02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

47. mál, kosningar til Alþingis

Magnús Jónsson:

Jeg hefi jafnan verið því mótfallinn, að farið verði að flytja kjördaginn, og mun svo verða einnig nú, ef ekki verða borin fram ný rök flutningnum til stuðnings. Það fer svo hjer sem annarsstaðar, að annar aðilinn hefir ekki á algerlega röngu að standa, en hinn á rjettu að standa. Báðir þessir dagar, sem um er rætt, eru nokkurnveginn góðir, en þó tel jeg engan vafa geta leikið á því, að fyrsti vetrardagur sje hentugastur í góðu tíðarfari, bæði til sjós og sveita. Eins og menn vita, getur tíðin verið dálítið misjöfn um það leyti árs, enda hefir því óspart verið haldið á lofti. Þó hefir lakasta reynslan af þessum degi sýnt það, að kosningar voru þá sóttar í betra meðallagi. Finst mjer því óþarfi að vera að hringla nokkuð með kjördaginn, því að verði hann settur 1. júlí, er enginn efi á því, að fram kemur krafa um að flytja hann aftur á 1. vetrardag. Tel jeg, að þingið ætti ekki að breyta lögum, þegar ástæðan fyrir breyt. er jafnlítil og hjer er.