19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það var ekki vegna brtt. á þskj. 519, sem jeg ætlaði að segja nokkur orð, því að jeg tel ekkert athugavert við það, að hún verði samþ. Mig langaði til að segja örfá orð, áður en mál það, sem hjer er til umr., verður afgreitt að fullu frá hv. deild. Með væntanlegri samþ. þessa máls er bætt nokkuð úr brýnustu lánsþörf landbúnaðarins. Jeg er þeirrar skoðunar, að gera þurfi miklu meira en nú þegar hefir verið gert, og er þetta því engin lokaniðurstaða. Fyrir næsta þing álít jeg, að þurfi að leggja frv. um fullkominn landbúnaðar- og fasteignabanka, og jafnframt því, sem afgreiðsla þessa máls, sem nú liggur fyrir til samþ., ætti að vera til mikilla bóta, er það einn liðurinn til þess að koma þeim banka á fót. Vildi jeg láta hv. deild vita það, að ef mjer endist heilsa til, mun jeg vinna að því fyrir næsta þing, að hægt verði þá að leggja fyrir þingið frv. um fullkomna lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, sem geti fullnægt þörfum bænda á öllum sviðum. Vona jeg, að þegar fullnaðarsporið verður stigið til þess að koma á slíkri stofnun, þá fái það jafngóðar viðtökur og það mál, sem nú er til meðferðar.