út af þessu. En ef flokksbræður hans vilja það endilega, skal jeg ekki hafa neitt á móti því, Þótt hann verði dreginn fyrir landsdóm.

Um annríki fyrv. stjórnar síðustu dagana hefir hæstv. forsrh. talað og sýnt fram á, að alt var ólöglegt, sem verið var að hespa af. Jeg á samt bágt með að trúa því, að hv. 1. þm. Skagf., annar eins eljumaður við undirtylluvinnu í skrifstofu, hefði ekki komið því af að skrifa undir fáein veitingarbrjef. Annars er það augljóst, hver gangur þessa máls er. Þetta hefir átt að vera hrekkjabragð frá háttv. þm. Hann hefir búist við, að jeg yrði í nýju stjórninni, og hefir hugsað sem svo, að gaman væri að láta mig framkvæma þessa veitingu, er jeg hafði verið svo mjög á móti. Því lætur hann búa þetta út, vjelskrifa það á hinn fagurlegasta hátt, með 12 þús. kr. launum handa skipstjórunum. Þegar búið væri að skrifa undir þetta, átti að gera árás á nýju stjórnina og segja, að hún hafi svikið hugsjónir sínar. Hennar fyrsta verk hafi verið að snúast í þessu máli. En ef þetta er rjett, að hv. þm. hafi gengið til svona lítilfjörlegur drengjaklókskapur, þá hefir honum mistekist. Eftir látunum við mig út af þessu máli býst jeg við, að hann hafi fengið að líða sitthvað hjá hv. flokksbræðrum sínum. Samherjar hans eiga fullan aðgang að honum í þessu máli. Hann hefir með seinlæti sínu slegið vopnin úr höndum þeirra og gert að verkum, að e. t. v. verður nokkrum sparnaði við komið, sem sumum vinum hv. þm. sýnist ekki um gefið.

Jeg hafði í fyrri ræðu minst á nokkur lögbrot sumra fyrirrennara minna, sem enginn ræðumanna hefir reynt að verja. Þessi 4 voru einna stærst: Frestun laganna um fasteignabankann. Brot Hannesar Hafsteins á lotterílögunum. Brot hv. 1. þm. Skagf. á lögunum um atvinnu við siglingar. Lögbrot allra ráðherra á fyrirmælunum um skrifstofufje sýslumanna. Hugsa jeg, að hv. þm. sjeu ekki svo skyni skroppnir, að þeir sjái ekki, hvað þetta þýðir. Úr því að þeir sjálfir og átrúnaðargoð þeirra hafa leyft sjer að brjóta þýðingarmikil lög, þá er lítil von um sókn af þeirra hálfu gegn mjer, þótt jeg hafi látið haldast það ástand á varðskipunum, sem var, er jeg tók við. Jeg hefi sagt það skýrt og skorinort, hvað mjer hefir gengið til. Úr því að Íhaldið hafði ekki manndáð í sjer til að veita embættin, þá sagði jeg, að hin hættulegu ákvæði laganna skyldu aldrei koma til framkvæmda. En þar á jeg við of há laun skipstjóranna og æfilanga veitingu embætta þeirra. Jeg hefi rökstutt þetta, og þessi viðleitni kemur af því, að jeg geri ráð fyrir, að mikið megi bæta landhelgigæsluna með því að stilla í hóf um eyðsluna, en gera skynsamlegar kröfur til skipverja og yfirmanna.

Jeg býst við, að svo fari um þetta mál sem áfengisvarnirnar og Akureyrarskólann, að menn sjái fljótlega, að breytt hefir um til batnaðar við stjórnarskiftin.