22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Haraldur Guðmundsson:

Jeg vildi aðeins gera fyrirspurn til hv. sjútvn. Jeg sje, að í 11. gr. frv. er ákveðið, hvaða tekjur hafnarsjóður skuli hafa, og að helmingur af hækkun lóðarleigu í Höfðahólalandi eigi að renna í hafnarsjóð. Nú eru Höfðahólar landssjóðsjörð, eftir því sem jeg best veit; en jeg hygg, að jeg muni það rjett, að Spákonufell, sem er einstaks manns eign, eigi að nokkru leyti land að höfninni. Nú vil jeg beina þeirri fyrirspurn til sjútvn., hvort hún hefir athugað þetta, og þá um leið, hvort til þess sje ætlast, að eigandi þeirrar jarðar fái í sinn vasa þá verðhækkun á landi hans, sem leiðir af hafnarmannvirkjum á þessum stað. Jeg tel sjálfsagt að veita hreppnum eða hafnarsjóði nú þegar eignarnámsheimild til þessa lands, er að höfninni liggur. Gera má ráð fyrir, að þarna rísi upp bær, og hækka þá lóðir ört í verði. Þá verðhækkun á auðvitað sveitarsjóður eða hafnarsjóður að fá.