22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2480 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg hefi í raun og veru ekki mikið að segja fyrir hönd n., því að eins og sjá má á nál. á þskj. 370, hefir n. fallist á að fylgja fram frv., enda þótt nokkur ágreiningur sje um ýms smærri atriði. Aðalágreiningurinn er um það, hvort ríkissjóður skuli leggja fram 2/5 kostnaðar eða Meiri hl. n. vill láta þetta atriði haldast eins og hv. Ed. skildi við það, einkum þar sem upprunalega er í frv. stj. gert ráð fyrir, að ríkissjóður borgi helming kostnaðarins. Hv. Ed. hefir fært þetta niður í 2/5, og meiri hl. n. sjer ekki ástæðu til að breyta því.

Brtt. eru á þskj. 382 og 383. Jeg skal gera nokkra grein fyrir brtt. okkar hv. 2. þm. G.-K. á þskj. 382. Fyrri brtt. okkar er þess efnis, að annar málsl. 2. gr. frv. falli niður, en hann hljóðar svo:

„Skal ábyrgð sýslunnar vera samþykt á tveim aðalfundum í röð, með minst 2/3 atkvæða allra sýslunefndarmanna, enda sje slík samþykt eigi eldri en tveggja ára, þá er ríkissjóðsábyrgðin er veitt“.

Þetta ákvæði finst okkur þrengja um of aðgang að því, að byrjað sje á þessum mannvirkjum, auk þess sem það er alveg óvanalegt, þegar líkt stendur á, að setja slík ákvæði. Okkur virðist það vera til ónauðsynlegs trafala og tilgangslaust að krefjast samþykkis tveggja sýslufunda í röð, nema því aðeins, að skift sje um menn í sýslunefnd með nýjum kosningum. Ef ábyrgðin er samþ. af sýslunefnd, er þess varla að vænta, að sú sama n. hafi skift um skap til næsta árs. Það gæti verið öðru máli að gegna, ef kosið væri í sýslunefnd á milli aðalfundanna. En það er ekki gert ráð fyrir því. Nú er það vitanlegt, að frá þeim sýslunefndum, sem hjer eiga hlut að máli, hefir borist eindregin áskorun til Alþingis um að sinna þessu máli. Og þar sem viðurkend er nauðsyn málsins, virðist einkennilegt að vera að leggja þann þröskuld á veg þess, sem þessi annar málsliður 2. gr. er.

Seinni till. okkar er um það, að heimilt skuli vera að innheimta hafnargjöld jafnskjótt og byrjað er á hafnarmannvirkjunum. Þetta virðist vera nauðsynlegt, til þess að höfninni aflist tekjur, því að vel getur farið svo, að þó að byrjað sje á hafnarmannvirkjum, eigi fullkomnun fyrirtækisins langt í land.

Að lokum vil jeg lýsa yfir því, að þrátt fyrir þann ágreining, sem orðið hefir í n., leggur hún ríka áherslu á, að málið verði afgr. frá þinginu, og telur þær framkvæmdir, sem frv. fjallar um, nauðsynlegar.