29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

1. mál, fjárlög 1929

Jóhann Jósefsson:

Hæstv. dómsmrh. hefir gert ítarlegar tilraunir til þess að gera alla þá þingmenn, sem tekið hafa svari varðskipaforingjanna íslensku, á einhvern hátt tortryggilega. Hann hefir t. d. helt sjer með óbótaskömmum yfir hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) og að nokkru leyti yfir hv. 1. þm. Reykv. (MJ).

Minni aðstöðu ætlaði hann að hnekkja með gamla rógberalaginu, sem honum er orðið svo tamt, þegar hann þarf að ófrægja menn eða málefni. Hann sagði, að jeg hefði dregið mjer allmikið fje úr landhelgisjóði 1926, sem samkvæmt landsreikningnum væri fullar 20 þús. kr. Væri fje þetta fyrir skemdir á veiðarfærum. Sagði ráðherrann þann veg frá þessu, að þeir, sem ókunnugir eru málavöxtum, hefðu mátt ætla, að hjer væri um bitling að ræða, sem fyrv. stjórn hefði stungið að kjósendum mínum eða jafnvel að sjálfum mjer. Ennfremur var á honum að heyra, að jeg hefði ábyrgð á reikningsfærslu landhelgisjóðs. Úr þessu ætlaði svo hæstv. dómsmrh. að gera sjer mat að venju. Hvort sem ráðherrann hefir hjer skýrt villandi frá málavöxtum vísvitandi, sem líklegast er, eða hitt, að hann hafi ekki hirt um að afla sjer rjettra upplýsinga, þá skal nú villu hans hnekt þegar að því er þetta atriði snertir.

Skal jeg nú segja honum og öðrum hv. deildarmönnurm rjetta málavöxtu, eins og þeir liggja fyrir í skjölum í stjórnarráðinu, og ráðh. hefði verið innanhandar að kynna sjer, ef hann hefði hirt um að vita rjett.

Svo stóð á í aprílmánuði 1926, að frá Vestmannaeyjum voru reknar af mesta kappi fiskiveiðar í þorskanet, sem lögð voru á sama svæði langt fyrir utan landhelgi. Eftir að Vestmannaeyingar eignuðust Þór, gátu þeir með aðstoð hans helgað sjer svæði þetta og önnur, sem reynst hafa fengsæl, og stundað þar í næði netaveiðar sínar. En svo grandgæfilega verður að vakta svæðið á meðan netin liggja, að Þór má aldrei frá netunum víkja, svo að ekki hljótist tjón af yfirgangi botnvörpunga, sem þeir eru tilbúnir að sýna hvenær sem færi gefst. Þetta er margra ára reynsla þar um slóðir, sem ekki verður móti mælt. Enda segir það sig sjálft, að um meira en lítið tjón geti verið að ræða hjá 80–90 bátum, sem hver fyrir sig hefir um 2–3 netatrossur liggjandi, þegar botnvörpungar fara með botnvörpur sínar um svæðið og svífast einskis.

Sem sagt, þarna á þessu svæði var Þór staddur í aprílmánuði 1926, eða á aðalaflatíma eyjaskeggja. En einmitt þá dagana bárust til Reykjavíkur fregnir um usla og yfirgang botnvörpunga austur með söndum, og var mælst til, að landsstjórnin gerði einhverjar ráðstafanir þar að lútandi. Skipstjórinn á Þór, sem nú er 1. stýrimaður á Óðni, duglegur og áhugasamur maður, vildi gjarnan komast austur með söndum, til að hafa hendur í hári sökudólga, en gat það ekki nema að leggja veiðarfæri eyjamanna í hættu.

Landsstjórnin leitaði mjög fast á stjórn Björgunarfjelags Vestmannaeyja, að hún leyfði Þór að bregða sjer austur með söndum, en björgunarfjelagsstjórnin færðist undan og færði sem rök fyrir því, að eyjaskeggjar mættu ekki við því þá að tapa Þór frá netavörslunni. Að vísu mun þessu ekki hafa verið harðneitað, en þó gefið fyllilega í skyn, að það gæti valdið skaða á veiðarfærum manna, ef skipið færi. — Skipið var eign Björgunarfjelagsins þegar þetta skeði og gert út á þess kostnað aðallega, með styrk úr bæjarsjóði Vestmannaeyja og nokkrum ríkissjóðsstyrk.

En svo hverfur Þór skyndilega á burt af netasvæðinu og mun hafa verið burtu um 3 sólarhringa. Á meðan þessu fór fram, ljeku botnvörpungar lausum hala um fiskimið Vestmannaeyinga, gerðu stórkostlegan skaða á veiðarfærum og afla, svo að sumir bátarnir töpuðu öllum netum sínum.

Þeir, sem fyrir tjóninu urðu, og margir fleiri, voru sárgramir Þór fyrir að hverfa frá gæslu veiðarfæranna og kendu stjórn Björgunarfjelagsins um.

Af þessu leiddi svo það, að stjórn Björgunarfjelagsins fór þess á leit við landsstjórnina, að veiðarfæratapið yrði að einhverju leyti bætt, en aflatjónið var ekki hægt að meta, þó vitanlegt væri, að netin voru full af fiski, þegar þau voru eyðilögð, því að þetta var þegar aflabrögð stóðu sem hæst.

Landsstjórnin tók vel í að bæta veiðarfæratjón það, sem sannað væri, að hefði af þessari fjarveru Þórs hlotist, og safnaði svo Björgunarfjelagið skýrslum formanna og hafði jeg sem framkvæmdastjóri fjelagsins forgöngu í því að koma skýrslum þessum á framfæri, veita skaðabótunum viðtöku og koma þeim til hlutaðeigenda. — Fyrir þetta vill ráðh. gera mig tortryggilegan, eins og kom fram í ræðu hans. Nú vil jeg enn minna hann á, að Þór var ekki orðinn eign ríkissjóðs í apríl 1926, heldur var það Björgunarfjelag Vestmannaeyja, sem átti hann og hafði að öllu leyti yfir honum að segja, og að skipstjóri fór þessa ferð fyrir ítrekaðar áskoranir landsstjórnarinnar. Þess vegna var það á fullum rökum bygt, að ríkissjóður bætti mönnum veiðarfæratjónið, og ekki síður fyrir það, að Þór tók í þessari ferð 4 togara, en sektir og andvirði upptæks afla og veiðarfæra þeirra námu um 60 þús. kr., er runnu í landhelgisjóð.

Hæstv. dómsmrh. telur það sök á hendur fyrv. stjórn að hafa varið helmingnum af sektarfjenu til þess að bæta veiðarfæratjónið, og hann áfellir mig fyrir að hafa tekið á móti þessum peningum til útbýtingar á milli rjettra hlutaðeigenda. Hann vildi láta Vestmannaeyinga sitja eftir með sárt enni og láta þá bera eina skaðann af veiðarfæratjóninu. Þetta er nú sýnishorn af sanngirni hans og rjettlæti, sem segja má um, að sje á sömu bókina lært og menn eru farnir að venjast hjá honum í mörgum öðrum málum.

Hæstv. dómsmrh. gerði ýmsar tilraunir til þess að dylja sannleikann og villa háttv. deildarmönnum sýn vegna þess er jeg hefi á hann borið fyrir brotin á varðskipalögunum, en þessi flækjuhjúpur hans er svo gisinn, að alstaðar sjer í gegnum; sök hans í því máli, sem jeg tók til meðferðar, verður aðeins enn berari en áður.

Hann sagði t. d., að skipverjarnir væru enn við góða heilsu, þrátt fyrir lögbroin, sem á þeim hafa verið framir,. En þetta er vitanlega ekkert annað en útúrsnúningur manns, sem finnur sig algerlega þrotinn að færa nokkur rök fyrir máli sínu.

Svo fór hann að tína til og vitna í, að ráðherrar bæði fyr og síðar hefðu hitt og þetta gert, sem telja mætti lögbrot, og komst í þeirri leit alla leið upp til Hannesar Hafsteins. Hann vildi láta líta svo út, að sá ráðherra hefði framið lagabrot, þegar hann bar ekki lotterílögin upp fyrir konungi, og það brot væri sama eðlis og hann sjálfur hefði framið með því að stinga varðskipalögunum undir stól. En sá er munurinn, að Hannes Hafstein viðurkendi aldrei, að hann hefði framið lagabrot, en það gerir hæstv. dómsmrh. og stærir sig af. En um leið og hann ber sig saman við Hannes Hafstein, mætti minna hann á hið forna spakmæli: Það, sem Júppíter leyfist, leyfist ekki uxanum.

Honum fórust orð eitthvað á þá leið, að um þetta mál væri orðið dauft og tómt. Hann álítur víst, að blekkingar hans og stjórnarblaðanna, sem beitt hefir verið í þessu máli, hafi dregið hulu yfir lagabrotin. En jeg treysti svo óspiltri dómgreind þjóðarinnar, að hún láti sjer ekki nægja þessar blekkingar, hvorki hæstv. dómsmálaráðherra nje annara samherja hans.

Hann hjelt því fram með miklum drýgindum, að hann treysti almannarómnum í þessu máli sem öðru; hann mundi sýkna sig af þessum lagabrotum. Það má vel vera, að nánustu samherjar hans geri það. En hinu má hann trúa, að óspiltari hluti þjóðarinnar gerir það ekki, og sá hluti er stór, sem betur fer, og ef til vill stærri en hæstv. ráðh. grunar.

Þá beindi hann tvívegis til mín þeirri fyrirspurn, hvað jeg áliti um framkomu fyrv. hæstv. stjórnar í þessu máli, og hvort það væri ekki alt saman gott og blessað. Því er til að svara, að fyrv. stjórn braut ekki lögin, þótt jeg hinsvegar neiti ekki, að óhæfilega langur dráttur hafi hjá henni orðið um að koma þeim í framkvæmd. Tel jeg hana eiga ámæli skilið fyrir dráttinn á að koma málinu í horf, svo að þessum ráðh. veitti ekki eins ljett og raun hefir á orðið að brjóta lögin og halla rjetti skipherra og annara manna á varðskipunum. En fyrv. stjórn gerði alt annað en núv. ráðh. Hún undirbjó málið, og hæstv. dómsmrh. hefir sjálfur lýst yfir því, að hún hafi ætlað sjer að fara eftir lögunum, og hefði þar að auki verið byrjuð að greiða mönnunum laun eftir þeim. Þetta taldi hæstv. ráðherra vera sjer vitanlegt.

Hann sagði líka, hæstv. dómsmrh., að jeg hefði sýnt, að mjer væru landhelgivarnir ekkert kappsmál, úr því að jeg hefði ekki sjeð ástæðu til að taka til máls, þegar frv. hans um loftskeyti á togurum var hjer til 1. umr. Jeg hefi orðið var við, að bæði hann og samherjar hans saka okkur andstæðingana um óþarfa mælgi, þó að síst sitji það á honum, svo að jeg hjelt þá, að hann ætlaðist ekki til, að við stæðum upp í hverju máli, og síst að hann væri beinlínis að ásaka okkur fyrir að halda ekki langar ræður við 1. umr. hvers máls. En svona er þessi dæmalausi dómsmrh. samkvæmur sjálfum sjer. Ef við látum til okkar heyra, andstæðingarnir, þá er kvartað undan því og við sakaðir um óþarfa mælgi, og ef við höfumst ekki að, þá er það líka sakargiftartilefni. Hann vill láta sjer verða mat úr flestu, jafnvel því, ef andstæðingarnir þegja.

Annars hjelt hann því fram, að við Íhaldsmenn þættumst hafa áhuga fyrir strandvarnamálinu. Þetta er rjett, að því viðbættu, að við höfum áhuga fyrir því og höfum á margan hátt sýnt þann áhuga í verki, bæði hjer á þingi og annarsstaðar. Bygging strandvarnaskipsins og framkvæmd íslenskra strandvarna fór fram meðan fyrverandi stjórn og flokkur hennar fór með völd, og var Íhaldsflokkurinn engu áhugaminni um það en sá flokkur eða flokkar, sem standa að dómsmrh. núverandi. Það skal hinsvegar fúslega játað, að þetta mál hefir aldrei verið flokksmál. Fyrv. stjórn hefir borið gæfu til, og það með stuðningi margra andstæðinga sinna, að þoka strandvarnamálinu vel á veg. Og vonandi verður svo áfram, að flokkarnir standi óskiftir um málið, nema hæstv. dómsmrh. takist að spilla því samkomulagi. Hann hefir nú um langt skeið, bæði í blaðaskrifum og ræðum, verið að reyna að vekja þann grun, að vissir menn og ákveðnir andstæðingar hans væru þessu máli ótrúir og fjandsamlegir, en sem betur fer veit alþjóð, að alt slíkt er fleipur, sem sagt er aðeins út í bláinn og enginn trúir, ekki einu sinni ráðh. sjálfur.

Að því er mig snertir og aðra Vestmannaeyinga, þá held jeg, að við höfum fyllilega sýnt áhuga fyrir þessu máli, og kannske ekki hvað síst fyrir okkar atbeina eru strandvarnirnar komnar í það horf, sem þær eru nú. Virðist því óþarft að bera okkur á brýn tvöfeldni í málinu. Hann sagði líka alldrjúglega, að það ætti eftir að sýna sig, hverjir vildu verja landhelgina og hverjir ekki. Já, það er satt; það á eftir að sýna sig, og þá gefst eflaust tækifæri til í framtíðinni að sjá, hverjir hafa heilastir reynst máli þessu. En þau afskifti, sem hæstv. dómsmrh., síðan hann komst til valda, hefir haft af strandvarnamálinu, eru ekki þann veg, að menn geti vænst, að þessi stjórn muni sjerstaklega skara fram úr í því að koma málinu í viðunandi horf.

Það er ekki nóg til þess að halda strandvarnamálinu vakandi, að vera sífelt að klifa á því, að vissir menn í þjóðfjelaginu vilji koma málinu í hel. Hæstv. dómsmrh. hefir þing eftir þing borið útgerðarmenn þessum sökum, og enn syngur við sama tón hjá honum, að útgerðarmenn vilji alt til vinna að koma strandvörnunum á knje. Út af ummælum hans á síðasta þingi neyddist jeg til þess að skýra frá því, hvað mikið útgerðarmenn hjer í Reykjavík hefðu lagt af mörkum til þess að koma Þór af stað um það leyti er Björgunarfjelag Vestmannaeyja var stofnað. Og það fje, sem skifti tugum þúsunda, ljetu reykvíkskir útgerðarmenn í fyrirtækið af því að þeir álitu eins og Vestmannaeyingar, að björgun og landhelgigæsla gætu og ættu að fara saman. Og svo eru þessir menn eltir á röndum og sakaðir um, að þeir sjeu strandvörnunum yfir höfuð fjandsamlegir, og það af manni, sem aldrei hefir látið eyrisvirði frá sjálfum sjer af mörkum í þessu skyni.

Jeg er ekki með þessu að segja, að ekki kunni eitthvað að vera satt í einstaka dæmum, sem hæstv. dómsmrh. hefir dregið inn í umr. En það er áreiðanlegt, að margt af því er ekki á rökum bygt, sem hann hefir verið að fleipra með bæði fyr og síðar.

Þá má ekki gleyma því, að hæstv. dómsmrh. hefir fengið ágætan liðsmann í þessu máli, þar sem er sjálfur yfirforinginn á danska strandvarnaskipinu, sem fór með landhelgigæsluna síðastliðið sumar. Hæstv. ráðherra var að gæða hv. þdm. á grein, sem yfirforinginn hefir ritað í danskt blað, þar sem hann kvartar yfir því, hve erfitt sje að standa íslenska togara að lögbrotum, vegna þess að skipin sjeu bygð með nýtísku sniði og hafi loftskeytatæki.

Þetta hefði þessi velþekti maður getað sagt sinni stjórn eða fyrir rjetti án þess að skaða álit landsmanna, en mjer finst það óvinsamlega gert í okkar garð að setja slíkt fram í erlendri blaðagrein.

Þetta á þó ekki að skilja svo, að jeg telji, að loftskeyti togaranna eigi að notast í þessu skyni. En hitt fullyrði jeg, að margt, sem sagt er um þetta, eru tómar ágiskanir út í bláinn. Enda mun það vera í fyrsta sinn, að útlendur maður heldur því fram á prenti, að Íslendingar noti loftskeytatækin til þess að greiða fyrir landhelgiveiðum togara sinna. Hitt er annað mál, að slíkum ágiskunum hefir verið haldið á lofti hjer heima, en í því efni mun þó hæstv. dómsmrh. hafa stigið framar en nokkur annar. En hvort foringinn á Fyllu hefir haft sínar upplýsingar frá hæstv. dómsmálaráðherra, eða ráðherrann frá foringjanum, skal ósagt látið. Kannske þeir hafi líka komið sjer saman um þetta og foringinn svo ritað grein sína. Hvernig sem því er varið, hefir ráðh. þótt gott að fá plaggið frá Bistrup.

En undarlega bregður við, þegar maður hefir fyrir sjer skýrslu forseta Fiskifjelagsins, sem birt er í „Ægi“, um legudaga danska varðskipsins í höfn árin 1926 og 1927. Sú skýrsla sýnir, að Fylla hefir legið á Reykjavíkurhöfn 68 sólarhringa 1926 og í fyrra 85 sólarhringa, en Hafnarfjörður ekki tekinn með eða aðrar hafnir, sem vitanlegt er þó um, að varðskipið hafði dvöl á. Finst mjer því, að þessi danski foringi hefði átt að liggja færri daga í höfn og reyna fremur að handsama sökudólgana heldur en að rjúka til þegar heim kemur og skrifa þessa ófrægingargrein um okkur, sem hæstv. dómsmrh. hlakkar svo mjög yfir.

Á meðan jeg var í sjútvn. hv. Ed., átti jeg kost á að fara í gegnum öll plögg um kærur yfir landhelgigæslunni, sem borist höfðu frá Englendingum, og síðari ár eru mjer sjerstaklega kunnug slík skjöl, sem komið hafa frá Þjóðverjum. Og í þessum skjölum minnist jeg ekki að hafa sjeð, að haldið sje fram, að landhelgigæsla okkar sje hlutdræg, eða önnur í garð erlendra togara en íslenskra. Í skjölum þessum er þó margt sagt um rjettarfar og annað, og sumt vitanlega alrangt, sem sprottið er af ókunnugleika hlutaðeigenda, en annað, sem hefir við nokkur rök að styðjast, og skal ekki orðlengt um það nú. Hæstv. dómsmrh. hamrar nú á því dag eftir dag á sjálfu Alþingi, að íslensku togararnir sjeu altaf í landhelgi, en þó aldrei teknir.

Ef þessar staðhæfingar verða teknar alvarlega og berast til erlendra manna, sem þykjast þurfa að kvarta yfir landhelgigæslu Íslendinga, þá má búast við, að við bætist ein kvörtun enn, og hún er sú, að við sýnum hlutdrægni í strandvörnunum með því að sleppa jafnan okkar eigin lögbrjótum. Og það er ekki sjeð fyrir, hvað af slíkum staðhæfingum kann að leiða í framtíðinni.

Hæstv. dómsrnrh. hefir nú í dag rifað seglin svo í þessu máli, að nú heldur hann því fram, að taka eigi hlutfallslega jafnmarga íslenska togara eins og erlenda. Ef hann vildi, gæti hann gengið úr skugga um það í stjórnarráðinu, að á undanförnum árum hafa mörg íslensk skip verið sektuð fyrir landhelgibrot.

En hæstv. dómsmrh. er þetta ekki nóg, enda hefir það jafnan brunnið við hjá honum hjer á Alþingi, að honum þykja togaraútgerðarmenn aldrei verða fyrir nógu miklum fjárútlátum. Ráðherrann hefir sennilega fundið til þess, að hann hefir þegar tekið of djúpt í árinni um togaraveiðar Íslendinga í landhelgi og það, að þeir væru aldrei sektaðir, og hefir því komið með þetta síðasta, að hann vilji, að þeir sæti sektum eins og aðrir, til að breiða yfir fyrri stóryrði sín, og vill nú gjarnan láta þau gleymast. En jeg staðhæfi, að þessi orð, sem jeg hefi nú haft eftir hæstv. dómsmrh., eru rjett eftir höfð, því að jeg skrifaði þau upp eftir honum, enda koma þau heim við tal hans og skrif um íslenska útgerð og íslenska togara fyrr og síðar, sem alt sýnir ljóslega tilhneigingu hans til þess að ganga fram yfir þau takmörk, sem eru fyrir því, sem leyfilegt er eða rjett.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að fyrv. stjórn hefði ekkert gert til þess að hindra lögbrot ísl. togara.

Hvernig á að skilja þetta, þegar það er vitað, að fyrv. stjórn starfaði mjög mikið að því að bæta landhelgigæsluna, og hvernig getur þetta samrýmst þeirri staðreynd, að fyrv. stjórn og þing ljetu byggja nýtt skip til þess að verja landhelgina fyrir öllum togurum? Veit hæstv. ráðh. til þess, að fyrv. stjórn hafi lagt svo fyrir við þetta skip, að það skyldi ekki gegna skyldu sinni gagnvart íslenskum togurum? — Orð hæstv. ráðh. gefa í skyn, að hann viti eitthvað meira en alþýða manna í þessu efni, og er þá rjett að krefja hann sagna, sem hafi við sönn rök að styðjast, en jeg býst við, að lítið verði úr rausi hans, ef skorað er á hann að reyna að sanna áburð sinn á íhaldsmenn um óheilindi í strandvarnamálinu.

Jeg vil nú benda hæstv. stjórn á það, sem jeg álít vera besta ráðið til þess að hindra landhelgibrot togaranna. Það er að láta varðskipin vera á verði.

Hæstv. stjórn hefir að vísu ekki sparað að láta þau hreyfa sig, en bara ekki til þess að gæta landhelginnar, því að það hefir aldrei kveðið eins mikið að því og síðastliðið haust, að varðskipin hafi verið notuð í allskonar snattferðir, stundum með hæstv. dómsmrh. sjálfan og stundum með hina og aðra gæðinga stjórnarinnar hingað og þangað kringum landið.

Þá leyfði hæstv. dómsmrh. sjer að snúa út úr því, sem jeg sagði um risnu skipstjóranna á varðskipunum.

Jeg benti á þann kotungsbrag, sem væri á því, að skipstjórarnir gætu ekki tekið eins og stöðu þeirra sæmir á móti mönnum, sem sæktu þá heim í embættisnafni, t. d. yfirmönnum annara varðskipa, lögreglustjórum o. s. frv. — Hæstv. ráðh. vildi gera það úr þessu, að jeg ætlaðist til þess, að þeir hjeldu stórveislur. Hann vissi þó vel, að enginn ætlast til þess, en hitt er oft óhjákvæmilegt, að skipstjórarnir geti haldið sig sæmilega, þar sem þeir fara með slíkt embætti, sem er löggæsla fyrir ríkisins hönd, og þar sem skipin eru björgunar- og hjálparskip um leið, þá kemur það oft fyrir að þau verða að taka við mönnum og halda þá um borð í nokkra daga. T. d. kom það fyrir nú í vetur, að 12 varðmenn, sem áttu að fara í þýska togara, teptust í Óðni í heilan sólarhring við Vestmannaeyjar. Brytinn um borð selur skipshöfninni kost fyrir vissa upphæð á mann á dag og vill auðvitað hafa sína borgun strax.

En hvert eiga þessir menn eða t. d. strandmenn, er skipin kunna að flytja og ekkert hafa nema fötin, sem þeir hafa bjargast í, að snúa sjer um hjálp til þess að greiða matinn fyrir sig, nema til skipstjórans?

En hæstv. dómsmrh. vill ekki hafa svo mikið við þá, að hann vilji, að þeir sjeu þess megnugir að gefa manni málsverð, þegar svo stendur á.

Hann segir, að jeg sje altaf með herskip í huga, þegar jeg sje að tala um þessa varðbáta. Nú veit hann vel, að þar sem jeg var frsm. þeirrar nefndar, er um varðskipalögin fjallaði, þá samdi jeg nál. og tók það þar skýrt fram, að skipin væru varðskip og ekki herskip. Það er eins og vant er hjá þessum hæstv. ráðh.; hann skirrist ekki við að fara með rangt mál til að reyna að hnekkja málstað andstæðinga sinna. Jeg sje nú, að hæstv. stjórn flýr salinn. Jeg hefi það ekki á valdi mínu að halda henni kyrri, en jeg treysti mjer til að láta hana heyra til mín inn í ráðherraherbergið.

Hæstv. dómsmrh. hefir ekki tekist að færa nein rök að því, að laun skipstjóranna á varðskipunum sjeu sambærileg við laun skrifstofustjóranna í stjórnarráðinu, og þegar jeg benti á, að laun skipstjóranna á skipum Eimskipafjelagsins og strandferðaskipi ríkissjóðs eru þau einu laun, sem sambærileg eru við laun skipstjóranna á varðskipunum, þá var það fangaráð hans í rökþroti að klifa á því, að þau laun væru alt of há. Jeg skal ekkert segja um það, hvort þau eru of há, en hinu verð jeg að halda fram, að meðan hæstv. stjórn lækkar ekki laun skipstjórans á strandferðaskipi ríkissjóðs, þá sje það ranglátt að láta skipstjórana á varðskipunum búa við lægri kjör, eins og er nú sem stendur.

Það er vitanlegt að Eimskipafjelag Íslands gengur út frá því, að skipstjórar þess geti haldið starfinu áfram alt fram að 60 ára aldri, og komi þá á eftirlaun, en samkv. till. stjórnarinnar er gert ráð fyrir því, að stjórnin geti ráðið skipstjóra til 6 ára, en eftir þann tíma vill hún hafa lausar hendur til að segja þeim upp. Það sjá allir, hve mikil sanngirni er í því að ætlast til þess, að bestu og duglegustu menn fáist í stöður fyrir helmingi minni laun en menn í sambærilegum stöðum hafa, og það ekki nema til 6 ára, en svo sje hægt að sparka þeim. Ekki er heldur gert ráð fyrir því, að þessir menn fái laun nema meðan þeir eru í blóma aldurs síns, því að þeim eru ekki ætluð nein eftirlaun, heldur má stjórnin vísa þeim algerlega frá eftir 6 ár, ef stjórninni býður svo við að horfa.

Hæstv. ráðh. sagði, að mínar till. í þessu máli væru „Gullasch“-tillögur, þar væri „Gullasch“-hugsunarháttur á bak við það að vilja, að skipstjórarnir hefðu sæmileg laun. Ef það er „Gullasch“-hugsunarháttur að krefjast þess, að embættismönnum ríkisins sjeu greidd að minsta kosti lögmælt laun, þá skal jeg kannast við, að jeg hugsi eins og „Gullasch“. Með því að ofsækja skipstjórana eins og hæstv. ráðh. hefir gert og láta aðstöðu þeirra og kjör vera sem allra ótryggust, með því er verið að grafa undan hlýðninni á varðskipunum, eins og líka gert er í frv. stjórnarinnar, og stofna þar með landhelgigæslunni í hinn mesta voða.

Þetta skjal, sem hjer liggur fyrir framan mig, er brjef dómsmrh. til skipstjóranna, dags í des. 1927; er það alveg einstakt í sinni röð. Jeg þori að fullyrða, að aldrei hefir samskonar skjal legið fyrir þessu þingi. Í því er bein yfirlýsing dómsmrh. landsins um það, að hann ætli ekki að greiða þessum embættismönnum þau laun, sem þeim eru ákveðin með lögum, heldur aðeins það, sem hans geðþótti býður honum, og það tiltekur hann í þessu merkilega brjefi. Enginn ísl. ráðh. hefir nokkurntíma fyr nje síðar framið slíkt frægðarstykki og þetta. Það má segja um hæstv. ráðh. eins og segir í einu kvæði Ibsens um ungan sjómann, sem komið hafði sextugum öldungi á knje: „Hans fyrsti sigur var þessi þraut, og því bar hann kollinn hátt.“

Það er sýnt og sannað, að hæstv. dómsmrh. hefir brotið lög. Þetta hefi jeg og aðrir borið á hann, og hann hefir ekkert haft fram að færa sje, til málsbóta annað en ósannindi og blekkingar og tilvitnanir í það, að aðrir hafi gert sig seka um það sama.

Eins og kolkrabbinn spýtir sortunum til þess að hylja sig og komast undan, eins notar hæstv. dómsmrh. þá aðferð að beita hjer blekkingum og ósannindum til þess að villa mönnum sýn.

Jeg vildi nú, ef hæstv. forsrh. (TrÞ) er svo nálægur, að hann megi heyra mál mitt, gjarnan leggja eina spurningu fyrir hann í sambandi við þá fjálglegu yfirlýsingu, sem hann gaf hjer í hv. deild í gær.

Hæstv. forsrh. sagði: „Hvað sem minni stefnu líður, þá verð jeg að hlýða lögunum.“ Þetta þótti mjer vel mælt og stinga mjög í stúf við það, sem hæstv. dómsmrh. hefir gert í varðskipalagamálinu. Nú hefir hæstv. forsrh. ennfremur lýst yfir því, að hann skuli með mikilli gleði og ánægju bera ábyrgð á öllum gerðum hæstv. dómsmrh. Nú er það vitanlegt öllum landslýð, að hæstv. dómsmrh. hefir með aðgerðum sínum um framkvæmd varðskipalaganna brotið lög og þar með traðkað vilja þingsins og brotið rjett á starfsmönnum landsins.

Hæstv. forsrh. vill hlýða landslögunum, — en vill hann þá ekki afsala sjer ábyrgðinni á þessu lagabroti? Er honum nokkur gleði eða ánægja í því að bera ábyrgð gerða hæstv. dómsmrh. í þessu máli?

Jeg vona, að svo sje ekki. Jeg vona, að þessi orð hans hafi verið af heilum huga sögð og að honum sje það eins vel ljóst og mjer, hver skylda landsstjórninni ber til þess að hlýða lögum landsins og halda þeim í heiðri; því að það er grundvöllurinn undir löghlýðni landslýðsins.

Jeg ætlaði að minnast hjer á annað mál, sem mjög mikið hefir verið talað um hjer, þótt ekki hafi verið minst á eitt mjög merkilegt atriði í því sambandi.

Það mál er Shellfjelags-málið. Því hefir verið lýst hjer, að þetta ákaflega volduga olíufjelag hefir nú sett upp nýtísku olíugeyma við Skerjafjörð, og það er vitanlegt, að fleiri stór olíufjelög eru á leiðinni að gera slíkt hið sama. Þetta er vitaskuld leiðin til þess, að þessi vara fari að fást hjer með tilsvarandi verði eins og erlendis, ef hægt er að flytja hana til landsins á nógu stórum skipum. Enda er það vitanlegt, að um leið og Shell tók til starfa hjer, lækkaði olíuverðið um 10–20%, mismunandi eftir tegundum. Þetta mun auðvitað hafa stórkostlegar afleiðingar til bóta á allan bátaútveg landsins, og jeg álít, að allar tilraunir í þá átt að gera hann ódýrari fyrir landsmenn sjeu allra góðra gjalda verðar.

En hæstv. dómsmrh. var ákaflega úrillur út í þetta fjelag í ræðu sinni, í gær. Jeg fyrir mitt leyti sje ekki meiri ástæðu til að óttast verslun Shellfjelagsins en annara fjelaga. Jeg sje ekkert hættulegt við það, að Shellfjelagið, British Petroleum Co. og Standard Oil keppi hvert við annað um olíusöluna og þrýsti verðinu niður.

En hæstv. dómsmrh. tók aðra hlið á framkvæmdum Shellfjelagsins við Skerjafjörð. Hann taldi þær svo stórfeldar, að þar hlyti að búa eitthvað stórpólitískt á bak við.

Hann lýsti því með afar sterkum litum, hvílík geysileg hætta gæti stafað af þessum olíugeymum, sem væru svo stórir, að þeir fullnægðu tvö- eða þrefaldri þörf landsmanna; þeir tækju svo mikið, að það mundi duga landinu til margra ára o. s. frv., og þeir mundu nægja heilum herskipaflota sem olíuforðabúr.

Þessu lýsti dómsmrh. yfir úr ráðherrastóli í gær, og það dagblað hjer í bænum, sem styður stjórnina, prentaði í gær með feitu letri fyrirsagnirnar að greinum um þetta, greinum, sem bygðar eru á ummælum ráðherrans.

Ef eitthvað væri nú hæft í þessu, þá er það auðvitað mál, að sumum erlendum þjóðum mundi þykja það allhart, ef Íslendingar færu að leyfa Bretum að byggja olíustöð, sem nægði heilum herskipaflota í stríði.

Einhver frekar gálaus frjettaritari þýska stórblaðsins „Vossische Zeitung“ hjer á landi símar því blaði þá fregn, að hjer væri búið að leyfa Shellfjelaginu að byggja geysistóra olíustöð, sem tæki 18 þús. smál. af olíu, og benti alt skeytið á, að frjettaritarinn hjeldi, að hjer mundi búa eitthvað á bak við. Út af þeim greinum, sem síðan birtust um þetta mál í „Vossische Zeitung“, átti sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn tal við „Berlingske Tidende“ um málið, og vil jeg leyfa mjer að lesa hjer upp tilkynningu frá sendiherra Dana hjer frá 7. jan. síðastl., sem segir frá því, sem sendiherrann lætur B. T. hafa eftir sjer, með leyfi hæstv. forseta:

„Vossische Zeitung“ hefir birt símskeyti frá Reykjavík, þar sem frá því er skýrt, að bygging olíugeymslustöðvanna á Íslandi standi í sambandi við flotafyrirætlanir Breta. „Berl. Tidende“ hafa í tilefni af þessu haft tal af Sveini Björnssyni sendiherra, og ljet hann í ljós undrun sína út af því, að þetta skyldi geta komið fram, þar sem það væri algerlega rakalaust. Hann segir, að það sje ekki einu sinni farið rjett með stærð olíugeymanna, þar sem sagt er, að þeir taki 18000 smálestir, hví að þeir taki ekki nema 10 þús. smálestir, og þar af aðeins helminginn af steinolíu. Þetta skýrist og betur, þegar þess er gætt, að steinolíueyðslan á Íslandi sje um 8000 smál. á ári. Olíugeymarnir muni því brátt verða of litlir, sjerstaklega ef farið verður að nota olíuvjelar í togarana.

„Politiken“ hefir flutt leiðrjettingarskeyti frá Skúla Skúlasyni, og fer það í sömu átt og ummæli sendiherrans. Bæði skeytið og ummæli sendiherra hafa verið send til enskra og þýskra blaða“.

Þessu lýsir sendiherra Íslands yfir í tilefni af þessu fleipri frjettaritarans í þýska blaðinu um hernaðarfyrirætlanir Breta hjer á landi, til þess að hnekkja þessum söguburði, sem auðvitað gat orðið til þess að vekja tortrygni erlendra þjóða í okkar garð.

Þetta álít jeg sjálfsagt og rjett að gera, og jeg vil álíta, að ef það hefir ekki verið gert beinlínis að undirlagi hæstv. stjórnar, þá hafi það a. m. k. verið gert með hennar ráði og í fullu samræmi við vilja hennar. Því að það er venja, að það, sem sendiherra eins ríkis lýsir yfir í embættisnafni, það er tekið sem yfirlýsing frá stjórn þess ríkis sjálfri.

Nú líður og bíður og er hljótt um málið, þangað til hæstv. dómsmrh. (JJ) stendur upp og lýsir því úr ráðherrastóli á þingi þjóðarinnar, að hjer muni vera um stórhættulegt fyrirtæki að ræða, sem miði til þess að draga úr sjálfstæði Íslands og gera það að stöð fyrir erlendan herskipaflota.

Hann segir alt annað en sendiherrann, þar sem hann (sendih.) hefir lýst yfir því, að geymarnir samsvöruðu neysluþörf landsmanna, en hæstv. dómsmrh. lýsir yfir því, að þeir sjeu svo tortryggilega stórir, að þar hljóti að búa eitthvað á bak við.

Ef hann ætlast til, að tal hans sje tekið í alvöru, — hvorum ætlar hann útlendu stórveldunum að trúa, dómsmálaráðherra Íslands eða sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn?

Við hjer heima vitum, að það er dómsmrh., sem fer með rangt mál, en það vita útlendingar síður. Hefir hæstv. ráðherra gert sjer ljóst, hvað af tali hans um þetta getur leitt? Grýlan, sem frjettaritarinn vakti upp og stórblöðin utanlands fluttu um allan heim, er kveðin niður í bili, þegar sendiherra landsins skýrir frá rjettum málavöxtum. En þegar frjettaritarinn er þagnaður og öfgar hans kveðnar í kútinn, þá tekur dómsmálaráðherra við og byrjar á hinu sama. En er þá ekki alveg eins hætt við, að grýlan verði vakin upp aftur og geti orðið landinu hættuleg? Bæði þetta mál og strandvarnamálið hafa afar næma þýðingu gagnvart erlendum þjóðum, og þær gefa þeim mjög nákvæman gaum. Það vita allir, að ekkert er til, sem kveikir annan eins funa hjá stórveldunum og ef þau halda, að eitthvert ríki sje að búa sig undir ófrið, og ekki síst, ef grunur leikur á, að það hafi aflað sjer góðrar aðstöðu á einhverjum stað, sem hefir hernaðarþýðingu.

Um strandvarnamálið er það að segja, að út af því hafa risið og munu vafalaust rísa óþægilegir árekstrar. Sú verður oftast raunin á, að þeir, sem teknir eru í landhelgi, telja sig beitta ranglæti, og af þessu geta svo risið erfið mál milli ríkja.

Í þessum málum hefir hæstv. dómsmrh. sýnt frámunalegt gáleysi. — Í strandvörnunum gerir hann alt það, sem hann getur, til þess að veikja aðstöðu Íslendinga út á við. Hann segir það opinberlega, að hjer gangi lögin ekki jafnt yfir alla. Og í hinu málinu, um olíugeymana, tekur hann sjer í munn orð kærulauss frjettaritara, yfirlýsingu, sem erlendis vekur kala til þessarar þjóðar. Jeg þarf ekki að eyða mörgum orðum til að sýna, hve óskaplega slík ógætni ráðherrans getur verið hættuleg þjóðinni.

Jeg er áður búinn að lýsa því, hvernig hæstv. dómsmrh. hefir virt að vettugi yfirlýstan vilja Alþingis í varðskipamálinu og launalagamáli skipverja á þeim. Þegar verið var að tala um Spánarsamninginn hjer í kvöld, margendurtók hann þessi orð: „Jeg er bundinn af vilja þingsins“. En í þessu máli finst hæstv. ráðh. hann ekki vera bundinn af vilja þingsins. Hann þykist bundinn af vilja þingsins, þegar það hentar honum og þeim, sem hann vill þóknast, en sú binding nær ekki lengra en honum sýnist. Þegar hann sjer sjer færi til að láta tvo starfsmenn landhelgigæslunnar kenna aflsmunar, þá er hann ekki lengur bundinn af vilja þingsins. Ráðherrann skeytir þar engu um lög eða rjett nje vilja þingsins.

Jeg drap á það áðan, að á borðinu fyrir framan mig lægi plagg, sem er einsdæmi í sögu þjóðarinnar. Það er skjalið frá hæstv. dómsmrh., þar sem hann lýsir yfir því, að hann ætli ekki að hlýða vilja þingsins. Nú vil jeg leyfa mjer að spyrja hv. þdm.: Hvað er að verða úr rjettarörygginu í þessu landi? Jeg segi: Því stafar hætta af gerræði þess manns, sem nú skipar sess dómsmálaráðherra. Og sjálfstæði landsins er stórhætta búin vegna ógætni hans. Hann virðist ekki hafa hina minstu hugmynd um þá ábyrgð, sem á honum hvílir í því virðulega embætti, sem hann gegnir. Einnig eftir að hann varð ráðherra, heldur hann áfram að vera það, sem hann áður var — skuggavaldur í íslensku stjórnmálalífi.